Bókhald

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 11:59:00 (532)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Hér hefur verið lagt fram frv. til laga um breyting á lögum nr. 51/1968, um bókhald, þar sem gert er ráð fyrir að sett sé á stofn svokallað reikningsskilaráð. Ég vil lýsa ánægju með að tekið sé á þessu máli vegna þess að reikningsskilareglur hafi verið mjög breytilegar síðustu ár og reikningsskilareglur hafa mikil áhrif á skattskilareglur. Þær breytingar hafa orðið á síðustu árum að reikningsskilareglur hafa ekki verið þær sömu í uppgjöri fyrirtækja, þær hafa verið breytilegar og forráðamenn fyrirtækjanna getað haft talsvert um það að segja hvernig reikningsskil fyrirtækjanna eru sett fram. Það gerir hlutina ekki nógu skýra til aflestrar fyrir hinn almenna þátttakanda í fyrirtækjum. Ég tel því að það horfi til bóta að mótaðar séu reikningsskilavenjur. Líka má geta þess að hlutabréfamarkaðurinn, sem er í mótun hér á landi, hefur mikla þörf fyrir þetta að mínu áliti.
    Stjórn Félags löggiltra endurskoðenda átti frumkvæði að þessu. Það reikninsskilaráð, sem fyrirhugað er að skipa samkvæmt frv., á að hafa einn nefndarmann sem tilnefndur er af Félagi löggiltra endurskoðenda. Þeir menn sem hingað til hafa mest haft um það að segja að móta reikningsskilavenjur eru í tengslum við þetta reikningsskilaráð og má frekar búast við að um faglegt mat verði að ræða.
    Hins vegar vil ég taka undir þær athugasemdir sem hv. síðasti ræðumaður nefndi og koma fram í 1. gr. a., sem verður 23. gr., að einn nefndarmaður er skipaður án tilnefningar. Það kemur ekkert fram hvaðan hann ætti að koma eða hver ætti að vera bakgrunnur hans. Að öðru leyti lýsi ég yfir stuðningi við þetta frv.