Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 15:58:00 (636)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Það er heldur vont til þess að vita að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson skuli ekki skilja merkingu orðsins fortíðarvandi og mér þykir skjóta svolítið skökku við vegna þess að hann hefur nú heldur orð á sér að vera orðhagur maður og þekkja ýmislegt í íslensku máli. En ég skil hins vegar vel að hann vilji sem minnst um fortíðarvanda tala, þess vanda sem við tökum við frá þeirri ríkisstjórn sem hann studdi síðast.
    Aðeins til að leiðrétta misskiling. Ég var ekki í minni ræðu að ráðast á Alþfl., samstarfsflokkinn, það var ég ekki að gera. Málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna voru í höndum tveggja ráðherra Alþb. fyrst og fremst og hv. þm. Svavar Gestsson, fyrrv. menntmrh., lýsti því yfir hér áðan að sú stjórn hefði haldið uppi lánasjóðnum með handafli og verið þar, að mér skilst, í stöðugum slagsmálum við Alþfl. Það sýnir þó að einhver ábyrgðarkennd hefur fundist þar en ekki hjá Alþb. eða Framsfl. sem var í forsæti þessarar ríkisstjórnar sem skildi svona við lánasjóðinn.