Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

18. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 00:04:00 (603)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
     Herra forseti. Með allri virðingu fyrir hv. síðasta ræðumanni þá treysti ég betur orðum Sigurðar B. Stefánssonar hagfræðings, sem hefur skoðað þetta mál, hefur það að atvinnu að skoða þessi mál, þar sem hann heldur því fram að raunvaxtahækkun á sl. ári sé ekki hægt að rekja til húsbréfakerfisins og það kom fram í mínum orðum hér áðan. Það hefur einnig komið fram að við erum að draga úr fjárþörf til húsnæðismála milli áranna 1991 og 1992 um 4--5 milljarða. Og það er mjög sérkennilegur málflutningur þegar verið er að lesa svona upp úr fjárlögunum eins og hv. þm. gerði, taka það úr samhengi við annað. Hv. þm. sagði hér í ræðustól áðan þegar hann var að ræða byggðamálin að það ætti að skoða þetta í samhengi við annað. Og af hverju skoðar hv. þm. þá þetta ekki í samhengi við það hvar annars staðar hefur dregið úr lánsfjárþörf í þjóðfélaginu? Ég nefndi þar banka og lífeyrissjóðina. Það er ósanngjarn málflutningur, hv. þm., að skoða þetta með þeim gleraugum sem þú gerir.