Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 16:04:00 (641)

     Össur Skarphéðinsson :
     Virðulegi forseti. Mér kom það til hugar þegar hinn orðhagi þingmaður Vestfjarða Ólafur Þ. Þórðarson talaði hér áðan að stundum er það svo að það er ekki nóg að hafa bara umbúðir, það þarf líka að vera innihald. En þó að seinni hluti ræðu þingmannsins hafi á köflum verið skiljanlegur þá var fyrri hlutinn með þeim hætti að þar var nánast um fúkyrðaflaum að ræða og þá kom mér það til hugar, sem þingmaðurinn ætti e.t.v. að hafa hugfast, að það er oft betra að hugsa áður en menn tala, en kannski það sé líka orðið að sameiginlegum fortíðarvanda Framsfl.
    Hv. þm. Finnur Ingólfsson lauk hér nokkrum lofsorðum á staðfestu mína á fyrri tíð þegar ég var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Fyrir það ber að þakka, mér þykir vænt um það. Hann var sjálfur á þeim árum gullinhærður stúdent á sínum sokkaböndum en hann var námsfús með afbrigðum og ég sé það að sú staðfesta sem hann dró þá frá mér hefur fylgt honum eftir. Það getur nefnilega verið þannig, ágæti þingmaður, að herfræði bolabítsins, staðfestan, sé á stundum nokkuð góð.
    Sú umræða sem hér hefur farið fram hefur verið málefnaleg og hún hefur verið þörf. Að mínum dómi hefur hún kannski ekki verið fyllilega tímabær vegna þess að staða málsins er slík að hér liggja fyrir vinnuhugmyndir, sem ég kalla svo, frá vinnunefnd sem menntmrh. skipaði um endurskoðun á gildandi námslánakerfi. Ég lít svo á, eins og reyndar kemur vel fram á titilblaði skýrslunnar, að hér sé einungis um hugmyndir að ræða. Hér er ekki um tillögur að ræða. Það er reyndar athyglisvert að námsmenn gera sér grein fyrir þessu sjálfir, þeir kalla þessar hugmyndir vinnunefndarinnar fyrstu hugmyndir. Fyrir mér er hér fyrst og fremst um að ræða skref ráðuneytisins í aðdraganda breytinga á sjóðnum

og að því loknu geri ég ráð fyrir því að námsmenn komi fram með sínar hugmyndir og á milli þessara hugmynda verður síðan reynt að ná þeirri málamiðlun sem þarf og með þeim hætti að sem víðtækust sátt náist um sjóðinn.
    Ég er algjörlega sammála því sem hér hefur komið fram í máli flestra ræðumanna að það þarf að finna sátt um þennan sjóð. Hins vegar verð ég, með fullri virðingu fyrir hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, að lýsa furðu minni á þeim ummælum að alltaf hafi ríkt friður um þennan sjóð. Ég er að vísu ekki tekinn mjög að reskjast en mér finnst að allt mitt líf hafi ég staðið í eilífum ófriði um þennan sjóð.
    Að vissu leyti, sagði ég, er þessi umræða ekki fyllilega tímabær m.a. vegna þess að þingflokkunum hafa ekki verið kynntar hugmyndir námsmanna. A.m.k. hefur þingflokki Alþfl. ekki verið kynntar þær. Við höfum að sönnu kynnt okkur starfsskýrslu vinnunefndarinnar og við höfum fengið námsmenn á fundi hjá okkur til þess að fara orðum um afstöðu þeirra til hugmynda starfsnefndar Ólafs Garðars, hæstv. menntmrh., og enn fremur höfum við fengið nefndarmenn til að skýra út þessar hugmyndir.
    Fulltrúar námsmanna gerðu mjög ítarlega og málefnalega grein fyrir sinni afstöðu til tillagnanna en höfðu á því stigi, þegar við ræddum við þá, ekki fullbúið sínar eigin hugmyndir. Á fundi okkar og námsmanna varð það að samkomulagi að þeir fengju okkur sínar tillögur til skoðunar um leið og þær væru fullbúnar. Það hefur ekki gerst enn þá. Eigi að síður fer þessi umræða hér fram og mér finnst því rétt að vekja athygli á nokkrum atriðum sem ég tel skipta miklu máli og einu grundvallaratriði sem ég tel skipta öllu máli.
    Okkur er það auðvitað öllum ljóst að traustur lánasjóður til að aðstoða fólk til náms er allra hagur, ekki aðeins námsmanna og ekki aðeins háskólaborgara framtíðarinnar, heldur þjóðfélagsins alls. Hann gerir okkur nánast kleift að beisla þá auðlind sem býr hverju sinni í atgervi sérhverrar kynslóðar. Þess vegna ítreka ég að það þarf að nást víðtæk sátt um sjóðinn.
    Það blandast engum hugur um það, hvorki námsmönnum né stjórnmálamönnum, að í dag á lánasjóðurinn við mikinn vanda að etja og þennan vanda verður að leysa í sameiningu með samvinnu ríkisstjórnarinnar og með samvinnu námsmanna. Það er hins vegar lítil von til þess að það takist nema námsmenn og fulltrúar ríkisins eigi kost á sameiginlegum vettvangi til að ræða mismunandi viðhorf. Þess vegna er það mín afdráttarlausa skoðun að námsmenn eigi vitaskuld að fá aðild að þeim nefndum sem eiga um þetta mál að véla og ég túlka yfirlýsingu hæstv. menntmrh. hér áðan með þeim hætti að hann hyggist veita námsmönnum aðgang að slíkri nefnd. Ef það er rangur skilningur hjá mér, þá vildi ég gjarnan að hann leiðrétti það hér í umræðum á eftir.
    Vandi lánasjóðsins er vissulega mikill. Hann er í raun af þrennum toga spunninn. Í fyrsta lagi hefur fjárþörf vegna útlána aukist mikið og hratt. Þessi aukning er mun meiri en menn áttu von á, til að mynda þegar við Finnur vorum á sokkaböndum okkar í Háskólanum fyrir 1980, og ástæður þess eru að sönnu ljósar. Það er í fyrsta lagi að námsmönnum sem sækja um aðstoð sjóðsins hefur fjölgað mjög, bæði vegna þess að fleiri hópar, eins og hv. þm. Svavar Gestsson benti á, sækja nú um aðstoð sjóðsins, en auk þess eins og námsmenn hafa bent á vegna þess að fæðingarárgangarnir sem eru að ganga í gegnum kerfið eru einfaldlega stærri. Auk þess hefur það sama gerst hér á landi og annars staðar að stærra hlutfall sérhvers árgangs fer í framhaldsskóla- og háskólanám. Síðast en ekki síst hefur kostnaður við framfærslu vitaskuld hækkað, kostnaður við skólagjöld hækkað, sér í lagi erlendis, enn sem komið er, virðulegi þingmaður. (Gripið fram í.) Í tilefni orða þinna hér áðan.
    Í öðru lagi má rekja verulegan hluta vanda sjóðsins til þess hvernig hann hefur verið fjármagnaður. Hver ríkisstjórn á fætur annarri hefur brugðið á það ráð að fullnægja einungis hluta af fjárþörf sjóðsins með beinum framlögum. Afgangurinn af fjárþörfinni hefur síðan verið fjármagnaður með erlendum lánum. Það eru allar ríkisstjórnir sekar í þessu máli, allar, líka þær ríkisstjórnir sem Framsfl. hefur átt aðild að. Ég tek þetta sérstaklega fram sökum þeirrar lofrullu sem hv. þm. Finnur Ingólfsson hélt hér um áðan um hlut Framsfl. sem eins og allir vita er mikill að öllum málum.
    Það var strax í kringum 1975 sem námsmenn höfðu uppi sterk varnaðarorð við þessari aðferð við að fjármagna sjóðinn. Þá var á það bent að með því að nota þessa aðferð til að láta enda hans ná saman væru stjórnvöld einungis að hnýta sjóðnum bagga sem hann hlyti í framtíðinni að kikna undir. Og reynslan hefur því miður sýnt og sannað með dapurlegum hætti að auðvitað höfðu menn rétt fyrir sér þá. Þetta er það sem hefur gerst. Nú sjáum við það að vextir af lánum sem tekin eru til að fjármagna sjóðinn hlaðast upp í heil fjöll. Sífellt stærri hluti af því fé sem sjóðurinn hefur umleikis fer í að borga vexti af skuldum fyrri ára. Þannig skapast illrjúfanlegur vítahringur þar sem lán eru tekin til að borga niður lán fyrri ára. Vaxtagjöldin hrannast upp. Á síðasta ári, muni ég rétt, fór fjórða hver króna sem sjóðurinn hafði umleikis í það að borga vexti og afborganir af lánum fyrri ára.
    Í þriðja lagi hafa þær vonir, sem menn gerðu sér, a.m.k. fyrir 1980, um endurgreiðslur, ekki ræst. Þær eru miklu hægari en menn áttu von á. Þetta kemur fram í þeirri miklu fjárbindingu sem menn hafa verið að tala um hérna. 20 milljarðar í dag, 40 milljarðar að öllu óbreyttu eftir 10 ár og þreföldun, þ.e. 60 milljarðar, ef ekkert verður að gert, innan 20 ára að mati Ríkisendurskoðunar. Þess vegna alveg ljóst að það þarf með einhverjum hætti að hraða endurgreiðslum. Fyrir þessu gera sér allir grein. Ég hygg að hver einasti sem hefur tekið til máls í dag, að undanskildum hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni, sem talaði um allt annað en málefni lánasjóðsins, hafi gert sér grein fyrir því að það þarf að hraða endurgreiðslum. Námsmenn sérstaklega hafa gert sér grein fyrir því. Tillögur þeirra hafa hins vegar enn ekki verið kynntar. Ég tel að það sé fullsnemmt að ræða einstakar tillögur vinnunefndarinnar sem fram hafa komið, sér í lagi í ljósi þeirra yfirlýsinga sem hafa komið fram hjá hæstv. menntmrh. En ég verð að segja það að ég get ekki tekið alvarlega hugmyndir um það að gera kröfur í dánarbú námsmanna, sér í lagi þegar þær eru tengdar allt að 9 ára endurgreiðslutíma. Það er ekki einu sinni brandari finnst mér.
    Í dag byggjast endurgreiðslurnar á vissri lágmarksgreiðslu, röskum 26 þús. kr., og geta að hámarki farið upp í 3,75% af stofni fyrra árs. Þetta eru ekki hörð kjör. Það get ég sagt sjálfur sem einn þeirra sem borga hámarksgreiðslu til baka. Ég er þess vegna sammála námsmönnum þegar þeir segja að þeir séu til viðræðu og það sé í lagi að endurskoða þessar reglur. Þetta er það sem þeir hafa sagt sjálfir. Í þessa útréttu hönd á að taka. En þá er hins vegar komið að því grundvallaratriði sem ég vildi ræða hér lítillega, þ.e. tekjutengingu af afborgunum lána.
    Ég tel að það sé algjört lykilatriði að endurgreiðslur sé tengdar tekjum. Ég tel að þannig verðum við að búa til skjöld sem varnar því að tekjulitlir háskólamenn framtíðarinnar verði stöðugt í úlfakreppu lánasjóðsins vegna afborgana sem þeir ráða ekki við. Menn verða einfaldlega að horfast í augu við það að staða háskólamanna í dag er allt, allt önnur en hún var fyrir hálfum öðrum áratug, jafnvel þó að menn hafi einfalt eða tvöfalt doktorspróf. Það er einfaldlega liðin tíð að með langri skólagöngu kaupi menn sér aðgang að veislunni, að því að fá há laun. Það gildir einungis um mjög lítinn hóp háskólamanna. Flestir snúa frá námi til að taka við störfum hjá ríkinu á byrjunarlaunum sem eru frá 70--80 þús. kr. og menn vita hversu vel gengur að afla sér aukatekna í starfi hjá ríkinu. Á þessum launum þurfa menn að framfleyta sér, fjölskyldu sinni og líka að koma sér með einhverju móti þaki yfir höfuðið.

    Á þessum fyrstu árum þegar menn koma heim frá námi, þá er einfaldlega lítið eftir til að standa straum af háum, föstum afborgunum af námslánum. Sumir geta það, og það er svo sannarlega allt í lagi að láta þá borga, en hinum verðum við að hlífa. Þess vegna verður að halda inni tekjutengingunni. Mér finnst í lagi að hækka hlutfallið verulega. Ég hef haft í gegnum fjölmiðla óljósar spurnir af hugmyndum námsmanna í þá veru sem mér finnast allrar athygli verðar, að láta hátekjumenn í hópi menntamanna borga hærri prósentu til baka.
    Hvað gerist hins vegar ef afborganir verða hertar verulega án þess að tekjutengingin verði í gildi? Í fyrsta lagi tel ég að afborganirnar yrðu óbærilegar fyrir suma hópa menntamanna. Þetta mundi leiða til þess innan tíðar að fólk færi einfaldlega ekki í nám í viðkomandi greinum. Það gæti aftur leitt til þess að það yrði veruleg ekla á faglærðu fólki í undirstöðustéttum á borð við hjúkrunarfræðinga eða kennara. Hvað með fiskifræðinga í dag? Er ekki verið að kvarta yfir því að það vanti fiskifræðinga? Í öðru lagi er ég sannfærður um það að ef eitthvert blóð er eftir í BHMR, þá verður sprenging í launakröfum BHMR því að hverfi vörn tekjutengingarinnar munu afar margir háskólamenn í starfi hjá ríkinu ekki komast af á þeim launum sem þeim bjóðast í dag. En í þriðja og versta lagi mundi þetta leiða til þess að það yrði verulegur atgervisflótti úr landinu.
    Hertar endurgreiðslur án þeirrar hlífðar sem tekjutengingin veitir mun einfaldlega leiða til þess að menntamenn framtíðarinnar munu í vaxandi mæli leita til erlendra þjóða þar sem þeim bjóðast miklu hærri laun. Við skulum ekki gleyma því að nú eru að verða ákveðnar breytingar á íslensku þjóðfélagi. Við erum að ganga til samninga um Evrópskt efnahagssvæði. Það mun hvata þessari þróun vegna þess að það auðveldar aðgang menntamanna að þeim löndum Evrópu sem tengjast svæðinu.
    Það er oft svo að hæfustu námsmenn fara gjarnan í lengsta og sérhæfðasta námið og þeir verða þjóð sinni dýrmætastir þegar upp er staðið af því að það er búið að sérhæfa þá svo mikið. Eftirsókn erlendra þjóða yrði einmitt mest eftir þessu fólki. Af sjálfu leiðir hins vegar að þeir sem mennta sig mest og lengst bera þyngstu lánabaggana. Mjög hertar endurgreiðslur án tekjutengingar mundu því hvetja bestu einstaklinga hverrar kynslóðar til að snúa ekki heim nema sem gestir. Viljum við það? Ég vil það ekki. Í þessu liggur mikil hætta og þess vegna ítreka ég það, ítreka þá afstöðu mína að nýjar reglur um endurgreiðslur námslána verði að byggjast á mjög sterkri tekjutengingu.