Framhald umræðu um skýrslu utanríkisráðherra um EES-samninga

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 10:52:00 (518)

     Guðrún Helgadóttir :
     Hæstv. forseti. Það verður ekki hjá því komist að ræða aðeins um hvernig þinghald er að þróast á hinu háa Alþingi og ég tek það fram að ég er ekki að ásaka hæstv. forseta þess vegna. Dálítið er það kyndugt að á degi sem ekki var alveg víst að yrði þinghaldsdagur, en stjórnarandstaðan féllst fúslega á að gera þennan dag að slíkum, á að fara að ræða frv. til lánsfjárlaga og eru mættir til þings sjö þingmenn Sjálfstfl. eftir að hæstv. dómsmrh. gekk í salinn og einn alþýðuflokksmaður var hér þar til hv. formaður fjárlaganefndar gekk í salinn en hann var reyndar ekki viðstaddur 1. umr.um frv. til fjárlaga.
    Það hefur vakið athygli, hæstv. forseti, að stjórnarþingmenn hafa setið afar lítið hér í þingsölum allt frá því þing hófst. Og hv. stjórnarþingmenn, sem hér hafa setið, eru þeir sem hafa setið á þingi áður. Svo er að sjá að nýliðarnir, sem nú hafa verið kjörnir til Alþingis, líti ekki svo á að þeir þurfi að taka þátt í umræðum hér á hinu háa Alþingi. Við þetta verður að sjálfsögðu ekki unað. Þetta sæmir ekki virðingu þingsins og síst af öllu sæmir þetta þeim sjálfum. Það er auðvitað ekki hægt að ætlast til þess að stjórnarandstaðan sitji hér dag eftir dag og komi málum áfram fyrir hæstv. ríkisstjórn sem raunar sést harla lítið hér líka.
    Hér er talað um að ekki sé unnt að ræða samninga um Evrópskt efnahagssvæði af því að hæstv. utanrrh. geti ekki verið viðstaddur. Ég hlýt að spyrja: Hvar er hæstv. forsrh.? Það væri skemmtilegt að sjá hann hér öðru hverju. Valdhrokinn sem lýsir sér í þessari framkomu er ólíðandi. Hann er ólýðræðislegur og óþingræðislegur. Menn ösla hér inn í ráðuneyti og boða að nú skuli varpað fyrir róða öllum verkum fyrrv. ríkisstjórnar. Gott og vel, en þá er lágmark að þeir komi hér og ræði þau mál og þingmenn þeirra taki þátt í umræðunum. Ég lýsi því yfir að mér er til efs að það sé ástæða til að sitja þennan þingfund nema stjórnarþingmenn komi til fundar. Þá vil ég vekja athygli hæstv. forseta á því að af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur verið ákveðið að þing falli niður í næstu viku. Hv. fjárln. hefur hins vegar boðað að þar séu tveggja daga vinnufundir. Þar eru að sjálfsögðu menn úr kjördæmum landsins sem kynnu kannski að vilja nýta sér þessa viku til starfa út í kjördæmunum, en þeir eiga á því engan kost. Ég óska eftir því enn og aftur og hef áður beðið hæstv. forseta að líta ofan í þetta mál og kannað verði hvort þessir hv. þm. geta ekki framvegis setið dálítið betur þingfundi svo stjórnarandstaðan sé ekki dag eftir dag að tala saman án minnstu þátttöku hv. stjórnarþingmanna. (Gripið fram í.)