Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 17:09:00 (490)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Það er þakkarvert að hér skuli fara fram umræða um skólamál enda tilefnin orðin mörg. Auðvitað hefði verið gott ef við hefðum getað gefið okkur lengri tíma eða bútað þessa umræðu meira í sundur

en kostur er á. En það verður ekki á allt kosið og í sjálfu sér held ég að unnt sé að koma ýmsum skilaboðum á framfæri við hæstv. ráðherra. Ég tel ástæðu til þess að þakka frummælendum báðum fyrir það hvernig þau lögðu málin fyrir og ég held að það hafi í sjálfu sér greitt fyrir því að hér hefði átt að geta farið fram fagleg umræða í öllum meginatriðum þó að mál vilji náttúrlega fara dálítið út og suður eins og gengur í þessari virðulegu stofnun.
    Satt best að segja er það þannig að þegar maður hugleiðir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í menntamálum verður jafnvel manni eins og mér, sem er nú þekktur fyrir ýmislegt annað, í fyrstunni eiginlega orðfall vegna þess að menn hafa sýnt skólunum í landinu ótrúlegt tillitsleysi, börnunum og unglingunum sem eru þar, kennurum og skólastjórnendum, skólanefndum og sveitarstjórnum. Einhver mundi kannski nota þau orð að þar hafi verið gengið um á skítugum skónum eða eitthvað þvíumlíkt en ég ætla í sjálfu sér ekki að gera það. Ég verð að segja eins og er að mig setur iðulega hljóðan þegar ég hugsa um hvernig menn hafa farið með þessi mál í menntmrn. á undanförnum mánuðum, þar sem menn höfðu um nokkurra ára skeið gert tilraunir til að stilla saman strengi skólastéttanna á Íslandi á þeim forsendum að samstaða yrði til um það sem ég hef kallað íslenska skólastefnu, þ.e. stefnu sem gengur út á það að lyfta skólanum ofar á forgangslista þjóðfélagsins, þannig að menntamálin séu mikið framar en þau hafa verið í hinni almennu, félagslegu og pólitísku efnahagslegu umræðu. Ég leit aldrei á það sem hlutverk mitt í menntmrn. að knýja þar fram flokksstefnu af neinu tagi heldur að leita að samnefnara. Samnefnara sem væri sæmileg sátt um í hinu almenna íslenska skólakerfi og ég get út af fyrir sig viðurkennt að sjálfsagt er í einhverjum tilvikum hægt að benda á að það hafi ekki tekist fullkomlega. T.d. tel ég að okkur hafi ekki tekist það í kjaramálum framhaldsskólakennara svo ég nefni dæmi. En á öðrum sviðum að því er varðar hina almennu framkvæmdaáætlun í skólamálum til næstu ára, þá tókst það vel. Það var mjög mikil samstaða um þá stefnu. Hún kom t.d. fram á Alþingi í því að lög um leikskóla voru samþykkt samhljóða, lög um grunnskóla voru samþykkt samhljóða, m.a. með ágætum stuðningi núv. hæstv. forseta Alþingis og núv. hæstv. menntmrh. Þarna hafði í rauninni fundist víðtækur samnefnari. Mér finnst að Sjálfstfl. hafi núna því miður, eins og stundum áður í menntmrn., horfið frá þessari grundvallarhugsun og það sé verið að reyna að knýja fram stefnu sem byggist á allt öðrum forsendum. Mér finnst að stefnan einkennist af tvennu. Annars vegar er tilskipanastíllinn sem er mjög líkur því sem tíðkaðist í ráðherratíð Sjálfstfl. í menntmrn. hér áður, og hins vegar er einkavæðingarkreddan. Mér finnst að út af fyrir sig geti menn rætt um aðferðir, m.a. einkavæðingu og einkaskóla. Mín vegna má gera það. En menn eiga auðvitað aldrei að fórna grundvallarmarkmiðum í uppeldisstarfi fyrir kreddur af hvaða tagi sem þær kunna að vera. Mér finnst að það hafi í raun og veru því miður verið þannig að menn hafi fórnað grundvallaratriðum á altari kreddu, ekki pedagógískrar kreddu, ekki uppeldislegra skoðana, heldur rekstrarlegra skoðana, tiltekinna mjög þröngra sjónarmiða sem aðeins minni hluti Sjálfstfl. stendur á bak við. Eins og m.a. hefur komið í ljós í þessari umræðu og í umræðunni úti í þjóðfélaginu er aðeins brot af Sjálfstfl., það er kredduparturinn af íhaldinu, sem getur í raun og veru tekið undir þessi sjónarmið. Við þessu vil ég almennt vara.
    Ég gæti í þessum efnum farið yfir ýmsa hluti. Ég gæti t.d. farið yfir bréf aðstoðarmanns menntmrh. um framkvæmdarstefnu ritsins Til nýrrar aldar. Þetta bréf lýsir svo miklum hroka og lítilsvirðingu gagnvart skólastéttum að það er algerlega ótrúlegt. Ég bendi á það í allri vinsemd að það fólk er ekki tilfinningalaust sem hefur starfað að því að reyna að ná samstöðu um þessi mál. Að þessi stefna er birt í minni tíð liggur auðvitað fyrst og fremst í því að ég lét hefja störf við þetta í nóvemberlok 1988 og þau tóku langan tíma. Og það var eitt sem mér gramdist við birtingu stefnunnar fyrst og fremst. Það var það að ekki skyldi vera hægt að koma plagginu út fyrr en nokkrum mánuðum fyrir kosningar. Það spillti fyrir því. Mér fannst það ódýrt af núv. menntmrh., sem vissi hve faglega var unnið að málinu, að reyna að gera skjalið tortryggilegt með orðum sínum hér áðan. Mér fannst það óþarflega ódýrt miðað við það hvernig þessi mál hafa verið lögð upp.
    Ég tel t.d. að framkoman við Menntaskólann við Hamrahlíð sé tilskipanastíll. Þar er ráðuneytið að hlutast til um innri mál framhaldsskólanna þar sem Menntaskólinn við Hamrahlíð er að reyna að taka á tilteknum innri vandamálum. Mér finnst það vera eins að því er varðar Kennaraháskóla Íslands. Ég dreg í efa að nokkurn tíma hafi háskólastofnun á Íslandi verið sýnd önnur eins lítilsvirðing og að skipa henni að breyta sínu námi í grundvallaratriðum með aðeins tíu daga fyrirvara. Og hvernig er það, hafði hæstv. menntmrh. og Alþingi og ríkisstjórnin ekki áður möguleika á að grípa þarna í taumana? Jú, að sjálfsögðu þegar lögin um Kennaraháskóla Íslands voru sett. Þau voru sett veturinn 1987--1988. Þá er Birgir Ísl. Gunnarsson menntmrh. Hann gerir ítarlega grein fyrir því í sinni ræðu hvaða rök eru fyrir því að taka upp fjögurra ára kennaranám. Er einhver sem mótmælir því? Nei. Er einhver sem fagnar því? Já. Hverjir? Allir. Fleiri, fleiri ræðumenn úr öllum flokkum fögnuðu frv. eins og það kom fyrir. Engar athugasemdir af neinu tagi. Og bara til að sýna hver samstaðan var í raun og veru þá segir frsm. menntmn. Nd. á sínum tíma, Sverrir Hermannsson, þetta. Þetta er ræða hans í heild, virðulegi forseti sem ég fer núna með.
    ,,Menntmn. hefur fjallað um frv. til laga um Kennaraháskóla Íslands og leggur einróma til að það verði samþykkt eins og hv. Ed. gerði það úr garði.``
    Engar athugasemdir. Og þess vegna er það auðvitað skiljanlegt að það komi forráðamönnum Kennaraháskólans á óvart, að ekki sé meira sagt, hvernig að þessu er staðið. Það eru send tilskipunarbréf. Það er ekki kallað á forráðamenn þessara stofnana til samtala um málið. Það eru tilskipunarbréf í fornum stíl eins og tíðkuðust hér fyrr á öldum. Þetta gengur auðvitað ekki.

    Ég hef mjög knappan tíma, virðulegi forseti, miðað við hvað það er í rauninni margt sem væri hægt að segja um þetta mál. Ég ætla aðeins að víkja að örfáum atriðum sem komu fram í máli hæstv. ráðherra.
    Í fyrsta lagi segi ég í sambandi við skólagjöldin að það bersýnilegt að hann hefur dregið í land. Það er bersýnilegt að ráðherrann viðurkennir núna að hann er á tæpu vaði með að leggja á skólagjöld samkvæmt gildandi framhaldsskólalögum. Það er gott að hann hefur áttað sig á því gagnstætt því sem hann fullyrti í sjónvarpi um það leyti sem þessi umræða hófst að það væri hægt að leggja þessi skólagjöld á samkvæmt framhaldsskólalögum. En ég segi: Ég tel þetta stórhættulega braut í grundvallaratriðum vegna þess að hún vinnur á móti þeirri grunnhugsun í skólakerfinu að stuðla að jöfnun í aðstæðum til menntunar. Hér er ekki verið að leggja á skatt eftir efnum og ástæðum. Hér er verið að leggja á nefskatta sem koma þyngra á þá sem litla fjármuni hafa en aðra. Ég segi því alveg eins og er: Mér er skapi næst að biðja hæstv. menntmrh. úr þessum stól um að hugsa sinn gang, átta sig á því að þetta er hættulegt. Þetta er varasamt fyrir jafnréttisþróun íslenska skólakerfisins. Og ég bið menn í rauninni í hvaða flokki sem þeir eru að íhuga að þetta getur haft hættulegar afleiðingar.
    Ég ætla að víkja lauslega að framhaldsskólanum. Það er út af fyrir sig athyglisvert sem hæstv. menntmrh. segir að það var gáleysislegt að ákvarða að framhaldsskólinn ætti að vera fyrir alla. Hann sagði: Það vantaði fyrirhyggju. Ég get tekið undir margt af því sem hann sagði í þessum efnum. Hins vegar bendi ég á að framhaldsskólalögin voru ekki í sett minni tíð heldur áður. Við stóðum frammi fyrir því verkefni, sem er flókið og að sumu leyti óleysanlegt eins og staðan er í dag, að taka við öllu þessu fólki þar sem vantaði í raun og veru undirbúning að því er varðaði kennara, að því er varðaði húsnæði, að því er varðaði fjármagn og að því er varðaði námsframboð. Hvert er okkar svar í þessu efni? Okkar svar er það að breyta framhaldsskólanum í grundvallaratriðum þannig að fólk geti lokið námi til tiltekins prófs á einu eða einu og hálfu ári en ekki þurfi allir að taka stúdentspróf eða sveinspróf. Með þessu móti sáum við fram á að það væri hægt að spara stórkostlega í framhaldsskólunum vegna þess að í dag er það þannig að af 16 þúsund nemendum framhaldsskólanna eru milli 35--40% í raun og veru á fyrsta ári. Það er með öðrum orðum fólk sem er að spóla, sem er aftur og aftur og aftur að reyna að fara í tiltekna áfanga sem menn ráða síðan ekki við af ýmsum ástæðum. Þetta er dýrt og þetta er óskynsamlegt fyrir fólkið af því að það brotnar niður í þessu kerfi. Þess vegna þarf að breyta námsframboði framhaldsskólanna í grundvallaratriðum og að því á að vinna, en það á ekki að reyna að leysa vanda framhaldsskólanna og takmarka aðgang að þeim með því að leggja á skatta eins og hæstv. fjmrh. viðurkenndi í útvarpinu núna fyrir nokkrum dögum. Skólagjöldin eru vel til þess fallin að draga úr aðsókn að skólunum. Ég segi alveg eins og er, virðulegi forseti, að yfirlýsingar af þessu tagi eru gersamlega þvert á alla þá grunnhugsun sem skólastarf á Íslandi hefur byggst á.
    Ég vil einnig segja það í framhaldi af þeim umræðum sem hér hafa farið fram að í skólamálum gildir það að menn eiga ekki að reyna að stjórna þeim eftir reglustikum og tommustokkum vegna þess að aðstæður eru svo mismunandi. Ég fagna því að hæstv. menntmrh. er að undirbúa það að taka sérstaklega á málefnum Reykholtsskóla. Á málefnum framhaldsskólanna verður að taka með mismunandi hætti vegna þess að aðstæðurnar eru mismunandi. Og ég fagna því einnig sem hæstv. ráðherra sagði varðandi Fjölbrautaskólann í Garðabæ að þar hefur verið gengið frá skólasamningi. Það er skynsamlegt. Þar er reynt að taka á málum út frá forsendum þess skóla og slíkan skólasamning þyrfti í raun að gera við hvern einasta framhaldsskóla í landinu. Mér þykir vænt um það að hæstv. menntmrh. skuli halda sig á þeirri braut.
    Ég gæti sagt ýmislegt fleira um þessi mál að sinni, virðulegi forseti. Ég ætla ekki að bæta þar miklu við nema aðeins út af því sem hv. 11. þm. Reykn. sagði um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga varðandi skólana og ræddi um þá hugmynd frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að hugsanlegt væri að flytja alla skólana yfir á sveitarfélögin. Ég tel það ekki skynsamlegt. Þó að skólarnir á Reykjavíkursvæðinu gætu kannski ráðið við það er landsbyggðin svo miklu veikari í þessu efni. Ég held að menn eigi að hugsa það mjög alvarlega hvernig er hægt að endurskipuleggja þessi mál á ný þannig að ríkið og sveitarfélögin hafi meira samstarf um skólana upp úr og niður úr en gert er samkvæmt gildandi lögum.
    Að lokum þetta. Ég tel að fjögur atriði liggi mjög skýr fyrir eftir umræðuna um menntamál á þessu hausti. Í fyrsta lagi að Sjálfstfl. er að reyna að framkvæma stefnu sem hluti hans styður og er kreddustefna einkavæðingar og tilskipana. Sjálfstfl. hefur því miður ekki reynst þeim vanda vaxinn að honum sé treystandi fyrir skólamálum eins og kom reyndar fram í tíð fyrrv. hæstv. ráðherra Sverris Hermannssonar.
    Í öðru lagi vil ég segja það í tilefni af umræðunni að skólamálin eru ódýr, menntamálin eru ódýr. Það er rangt að setja hlutina þannig upp að menntunin sé dýr. Í raun og veru er það svo að þróun og uppbygging menntakerfisins, rannsóknir, vísindi og þróunarstarfsemi eru undirstaða góðra lífskjara og sá sem gegnir starfi menntmrh. á ekki að koma fram eins og aðstoðarfjármálaráðherra. Hann á að halda á merkjum skólastarfs af fullri reisn og kröfuhörku fyrir hönd þess unga fólks sem er í skólanum og þeirrar framtíðar Íslands sem býr í þessu unga fólki.