Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 18:10:00 (588)

     Matthías Bjarnason (frh.) :
     Virðulegi forseti. Þar var komið í ræðu minni að ég ætlaði að ræða nokkuð viðhorf fyrrv. ríkisstjórnar til byggðamála og Byggðastofnunar. Því miður verð ég að segja að hún hefur ekki úr háum söðli að detta því að þá voru lækkuð verulega framlög til Byggðastofnunar. Hún greip til þess ráðs að koma á hinum svokallaða Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina til þess að lána fyrirtækjum í helstu framleiðslugreinum, einkum í sjávarútvegi, sem voru orðin mjög skuldsett og kom einnig á hinum svokallaða Hlutafjársjóði. En þetta mátti ekki vera undir einni og sömu stjórn. Stjórnirnar urðu að vera þrjár á þessu. Einum sjóði var ekki trúandi fyrir því að fara með þetta. Af hverju var það ekki gert? Það væri fróðlegt að fá um það upplýsingar frá talsmönnum fyrrv. ríkisstjórnar. Hvað var eðlilegra en að reyna að samræma vinnubrögðin? Það var ekkert eðlilegra.
    Svo komum við að því, sem alltaf er verið að tala um, að ástand og horfur í atvinnuvegunum voru því að kenna að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hafði ekkert til varnar atvinnuvegunum. Ekki sat þorsteinn Pálsson einn í þessari ríkisstjórn. Ég man ekki betur en að í þessari ríkisstjórn hafi setið framsóknarmenn og alþýðuflokksmenn og þeir voru þar í meiri hluta því að þetta var þriggja flokka ríkisstjórn. Ef ég man rétt, þá voru þar sex ráðherrar frá þessum tveimur flokkum en fjórir frá flokki forsrh. Hvað gerðist á þessu stjórnartímabili?
    Ég ætla hvorki að leiða einn né annan til vitnis, en það sem gerðist var það að atvinnuvegirnir voru reknir með stórkostlegum halla þegar leið að áramótum 1987--1988. Það fékkst engin samstaða um að breyta gengi krónunnar og það hrúguðust upp skuldir hjá atvinnufyrirtækjunum og ríkisstjórnin fór því frá. En hvað gerðist svo? Alþb. kom inn í ríkisstjórnina og hún naut stuðnings fyrrv. þingmanns úr Framsfl. sem taldist til nýrra samtaka sem höfðu aðeins þennan eina þingmann. Það sem gerðist á eftir var að Atvinnutryggingarsjóður er stofnaður og það er lánað til atvinnuveganna. Hlutafjársjóður er stofnaður og sjóðirnir starfa undir tveimur stjórnum á þessu tímabili. Það sem skeður er að þrátt fyrir góðan vilja að þessi lán verði öll endurgreidd þá kom það fljótt í ljós, og menn máttu sjá það og vita að svo skuldsett atvinnugrein sem sjávarútvegurinn var orðinn, að mörg þessara fyrirtækja mundu aldrei koma til með að endurgreiða. Þar við bættist að lán til þessarar starfsemi voru tekin til lengri tíma og með öðrum kjörum en útlánin. Þess vegna byrjaði sjóðurinn starfsemi sína með neikvæðri stöðu og staða hans verður neikvæð svo lengi sem þessi lán eru úti. Sum fyrirtækin hafa þegar orðið gjaldþrota. Önnur eru illa á vegi stödd.
    Ég hef aldrei, þó að ég hafi verið stjórnarandstæðingur á þessum tíma, gagnrýnt að farið var út í þetta. Hitt segi ég að það þurfti aldrei að koma til þessa. Það var verið að leika sér að eldinum. Það var verið að leika sér að gera stöðu þessara fyrirtækja allra miklu verri en hún þurfti að vera. Þess vegna eru nú leikarnir þannig. Ég held að lengi megi um það deila hvort það hafi átt að fara út í þessar lánveitingar. En það átti auðvitað aldrei til þess að koma að fyrirtækin gætu ekki endurgreitt því að það átti að taka við sér og skrá gengi krónunnar réttu verði og renna traustari stoðum undir rekstur þessarar atvinnugreinar þegar í upphafi. En úr því sem komið var var ekki um annað að ræða en útvega þessum atvinnuvegum lán. Það hef ég sagt og stend við.
    Ég vil líka koma inn á annað. Þegar ég nefndi áðan framlög til byggðamála kom ég ekki inn á að í framlögum til byggðamála voru verulegar upphæðir tekjur af svokölluðu álgjaldi eftir að álverksmiðjan í Straumsvík tók til starfa. Árið 1974 voru þessar tekjur hæstar 383 millj. á verðlagi 1. nóv. í ár og runnu þá til byggðamála. Álgjaldið fór svo lækkandi og á árunum 1975--1979 var þetta álgjald greitt til byggðamála, til Framkvæmdastofnunar og fyrst Atvinnutryggingarsjóðs, sem var forveri Framkvæmdastofnunar, og síðan kom Byggðasjóður. Þetta gjald nam á þessum árum 114--157 millj. kr. á verðlagi ársins í ár.
    Hæstv. forsrh. varð það á að tala í ræðu sinni um eitthvert sukk. Ég vil ekki viðurkenna að neitt sukk hafi átt sér stað í starfsemi Byggðastofnunar, en ég svara ekki fyrir þessa tvo sjóði sem ég hef nefnt hér, Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina og Hlutafjársjóðinn. En það er óþarfi að blanda þessu sífellt saman við Byggðastofnun. Nú er svo komið að útlán Atvinnutryggingarsjóðs eru með þeim hætti að enginn einn getur ráðstafað því nema fyrir liggi samþykki stjórnar Byggðastofnunar, samþykki forsrh. og samþykki fjmrh. samkvæmt lögum sem samþykkt voru á hv. Alþingi skömmu fyrir þinglok í vor. Það er svo ekki neitt leyndarmál að fjölmörg fyrirtæki hafa sótt um það að fá skuldbreytingu á þessum lánum, lengingu lána. Sumir hafa talað um að fella niður þessi lán. Allt er þetta í höndum þessara þriggja aðila, þessara tveggja ráðuneyta eða ráðherra og stjórnar Byggðastofnunar.
    Nú spyr ég: Eru ofboðsleg vanhöld á lánveitingum Byggðastofnunar? Hefur verið miðað við framlögin sem ríkið rétti með annarri hendinni á undanförnum árum en tók aftur með hinni? Í fyrsta lagi var alltaf verið að gera kröfur á þessa stofnun um að vinna fyrir sig og hin ákveðnu ráðuneyti, taka sérstakan skatt, stimpilgjald og skatt til ríkisins, og þá voru þessi framlög í raun og veru komin niður í ekki neitt. Samkvæmt hlutverki Byggðastofnunar ber henni að veita styrki og henni ber að taka ákvarðanir um lán eða fyrirgreiðslu til þess að viðhalda atvinnu og uppbyggingu atvinnulífs um landið.
    Við skulum líta á eftirstöðvar höfuðstóls lána Byggðastofnunar í árslok 1990. Hann er tæpir 8,6 milljarðar kr. og af þessum 8,6 milljörðum kr. eru 975 millj. kr. í vanskilum. Vanskil sem hlutfall af eftirstöðvum eru 11,4%. Finnst mönnum þetta vera ofboðslegt? Eru þetta stórkostleg vanskil? Það sjá allir sem vilja sjá hlutina í réttu ljósi að hér hefur verið farið eins varfærnislega með fjármuni og hægt hefur verið að gera.
    Ég sé fyrir mér tap einstakra banka og annarra fjárfestingarlánasjóða. Og við sem höfum verið í stjórn Byggðastofnunar þurfum ekkert að fela andlitið þegar þessi samanburður er gerður.
    Það er mikið talað núna um Evrópska efnahagssvæðið og byggðaþróun og það er ekki að ástæðulausu að maður vildi gjarnan í þessu sambandi gera þau mál nokkuð að umræðuefni. Ég held að það megi segja að Evrópska efnahagssvæðinu hafi verið gerð allgóð skil á undanförnum dögum, bæði hér á hv. Alþingi og eins víða úti um land, af hæstv. utanrrh. Það er eftirtektarvert að gerður hefur verið góður tolla- eða viðskiptasamningur. Hann er framhald af mjög góðum samningi sem Íslendingar gerðu einhliða við Efnahagsbandalagið á sínum tíma með hinni svokölluðu bókun 6 sem var stórfelldur hagsmunasamningur fyrir íslenskt efnahagslíf. Sá samningur kom ekki til framkvæmda um nokkurn tíma vegna þeirrar miklu deilu sem við áttum í við tvær þjóðir Efnahagsbandalagsins, Breta og Þjóðverja. Deilan við Þjóðverja leystist á undan. Við sem þá sátum í ríkisstjórn lögðum áherslu á að ná samkomulagi við Breta og ekki síst af þeirri ástæðu að þessi tollasamningur kæmi til framkvæmda. Þeir samningar náðust og breskur togarafloti sigldi út úr 200 mílna fiskveiðilögsögu sex mánuðum síðar eftir að þessi þjóð hafði stundað veiðar hér við Íslandsstrendur og allt upp í landsteina í 600 ár. Ég tel að það hafi verið mikill sigursamningur að fá slíka framkvæmd.
    Nú tala menn mikið um það hvert verði framhaldið. Það á eftir að þýða þennan samning sem er upp á 11 þúsund --- eða ég man ekki hvað, 30 þúsund síður, þetta er sitt á hvað. Ég er alveg staðráðinn í því að aldrei ætla ég að lesa þær allar. Þegar hann er til, þá reynir maður að lesa sér það til sem skiptir höfuðmáli, ekki eitthvert tæknimál sem maður þyrfti að hafa marga sérfræðinga við höndina til að spyrja jafnóðum og maður læsi hvað þýddi þótt komið væri á sæmilegt íslenskt mál.
    Þá komum við að því hvernig við stöndum á öðrum sviðum. Erum við þá að verða eina þjóðin af EFTA-þjóðunum sem ekki hefur beðið um inngöngu í Evrópubandalagið? Snúum við við á þröskuldinum og segjum: Við ætlum ekki að fara inn þó allar aðrar þjóðir fari inn, eða hvað er verið að fara? Hvað erum við að gera í sambandi við Evrópubandalagið? Ég hef nokkrum sinnum heyrt forsrh. þeirrar hæstv. ríkisstjórnar sem nú situr segja að hver og einn verði að standa á eigin fótum. Enga styrki, enga fyrirgreiðslu, það verður hver að ráða sínum gerðum sjálfur eða fara lóðbeint á hausinn ef annað er ekki uppi á teningnum.
    Af hverju er landsbyggðin svona illa á vegi stödd? Hún er illa á vegi stödd fyrir það að flestir þessir staðir lifa á sjávarútvegi og fiskvinnslu og á undanförnum árum, allt síðasta kjörtímabil, hafa fiskveiðiheimildir verið skornar niður. Það kemur harðast niður á sjávarútvegssvæðum landsins sem hafa svo sáralitlu þjónustuhlutverki að gegna. Þjónustuhlutverkið er fyrst og fremst hérna á höfuðborgarsvæðinu og einkum í Reykjavík. Þess vegna kemur það síður við það fólk sem á þjónustusvæðunum býr. Þess vegna er það sem svo illa er komið víða úti um land.
    Nú segja menn: Hjá því verður ekki komist að beita hörðum aðgerðum við fiskveiðar og fiskveiðistjórnun. Ekki ætla ég að færast undan því að nauðsyn sé á því að beita aðgerðum við fiskveiðistjórnun. En þá spyr ég: Hvað á þá að gera við það fólk sem verður harðast úti í hinum ýmsu byggðum þessa lands? Á að segja því bara að koma til Reykjavíkur? Eða í Kópavog? Það er kannski pláss þar ef ekki verður byggð íþróttahöllin. Ég segi bara alveg eins og er: Mér sýnist vandamálin vera að verða mjög mikil. Það er ekki þessari ríkisstjórn að kenna eða fyrri. Það er ýmsum öðrum ástæðum fyrir að fara. Það er samdráttur alls staðar í þjóðfélaginu og það er alltaf verið að hvetja alla til að segja eins mörgu fólki upp og hægt er, til að hagræða eins og það er kallað. Hagræðingin hefur það í för með sér að fjöldi fólks missir vinnuna. Samdráttur í fiskveiðum hefur það í för með sér að fjöldi fólks hverfur frá þessari atvinnugrein og þarf að leita annað. Hvað er svo gert til að skapa ný atvinnutækifæri í landinu? Hvað gerði fyrrv. ríkisstjórn í þeim efnum? Það vantaði ekki að það var á stefnuskrá hennar. Það hefur ekkert gerst. Og ég vil fá að sjá eitthvað hjá núv. ríkisstjórn hvað hún ætlar að gera, hvort hún ætlar ekki að vera eitthvað skárri en hin sem er farin frá.
    Við skulum tala varlega um að þjóðfélaginu komi atvinnulífið ekkert við. Við skulum þá fara til Evrópubandalagsins og vita hvort þessi stefna er ríkjandi þar, að því komi ekkert við eða þjóðum Evrópubandalagsins hvað er að gerast í atvinnumálum þessara þjóða. Vitið þið hvað er að gerast í Evrópubandabandalaginu? Samkvæmt fjárlögum bandalagsins eru styrkir til atvinnumála og annarra samskipta þjóða 4053 milljarðar ísl. kr. eða um 55,6 milljarðar ECU. Fjárlögin sem allir eru að býsnast hérna yfir, eru þau ekki 106 milljarðar? Þarna eru 4053 milljarðar. Haldið þið að við munum breyta stefnunni í Evrópubandalaginu þó að við gengjum í það? Ég er ekki á því.
    Hvernig skiptist þetta á milli atvinnuveganna? Landbúnaðurinn er hæstur í Evrópubandalagslöndunum. Styrkir til hans eru hvorki meira né minna en 2369 milljarðar á þessu ári. Það er ekki mikið sem fer af þessu í mjólkurframleiðsluna eða bara 453 milljarðar og í nautakjötsframleiðslu 170 milljarðar og í kinda- og geitakjötsframleiðslu 124 milljarðar. Það er ekki nema þriðjungurinn sem fer til landbúnaðar eins og við þekkjum hann. Hitt fer í kornrækt, í sykur- og í vínræktina. Það er ekkert lítið. Og það fara um 30 milljarðar til niðurgreiðslna bara á hnetum. Er nú hægt að hugsa sér meira styrkjabandalag en Evrópubandalagið? Ég held að þeir mættu skammast sín, stjórnarherrarnir þjóðanna í Austur-Evrópu, hvað þeir náðu skammt á við EB og þeir eru hættir.
    Við skulum svo koma inn á skipulagssjóðina og sjávarútveginn. Styrkirnar þar eru mun minni, en þeir ná þó 1042 milljörðum sem er ekkert lítil tala. Skipulagssjóðirnir eru svona bein þýðing af Byggðasjóði eða byggðastefnu. Og með því er ekki öll sagan sögð því að þjóðirnar sem njóta styrks í sjávarútvegi fá líka frá sínum löndum allt að helmingi upphæðarinnar á móti, en það er ekki sama upphæð og þetta því að þjóðir Suður-Evrópu fá sennilega ekki neitt á móti frá sínum löndum.
    Evrópubandalagið setur 15 milljarða ECU til styrktar fiskvinnslu. Það er mjög eftirtektarvert hvað Evrópubandalagið hefur styrkt fiskvinnsluna og byggt hana upp víða í Evrópu. Og það er líka eftirtektarverð sú reynsla sem við urðum fyrir í fyrra þegar við fórum þessa ferð til Humber-svæðisins, til Þýskalands og til Zeebrugge í Belgíu, að alls staðar var sama sagan. Við þurfum að fá meira hráefni, meira sem er óunnið eða lítt unnið til þess að vinna í okkar eigin verksmiðjum. Og það er merkilegt að sjá hvernig þeir voru að byrja á stórfelldri framkvæmd í Zeebrugge í Belgíu, ef ég man rétt um 50 km frá jarðgöngunum undir Ermarsund. Allir ætluðu að vera tilbúnir og allir höfðu orð á því: Við þurfum að fá meira hráefni frá Íslandi. Þetta er það sem stakk okkur í þessu ferðalagi sem var mjög gagnlegt ferðalag. Mér fannst ég verða að segja frá þessu og gera þetta að nokkru umræðuefni. Ég er mjög áhyggjufullur yfir því sem er að gerast í byggðamálum.
    Í vegamálum vorum við komnir í að leggja bundið slitlag á árinu 1988 á um 305 km af vegakerfi landsins. Þetta hefur hrunið núna og á því ári sem nú er að líða eru þessar framkvæmdir komnar niður í 100 km úr 305, á ekki lengri tíma. Með öðrum orðum er það komið niður fyrir þriðjung. Þetta er eins og fulltrúi Kvennalistans sagði hér í dag, samgöngumálin eru mikils virði og við þurfum sannarlega að taka þar höndum saman.
    Ég er ekki sérstaklega ánægður að draga úr menntamálum eins og gert hefur verið, loka skólum úti á landi, neita um öldungadeild, jafnvel sem kostar innan við 200 þús. kr. Þetta finnst mér ekki bera vott um stórhug í málefnum strjálbýlisins. En maður verður að vona að Eyjólfur hressist. Ég verð að segja það að mér finnst það nú ekki vera mikið atriði og ekki til þess að hrópa húrra fyrir landsbyggðinni þegar ,,cowboy-hattur`` fyrrv. forsrh. var seldur á 30 eða 35 þús. kr. vestur á fjörðum og núna seldu þeir hattinn af utanrrh. fyrir 42 þús. og 42 þús. kr. fyrir að dansa fyrsta dans við frúna. Ég segi það er hægt að sannfæra mann hér í Reykjavík að landsbyggðarmenn viti ekkert hvað þeir eigi að gera við peningana. En svona hafa þeir það nú gott, sérstaklega í Dalvík, í kjördæmi samgrh., að þeir geta keypt svona verðlaunagripi, á 84 þús. bara á nokkrum mínútum. ( Landbrh: Það er uppgangur þar.) Það er uppgangur þar. En hann er því miður, hæstv. samgrh., ekki alls staðar. Og þess vegna skulum við líta á hina alvarlegu hluti og það er ekkert fengið með því að flytja Byggðastofnun til Akureyrar. Það er skrifstofa á Akureyri og það er skrifstofa á Ísafirði. Báðar þessar skrifstofur hafa orðið stofnuninni til mikils gagns og ég tel meira virði að setja upp skrifstofur víðar á landinu eins og á Austfjörðum sem búið er að lofa og Norðurlandi vestra og víðar. Við eigum að byggja upp og hafa þessa fulltrúa og þessa samstarfsmenn sem næst fólkinu. Það er þetta sem ég álít að eigi að ganga langt fram fyrir það að flytja Byggðastofnunina til Akureyrar. Ég efast ekki um það að ef hæstv. forsrh. hugsar rólega um þessa hluti, þá kemst hann á sömu skoðun og ég er á.
    Mér fannst eitt leitt sem hæstv. forsrh. sagði. Honum fannst það vera hálfgerðir leiðindanöldurseggir sem ekki tækju undir allt hjá honum í þessum byggðamálum og svo ofboðslega fastir í gömlu holunum sínum að þeir gætu ekki hreyft sig. Ég ætla að segja hæstv. forsrh. það að ég er svo lipur enn til snúninga og hlaupa að mig munar ekkert um að fara úr gamalli holu ef ég tel það betra sem ég sé í augsýn. Þá er ég alveg reiðubúinn. En ég er fastur í gömlu holunni minni ef það á að fara spor aftur á bak.
    Hæstv. forsrh. sagði að hann hefði hitt fólk úti á landi sem væri svo afskaplega ánægt með þessar hugmyndir hans. Ég dreg það ekkert í efa að einhverjir eru til, því að alltaf eru til menn sem aldrei muna eftir neinu sem þeir hafa áður notið, en ég fullyrði að það er afskaplega lítill hluti af fólki úti á landi sem er ánægður með þetta. Og með allri virðingu fyrir hæstv. forsrh., sem er harðduglegur maður sem hefur komist áfram, þá ætla ég nú að gorta pínulítið, ég tel að ég þekki mun betur líf og störf fólksins víðast hvar úti um landið heldur en hann. En það er margt annað sem hann þekkir miklu betur en ég og ég fer ekki í jöfnuð við hann.
    Það sem ég legg höfuðáherslu á er að auka framlög til byggðamála, halda í horfinu, taka mið af þeim fórnum sem landsbyggðin verður núna að fara í sambandi við samdrátt í fiskveiðum og fiskvinnslu. Það verður ekki gert nema með þeim hætti að jafna bilið á milli landsbyggðar og þéttbýlis. Ég tek undir þau orð hæstv. forsrh. að við þurfum að lifa í sátt og samlyndi í landinu. Við þurfum að skilja störf og líf hvers annars, hvar sem við búum á landinu.
    Ríkisstjórnin sem ég sat í 1974--1978 var undir forustu Reykvíkings sem var talinn ákaflega mikill höfuðborgarmaður og var fyrrverandi borgarstjóri, Geir heitinn Hallgrímsson. Það hefur engin ríkisstjórn, eins og ég sagði hér frá áðan, gengið lengra til móts við landsbyggðina en sú ríkisstjórn sem sat á árunum 1974--1978. Þar sýndi forsætisráðherrann mikinn skilning í þessum efnum og það var aldrei talið eftir að það þyrfti að byggja upp landsbyggðina með þessum hætti og það með mjög góðum árangri. Síðan er

mikið vatn runnið til sjávar og menn hafa ekki staðið sig sem skyldi.
    Ég ætla ekki á þessu stigi að fara út í fiskeldi, en eitt ætla ég að segja. Ef nokkur einn aðili hefur gert fiskeldinu mikinn skaða, þá eru það Norðmenn. Þeir hafa undirboðið afurðir okkar, þeir hafa dansað hrunadans sjálfir í fiskeldi og eru núna skælandi til sinnar ríkisstjórnar að fá styrki --- upp á hvað? 1,3 milljarða norskra króna. Þeir hafa orðið okkur að mestu ógagni. Hitt er annað mál, og það skal fúslega viðurkennt, að það hlupu allt of margir af stað og ekki af nógu mikilli fyrirhyggju. En við eigum að nota það sem hefur gerst með því að læra af reynslunni, með því að gera okkur það ljóst að þessi mál eru ekki töpuð. Við höfum samt, þrátt fyrir allt, allt að vinna.
    Ég trúi því og treysti að núv. hæstv. ríkisstjórn taki á honum stóra sínum í sambandi við viðhorf til landsbyggðarinnar og uppbyggingu úti á landi. Ef hún gerir það skal ég styðja hana af heilum hug, standa með henni í svo að segja hverri raun sem yfir kann að ganga, en þar er verk að vinna og þar má ekki slaka á klónni því oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn að bregðast vel við þeim vanda sem þar er við að glíma.