Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 17:30:00 (494)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ég ætla í upphafi máls míns að fara örfáum orðum um ummæli hv. 11. þm. Reykn. Hún talaði í nokkrum umvöndunartón til þingmanna um að enn þá væru ekki komin nema tíu mál til nefnda. Ég get deilt áhyggjum hennar varðandi þetta. En þar sem það er stjórnarþingmaður sem setti þetta fram vil ég benda þingmanninum á að af þessum tíu málum eru einungis þrjú frá ríkisstjórninni. Að þessu gefna tilefni, virðulegi forseti, sé ég ástæðu til að vekja athygli á því að við erum að fara í viku frí á morgun sem er, eftir því sem ég skil, til komið að frumkvæði stjórnarflokkanna. Málum er þannig háttað að þessa 23 daga sem þing hefur staðið og hv. þm. nefndi hafa ráðherrar ekki verið til staðar til þess að leggja mál fyrir þingið, hvað þá að fram gæti farið umræða til þess að koma þeim til nefndar. Síðan átti það að gerast í dag, og það er kannski það sem stjórnarliðar sjá ofsjónum yfir, að koma átti á næstsíðasta degi fyrir þetta frí heilum ellefu málum hæstv. ráðherra til nefnda. Þetta eru náttúrlega vinnubrögð, virðulegi forseti, sem hljóta að vera mjög ámælisverð af hendi hæstv. ríkisstjórnar. Ég hef ekki fleira um þetta að segja.
    Ég ætla að fara örfáum orðum um skólamál almennt. Ég hef reyndar verið viðriðinn skólamál allt mitt líf þangað til á síðasta vori að ég lét af störfum sem skólanefndarformaður, fyrst sem nemandi, síðan kennari og loks starfað í skólanefndum. Ég hef oft bent mönnum á í þeirri umræðu að okkur er hollt að líta til baka og átta okkur á því að við höfum á mjög skömmum tíma tvöfaldað umfang okkar skólakerfis, bæði hvað snertir nemendur og fjármagn. Það er jákvætt að mínu mati. En það er jafnrétt að við stöldrum við annað slagið og veltum því fyrir okkur hvernig höfum við varið öllu því fjármagni og öllum þeim tíma sem við verjum til skólastarfsins. Höfum við aukið virknina um 100% á sama tíma? Það er að vísu ekki eðlileg krafa. En þetta er samt hlutur sem okkur er hollt að gera og er bráðnauðsynlegt núna, fyrst og fremst hvað snertir framhaldsskólana sem, eins og hér hefur margsinnis komið fram, hafa vaxið mjög ört á síðustu árum og hafa gengið í gegnum þó nokkra vaxtarverki.

    Í öðru lagi get ég tekið undir það sem hér hefur verið nefnt að það fer lítið fyrir ákveðinni stefnumörkun í skólamálum hjá núv. ríkisstjórn og fátt eitt komið fram enn sem bendir til þess að hún sé væntanleg. Það sem við höfum helst heyrt og hefur vakið óróa meðal skólafólks eru óskilgreindar yfirlýsingar ákveðinna stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu og skólagjöld. Það er því fyllilega réttlætanlegt að þessi umræða sé tekin hér upp vegna þess að almenn menntun og almennur réttur til menntunar er einn af hornsteinum okkar þjóðfélags og það eru örugglega nægilega öflugir aðilar tilbúnir til þess að standa upp og verja þá hornsteina. Að sá réttur sé óháður efnahag og búsetu er annað grundvallaratriði sem ekki hefur verið deilt um í þjóðmálaumræðu að undanförnu.
    Það má kannski túlka þær hugmyndir um skólagjöld sem nú eru uppi sem svo að þær virðist nokkuð sakleysislegar. Það á að efla kostnaðarvitund fólks, bæði neytenda og þiggjenda, eins og við höfum margheyrt í ræðum talsmanna núv. ríkisstjórnar. En í höndum þeirra sem telja rétt að þau ryðji veginn til þeirrar einkavæðingar, til þess kerfis í skólamálum að menntunin sé forréttindi hinna ríku og þeirra sem njóta styrkja frá stofnunum og sjóðum sem veita styrki til menntunar eru þau skólagjöld sem nú er verið að leggja á stórhættuleg.
    Ég vil að vísu ekki ætla núv. hæstv. menntmrh. að það sé í raun hans meining, en það verður ekki fram hjá því gengið að þetta er meining áhrifaríkra afla innan hans stjórnmálaflokks. Það er heldur ekki hægt að ræða þessi mál hér öðruvísi en að setja þau aðeins í samhengi með þeirri umræðu sem verið hefur um námslán, þó hér eigi að fara fram önnur umræða um þau. Ef þær hugmyndir næðu fram að ganga til viðbótar við skólagjöldin þá erum við komin með, eins og ég gat um í umræðu um fjárlagafrv. í fyrrinótt, kerfi fyrirheitna landsins. Kerfi eins og það sem gildir í Bandaríkjunum þar sem menntun er, eins og ég sagði áðan, forréttindi hinna efnameiri og þeirra sem eiga aðgang að peningum og þeir sem ekki eiga aðgang að fjármagni verða að sækja sína menntun með því að gerast sjálfboðaliðar í hernum. Við höfum að vísu engan her á Íslandi og ég veit ekki hvert þeir mundu leita sem ekki ættu kost á menntun hér vegna fjárskorts.
    Ég ætla að lokum að koma aðeins að skólamálum sem byggðamálum. Um það hefur margt verið rætt, m.a. í tengslum við Héraðsskólann í Reykjanesi. Ég ætla að nálgast þetta út frá því að eins og það var sjálfsagt að færa hluta af framhaldsmenntuninni frá höfuðborginni út á land á fyrri hluta þessarar aldar er jafnsjálfsagt í dag, eins og skólamál hafa þróast, að háskólastigið verði byggt upp utan höfuðborgarsvæðisins. Þar á ég náttúrlega sérstaklega við uppbyggingu Háskólans á Akureyri. Ég legg á það áherslu að uppbygging hans áfram verði forgangsverkefni í uppbyggingu í skólamálum á næstunni. Menn hafa verið viljugir við að gefa yfirlýsingar um slíka hluti á góðum stundum. Það hefur gilt jafnt um ráðherra sem stjórnmálaflokka. En mér hefur reyndar fundist á stundum að ekki fylgi alltaf hugur máli og það hafi virkilega þurft að berjast fyrir hverjum áfanga. Þrátt fyrir að sá skóli sé staðreynd í dag þá stendur hann enn mjög veikum fótum og þarf dyggan stuðning, bæði sinna velunnara og ríkisvaldsins meðan hann er að festa sig í sessi áfram.
    Ég ætla að nefna tvö lykilatriði varðandi þróun Háskólans á Akureyri. Í fyrsta lagi fyrirætlanir um kennaramenntun við skólann og að þær verði að veruleika. Það hefur að mínu mati tvíþættan tilgang. Það er sú leið sem á skemmstum tíma getur veitt skólanum það vægi hvað snertir nemendafjölda og umfang til þess að festa sig í sessi og eins og hér hefur komið fram áður í dag þá er það lykilatriði að mínu mati til þess að bæta úr kennaraskorti í dreifbýli. Það segir kannski einhver: Skiptir það einhverju máli hvar menn sækja sína menntun? En við þurfum ekki annað en að líta á þá könnun sem gerð hefur verið meðal nemenda við Kennaraháskóla Íslands í Reykjavík til þess að sjá að hér er um að ræða raunverulega hættu. Meiri hluti nemenda við Kennaraháskóla Íslands eru konur, og það er ekki nema góðra gjalda vert, en það sem meira er er að meiri hlutinn eru giftar konur eða í sambúð og búnar að koma sér upp heimilum á höfuðborgarsvæðinu.
    Ég ætla að nefna annað atriði um Háskólann á Akureyri sem hefur að vísu verið nokkurt feimnismál. Menn hafa rætt það sín á milli en ekki viljað ræða mikið opinberlega. Það er að nú þegar verði hugað að því að Háskólinn á Akureyri fái sérstakan tekjustofn til sinnar uppbyggingar líkt og Háskóli Íslands hefur haft með sínu happdrætti um áratugaskeið. Það er hægt að færa að því sterk rök að Háskóli Íslands hefði aldrei orðið það sem hann er í dag ef hann hefði ekki haft þennan sjálfstæða tekjustofn og þurft að reiða sig á bein framlög úr ríkissjóði til sinnar uppbyggingar. Í öðru lagi er það að mínu mati grundvallaratriði í því að Háskólanum á Akureyri takist að standa við og þróa sitt akademíska frelsi að hann geti haft ákveðið frumkvæði og sýnt fram á eigin tekjustofna til þess að hrinda fyrirætlunum sínum í framkvæmd. Þetta er atriði sem ég mundi vilja vinna að og í samvinnu við núv. ríkisstjórn ef hún vill ljá á máls á þessu.
    Að lokum, virðulegi forseti, um skólamál sem byggðamál vil ég benda á þá tilhneigingu núv. stjórnvalda --- hún hefur kannski komið skýrar fram í heilbrigðismálum en skólamálum en þó bryddað á henni þar, m.a. sagði hæstv. menntmrh. áðan að það sem væri að gerast í Reykjanesskólanum núna væri bara fyrsta tilvik af langri röð, ég man ekki hvort hann orðaði það akkúrat þannig, og við ættum eftir að sjá mörg slík tilfelli á næstunni --- að setja samasemmerki á milli sparnaðar og aukinnar miðstýringar og þá á höfuðborgarsvæðinu. Eins og ég sagði hefur þetta verið meira áberandi í heilbrigðiskerfinu þar sem menn gefa sér þá hæpnu forsendu að það sé hagkvæmt að leggja niður litlar skurðstofur úti á landi til þess að dekka á móti rándýrar skurðstofur byggðar fyrir dýrar aðgerðir á stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík. Þetta er stórhættuleg stefna sem að mínu mati er alls ekki sparnaðarstefna og byggðafjandsamleg í þokkabót, ekki síst í dag þegar við hljótum að fara að líta á öll byggðamál í nýju ljósi og þegar Reykjavík er kannski orðin útkjálki frá Brussel.