Heimsmeistarakeppnin í handbolta

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 17:37:00 (574)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Málið ber þannig að ríkisstjórninni nú að sveitarfélagið Kópavogur spyrst fyrir um það hvort ríkið geti aukið hlut sinn frá hinum lofuðu 300 millj. kr., framreiknuð eitthvað hærri upphæð, sem fyrrv. ríkisstjórn batt sig með í samningum við Kópavog. Okkar svar er að það stendur ekki til af okkar hálfu að hækka þetta framlag. Kópavogur mun hafa reynt að ná samningum við fyrrv. fjmrh. eftir bæjarstjórnarkosningarnar 1990 án nokkurs árangurs og fráfarandi fjmrh. beitti sér ekki fyrir því, þó að þess

sé nú getið í samningnum sérstaklega, að fjárframlag væri inni á fjárlögum hans sem hann gekk frá síðast fyrir árið 1991. Þar virðist því ekki hafa verið mikill vilji til þess að standa við þennan samning.
    Ríkisvaldið mun auðvitað standa við þann samning sem gerður var við Kópavog um þessa fjárhæð. En ríkisvaldið hefur lýst því yfir að hækkun á því framlagi komi ekki til álita. Það er þannig sem málið stendur. Komi málið upp á nýjan leik með öðrum hætti verða menn að taka á því þegar þar að kemur.