Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 14:56:00 (630)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Forseti. Ég held að það komið nokkuð skýrt fram í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram, og ég þakka fyrir og tel að hafi verið mjög mikilvæg og þörf, að fortíðarvandi Lánasjóðs ísl. námsmanna er um leið fortíðarvandi stjórnmálamanna því að hér hafa menn í rauninni kastað því á milli sín hvað sé hverjum að kenna, hver hafi sagt hvað hvenær, hver hafi lagt hvað til hvenær og verð ég að segja að ég er ekki viss um að menn séu miklu nær.
    Ég held að þessi umræða sé mjög mikilvæg vegna þess að námsmenn og reyndar þjóðin öll þarf að heyra afstöðu þingmanna til lánasjóðsins, til þessa sjóðs sem um langt árabil hefur gegnt því mikilvæga hlutverki að tryggja jafnrétti til náms. Það hefur verið bent á að teikn séu á lofti um að nú standi til að breyta þessu og verið vísað til tillagna nefndar sem starfað hefur á vegum menntmrh. Ég fagna út af fyrir sig ummælum ráðherra hér áðan þar sem hann lýsti því yfir að ekki stæði til að allar þessar tillögur yrðu að lögum og hefði aldrei staðið til. Mér fannst hann í rauninni vilja lítið undir þessar tillögur taka. Eftir stendur samt að nefndin starfaði á ábyrgð ráðherra og hann hefur enn ekki sagt okkur hvað honum finnst nothæft og hvað ekki.
    Ég ætla ekki að tala um einstakar tillögur sem nefndin hefur lagt fram. Mig langar meira til þess að tala um hugmyndalegan bakgrunn lánakerfisins vegna þess að ég held að það sé það sem máli skiptir á þessu stigi málsins. Mig langar þó fyrst til þess að vekja aðeins athygli á skipan nefndarinnar sem samdi þessar tillögur. Í nefndinni sátu fimm karlmenn sem allir eru með langskólanám á háskólastigi að baki. Starfsheiti þeirra gefa til kynna að þeir hafi allir verið í fremur ,,arðbæru námi``, þ.e. námi sem tryggir þeim þokkalegar tekjur að námi loknu. Þeir eru ekki fóstrur, þeir eru ekki kennarar, þeir eru ekki félagsráðgjafar, þeir eru ekki hjúkrunarfræðingar o.s.frv. --- ég gæti talið hér upp margar kvennastéttir. Það sker auðvitað í augu, eins og hér hefur verið bent á, að enginn námsmaður er í nefndinni, þ.e. það er enginn sem á búa við þau kjör sem nefndin leggur til að verði á námslánunum. Allir nefndarmenn eru með öðrum orðum sloppnir fyrir horn. Þeir hafa ýmist verið í námi þegar tíðkaðist að eiginkonur kostuðu eiginmenn sína til mennta, eins og Guðrún Helgadóttir benti á, eða þeir hafa verið í námi þegar námslán voru óverðtryggð og á lágum vöxtum og brunnu því upp í verðbólgunni þegar átti að fara að greiða þau eða þeir hafa notið góðs af því kerfi sem þeir leggja nú til að lagt verði af vegna uppsafnaðs fortíðarvanda sem við mörg hver hér inni höfum átt þátt í að skapa, ýmist sem fyrrverandi námsmenn eða sem ráðamenn til langs tíma.
    Í nefndarálitinu setur nefndin sér það sem viðmiðun að Lánasjóður ísl. námsmanna, eða eins og segir, með leyfi forseta: ,,geti áfram auðveldað ungu fólki að afla sér menntunar með því að veita hagstæð lán jafnframt því sem lánareglur verði á þann veg að hvatt sé til ráðdeildar af hálfu námsmanna og framlög úr ríkissjóði minnki með því að endurgreiðslur lána standi í ríkara mæli undir útlánum.`` Þegar tillögur nefndarinnar eru svo skoðaðar í ljósi þessarar markmiðssetningar, þ.e. að veita hagstæð lán, þá fer ekkert á milli mála að lán eru talin hagstæð ef úthlutunarreglur eru hagstæðar alveg óháð endurgreiðslureglum. Jafnrétti til náms felst með öðrum orðum í því að tryggja jafnan rétt allra til lána alveg óháð því hvort þeir geta í rauninni nýtt sér þennan rétt. Jafnréttið er formlegt en ekki raunverulegt. Rétturinn byggir á teoríu en ekki praxís.
    Það sem stingur mig mest í augu í þessum tillögum er viðhorf nefndarmanna til

menntunar. Í fyrsta lagi kemur það mjög skýrt fram í þessum tillögum að þeir líta á menntun sem fjárfestingu einstaklingsins en ekki samfélagsins alls. Þeir líta á námslán eins og hver önnur fjárfestingarlán og námsmenn eigi þar af leiðandi að borga leigu fyrir afnotin af þeim fjármunum sem þeir fá. Í þriðja lagi kemur skýrt fram að því arðvænlegri sem fjárfesting einstaklingsins er þeim mun minni verður greiðslubyrðin þegar til endurgreiðslu kemur, þ.e. menn græða á því að fjárfesta með þessum námslánum í arðvænlegu námi.
    Í þessu áliti, eins og öllu sem kemur frá ríkisstjórninni þessa dagana, stóru og smáu, hvort sem í hlut eiga fjárlög, hvítbók eða frumvörp, gengur kostnaðarvitundin ævinlega aftur. Og það kemur svo sem fyrir í þessu nefndaráliti líka þó hugtakið sé kannski ekki nefnt berum orðum.
    En annað sem er líka vinsælt þessa dagana í allri umfjöllun um sjóði ríkisins og kemur þarna fram er að uppreikna það fjármagn sem bundið er í sjóðunum á hverjum tíma. Þannig er talað um að fjárbindingin í námslánakerfinu í dag séu rúmir 20 milljarðar og verði um 40 milljarðar innan 10 ára. Vissulega eru þetta miklir fjármunir, en ef við lítum á fjárfestingu í námsmönnum rétt eins og fjárfestingu í góðu vegakerfi þá mundum við telja þetta hluta af þjóðarauðnum en ekki byrði á þjóðarlíkamanum.
    Við erum með gífurlegt fjármagn bundið í vegakerfinu og þó að okkur greini á um einstakar fjárfestingar í því kerfi erum við þó flest sammála um að góðar samgöngur séu hagkvæmar og arðbærar. Og þó að ég sem einstaklingur nýti ekki tiltekinn vegarspotta fyrir norðan eða vestan getur þessi spotti skipt sköpum fyrir byggðarlag þar sem gert er út, þar sem sköpuð eru útflutningsverðmæti sem halda uppi þeim lífskjörum sem ég bý við. Það sama gildir um menntun. Hún er arðbær fyrir samfélagið allt og ekki bara þá sem hennar njóta. Hún á sinn ríka þátt í því að halda hér uppi góðum lífskjörum.
    Við getum líka tekið dæmi af fjárfestingu í börnum. Allt samfélagið leggur eitthvað til framfærslu barna en ekki bara þeir sem þau eiga. Ástæðan er ekki síst sú að börn eru vinnuafl framtíðarinnar og því arðbær fjárfesting, svo notuð sé heldur groddaleg samlíking úr fjármálaheiminum.
    Það er alveg ljóst að þeim mun hærra menntunarstig sem þjóðir búa við, þeim mun betri nýting er á auðlindum og mannafla og þeim mun meiri er velferð samfélaganna. Þetta á ekki bara við um samfélagið í heild sinni heldur á þetta líka við um hag einstakra fyrirtækja og stofnana.
    Nýlega birtist í blaði sem heitir Púlsinn og er gefið út af Iðntæknistofnun svolítið skemmtileg frétt. Þar segir frá hinum svokölluðu velgengnisfyrirtækjum. Það er verið að kanna hvaða fyrirtæki eru velgengnisfyrirtæki. Þar segir að þessi athugun hafi sýnt, með leyfi forseta:
    ,,Í betri fyrirtækjunum voru samskiptaleiðir styttri og tiltölulega fleiri faglærðir starfsmenn á hverjum vinnustað. Einnig kom í ljós að starfsmenn bestu fyrirtækjanna eyddu sex sinnum lengri tíma í starfs- og endurmenntun og framleiðni hvers starfsmanns var mun meiri en hjá hinum fyrirtækjunum.`` Þ.e. þeim mun meira af faglærðu starfsfólki, þeim mun meira sem lagt er til menntunar, þeim mun betur ganga þessi fyrirtæki.
    Og mig langar líka, fyrst ég er farin að vitna hér í blöð og bækur, til þess að benda þingmönnum á athyglisverða grein í öðru hefti Fjármálatíðinda á þessu ári. Greinin er eftir Þorvald Gylfason og nefnist Fjármál og menning. Þar eru einmitt færð fyrir því sterk rök að samhagurinn af menntun, vísindum og listum sé mun meiri en sérhagurinn.
    Í áliti nefndarinnar sem er til umfjöllunar kemur fram að ef miðað er við óbreytt útlán Lánasjóðs ísl. námsmanna og að viðhalda eigin fé sjóðsins, þá þurfi ríkisframlagið til hans að vera um 2,4 milljarðar á ári. Ríkisframlagið á fjárlögum næsta árs er áætlað 2,2 milljarðar. Síðan eru áætluð framlög ríkisins til háskóla og rannsóknastofnana á þeirra vegum um 2,6 milljarðar á næsta ári. Samanlagt nær þetta tæplega 5 milljörðum, þ.e. framlagið til lánasjóðsins og framlagið til háskóla og stofnana á þeirra vegum. Og svo við tökum vegagerðina aftur til samanburðar má geta þess að til Vegagerðar ríkisins eru áætlaðir 5,8 milljarðar á næsta ári á fjárlögum. ( Landbrh.: Sæll vertu, fulltrúi Vegagerðarinnar.) Ég held að það hafi verið fulltrúi Vegagerðarinnar á Vestfjörðum sem gekk úr salnum rétt í þessu.
    Háskólar eru auðvitað bara einn hlekkur í menntakerfi okkar og vegirnir eru líka bara einn hlekkur í samgöngumálum okkar og ég ætla ekki að draga úr því að Vegagerðin hafi þörf fyrir þetta fé, en ég nefni þetta dæmi vegna þess að í báðum tilvikum er um nauðsynlega samfélagsþjónustu að ræða sem alveg má leggja að jöfnu þó að óskyld sé.
    Allar þjóðir í kringum okkur, a.m.k. á Norðurlöndum, styrkja námsmenn með einum eða öðrum hætti. Við Íslendingar höfum hingað til farið þá leið að lána þeim fé til framfærslu án vaxta en að fullu verðtryggt. 90% námsmanna borga þessi lán að fullu til baka, flestir á 18--22 árum. Á hinum Norðurlöndunum er farin sú leið að veita nánast öllum námsmönnum styrki að ákveðinni upphæð en því til viðbótar lán sem eru án raunvaxta á námstímanum en bera 5--6% raunvexti að námi loknu. Ef við hefðum svipað kerfi og Danir væru styrkveitingar íslenska ríkisins ekki undir 1 milljarði á ári hverju ef ég reikna bara þá 6.400 námsmenn sem taka lán, en eins og kom fram eru aðeins um 60% námsmanna við Háskólann sem sækja um námslán. Ef við værum með styrkjakerfi er nánast víst að allir mundu sækja þá styrki sem þeir geta fengið og það mætti segja mér að sambærilegt styrkjakerfi og Danir hafa mundi ekki kosta okkur undir 1,6--1,7 milljörðum á ári hverju. Því til viðbótar yrði svo árlega að veita umtalsverðu fé inn í lánakerfi námsmanna.
    Tillögur nefndarinnar á vegum menntmrh. bjóða hins vegar heim kerfi sem er óhagstæðara en öll önnur kerfi sem við þekkjum í kringum okkur. Þessar tillögur verða ekki rökstuddar með því að við gerum svo vel við menntakerfið á öðrum sviðum vegna þess að við leggjum minna fé til menntakerfisins en flest ríki í OECD. Og það er auðvitað spurning hvaða áhrif þetta hefur haft á undanförnum árum á nýsköpun í atvinnulífi og hagvöxt.
    Í fréttabréfi Vísindaráðs og Rannsóknaráðs ríkisins er einmitt fjallað um þetta og sagt frá því að rétt eins og hér á landi ríki í nágrannalöndum okkar tímabundin stöðnun og samdráttur. Þeir segja, með leyfi forseta, í leiðara þessa blaðs:
    ,,En hvernig bregðast menn við? Í Noregi á að leggja 4 milljarða í rannsóknir á sviði sjávarútvegs og fiskeldis. Í Svíþjóð leggur ný stjórn fram áætlun um stóreflingu rannsókna og voru Svíar þó stórtækir fyrir. Í Finnlandi eru rannsóknir og þróunarstarf eini þátturinn í ríkisfjármálum sem fær aukningu. Menn á þeim bæjum eru sannfærðir um að ekkert nema öflugt undirbúningsstarf, virkjun þekkingar og nýsköpun skili árangri. Þar er valið að fjárfesta í framtíðinni.`` Þetta ættum við líka að gera og lánasjóðurinn er vissulega hlekkur í því að fjárfesta í framtíðinni.
    Svo ég taki aftur dæmi af frændum okkar Dönum, þá nema framlög þeirra til háskóla um 553 þús. kr. á nemanda en frv. til fjárlaga fyrir 1992 hér á landi gerir ráð fyrir að framlagið til Háskóla Íslands samsvari um 290 þús. kr. á nemanda. Fjárfesting okkar í þessum málum er því minni en í löndunum í kringum okkur.
    Ég sagði í upphafi að ég hefði ekki hugsað mér að ræða hér einstakar tillögur nefndarinnar en ég kemst þó ekki hjá því að nefna tvennt. Í fyrsta lagi langar mig til þess að nefna hugmynd nefndarinnar um að leggja 4% vexti á námslán og stytta endurgreiðslutímann verulega. Í mínum huga er þessi hugmynd alveg ótrúlega óréttlát vegna þess að hún kemur verst niður á ungu fólki af landsbyggðinni sem á fárra annarra kosta völ en að taka

námslán og hún kemur líka verst niður á þeim sem hafa lægstar tekjur að námi loknu. Þessi hugmynd er í andstöðu við þá jöfnunarhugmynd sem býr að baki núverandi kerfi þar sem endurgreiðslur eru tekjutengdar. Hún er líka í andstöðu við þær jöfnunarhugmyndir sem eru innbyggðar í núverandi húsnæðislánakerfi þar sem vextir eru niðurgreiddir í hlutfalli við tekjur og eignir lántakenda. Samkvæmt þessum hugmyndum á ekkert tillit að taka til slíkra þátta.
    Í öðru lagi langar mig til þess að nefna að það er hugmynd nefndarinnar að skerða rétt þeirra námsmanna undir 20 ára aldri sem stunda starfsnám í fjölbrautaskólum. Það er gert í nafni réttlætis vegna þess að þeir kjósa að allir fjölbrautaskólanemendur sitji við sama borð að þessu leytinu til. Ég tel að námsmenn hafi á undanförnum vikum fært mjög sterk rök fyrir því að þessi lán eigi fullan rétt á sér. Þau geta m.a. verið til þess fallin að beina námsmönnum inn á starfsréttindabrautir, svo sem iðnnám, sem ekki virðist vanþörf á. Þeir nemendur, sem þessara lána njóta, eru yfirleitt í tiltölulega stuttu námi. Þeir byrja fljótlega að greiða sín lán til baka og þeir gera það á stuttum tíma.
    Ég vil að lokum biðja menntmrh. og þingmenn stjórnarflokkanna í fullri vinsemd að athuga sinn gang vel og kasta ekki á glæ þeim gæðum sem þrátt fyrir allt liggja í núverandi lánakerfi. Þar vegur að mínu mati langþyngst að endurgreiðslur eru tekjutengdar sem óneitanlega kemur þeim tekjulægstu til góða. Námsmenn börðust fyrir þessari tekjutengingu á sínum tíma og það er orðið ansi langt síðan. Það var ekki árið 1985, það var árunum 1974 og 1975 sem fyrir þessu var barist og þeir náðu þessari tekjutengingu fram. Ég vil sérstaklega beina orðum mínum til þeirra þingmanna sem þá voru að öllum líkindum í hópi námsmanna og lögðu þessari réttlætishugmynd lið. Finnur vék orðum sínum að ónefndum þingmanni áðan og minnti á það þegar hann stóð, eins og ég held að hann hafi orðað það, stappandi og gólandi á pöllunum. Ég ætla nú að taka upp hanskann fyrir þennan fyrrum kammerat minn vegna þess að ég held að hann hafi þá a.m.k. staðið sig mjög vel í réttindamálum námsmanna og hann átti sinn þátt í því eins og margir aðrir að standa vörð um ákveðnar réttlætishugmyndir og reyna að fá ríkisvaldið til þess að standa við gefin loforð og standa við ný lög og standa við nýjar úthlutunarreglur sem þá höfðu nýlega verið settar. Standi hann sig eins vel núna og hann gerði þá mun mitt liðsinni ekki skorta í því máli.
    Námslánakerfið má vissulega endurskoða eins og öll mannanna verk en það verður að gerast í samráði og sæmilegri sátt við námsmenn. Eins og bent var á áðan hafa námsmenn rétt menntmrh. sáttarhönd og ég skora á hann að taka í þessa hönd en slá ekki. Ég verð hins vegar, forseti, þó ég viti að tími minn sé búinn, að lýsa yfir furðu minni á þeim ummælum hæstv. menntmrh. hér áðan að sú nefnd sem hann ætlar að skipa eigi að hafa algjörlega frjálsar hendur um hvað hún leggur til í þessum málum vegna þess að ég held að nefnd eins og þessi hljóti að eiga að ná fram einhverjum tilteknum markmiðum sem ríkisstjórnin setur henni. Ég kann því afskaplega illa þegar menn koma hér, sérstaklega ráðamenn, menntmrh., og reyna að fela sig á bak við eina nefnd og síðan aðra.