Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 16:36:00 (644)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Forseti. Það er að vísu heldur hvimleitt að eiga orðastað við fjarstadda menn en maður þarf sjálfsagt að venjast því eins og ýmsu öðru á hinu háa Alþingi og mun ég því gera mitt besta til þess að eiga sannfærandi samræður við menn sem ekki eru í salnum. Þó sé ég að þeir eru að tínast hér inn. Það stendur greinilega allt til bóta.
    Mig langar fyrst til þess að koma inn á orð hv. 9. þm. Reykv., Svavars Gestssonar, í pontunni áðan. Hann minntist á það, þó það væri ekki nema rétt í framhjáhlaupi, að Kvennalistinn hefði engar tillögur flutt til breytinga á framlagi til Lánasjóðs ísl. námsmanna á fjárlögum undanfarin ár. Ég nenni í sjálfu sér ekki að fara að standa í einhverju karpi um slíkan tillöguflutning, en hitt veit hann auðvitað jafn vel og ég að með þessum orðum vegur hann mjög ómaklega að tiltekinni þingkonu Kvennalistans sem hér sat og flutti sex sinnum í röð slíkar tillögur við gerð fjárlaga á Alþingi. En við getum í sjálfu sér rætt það hér á eftir og ég ætla ekki að karpa um þessa hluti.
    Það kom fram hjá fyrrv. menntmrh. að oft hefði verið erfitt að halda á málum lánasjóðsins í fyrrv. ríkisstjórn og hann og fyrrv. fjmrh. hefðu bókstaflega haldið sjóðnum uppi með handafli, eins og hann orðaði það, í ríkisstjórninni. Það get ég sagt honum og það veit ég að hann veit ef hann skoðar í hjarta sér að við hefðum fúslega ljáð honum lið við að halda undir sjóðinn ef eftir því hefði verið leitað, enda höfum við áður lagt til hjálpandi hönd ef á þarf að halda, samanber reynslu félmrh. sem ég held að við vitum hver er.
    Hv. 11. þm. Reykn., Árni Mathiesen, sagði að það væri ljóst að lánareglur lánasjóðsins væru ekki í samræmi við það sem almennt gerðist í þjóðfélaginu og því yrði að breyta þeim. Ég spyr: Eiga þessar reglur að vera í samræmi við það sem almennt gerist á lánamarkaði í þjóðfélaginu? Mín skoðun er sú að þær eigi ekki að vera það. Þetta eru framfærslulán. Þetta eru peningar sem fara í hluti sem eru étnir og slitnir og eru hrein og klár framfærslulán. Við höfum slík lán inni í félagsmálastofnunum þó með svolítið öðrum formerkjum séu og ég veit ekki til að þau lán séu með háum vöxtum, lántökugjöldum eða öðrum erfiðum kjörum. Mér finnst að þessi lán eigi heldur ekki að vera það.
    Það var drepið hér á vextina í Danmörku og Guðrún Helgadóttir kom því réttilega á framfæri að á námstímanum þar eru 4% nafnvextir sem eru engir raunvextir vegna þess að það er engin vísitölutrygging í Danmörku á lánum og því rétt til þess að halda í við verðbólguna. Það eru 9,5% vextir þar að námi loknu, sagði hv. þm. og var mikið niðri fyrir. En ég er ekki viss um að það séu miklu hærri vextir en nefndin sem hv. þm. hefur setið í er að leggja til. Ég held að það séu ekki miklu hærri raunvextir en nefndin er að leggja til núna.
    Hv. 2. þm. Vestf., Ólafur Þ. Þórðarson, sagði að það væri gersamlega út í hött að réttlæta fjármuni til lánasjóðsins með því að bera þá saman við fjármuni sem við verjum

í vegakerfið. Mín orð hér áðan voru ekki hugsuð sem réttlæting heldur voru þau hugsuð sem samanburður til þess að liðsinna hugsunarferlinu, getum við sagt, hjá þeim sem finnast steinn og steypa öllum efnum æðri og skilja ekki að engin föst verðmæti verða sköpuð nema andinn sé að verki.
    Mig langar að koma inn á styrkjakerfið og hefði kannski kosið að gera það í framsögu minni áðan. Ekki það styrkjakerfi sem til er í Danmörku og ekki neitt tiltekið styrkjakerfi né Lánasjóð ísl. námsmanna heldur það styrkjakerfi sem mér finnst skorta hér á landi hjá atvinnuvegunum. Við höfum heyrt það æ ofan í æ að fulltrúar atvinnulífsins kvarta undan því að menntun námsmanna sé ekki í samræmi við þarfir atvinnulífsins. Og æ ofan í æ heyrum við að það séu einn eða tveir nemendur í fiskifræði meðan svo og svo margir eru að læra söng eða eitthvað annað. Auðvitað er eðlilegt að undan þessu sé kvartað, en atvinnulífið á svo marga möguleika til að breyta þessu. Hvers vegna í ósköpunum taka samtök atvinnulífsins sig ekki til og styrkja námsmenn, bjóða upp á styrki í tilteknum greinum sem þeim finnst skorta námsmenn í ef þeir vilja hvetja námsmenn til að fara í þessar tilteknu greinar? Af hverju búa þeir sér ekki til eitthvert styrkjakerfi? Það er kannski þannig með þá að þeir eru orðnir svo vanir þessu svokallaða velferðarkerfi fyrirtækjana að þeim dettur ekki í hug að þeir geti átt slíkt frumkvæði, þeir geti ýtt undir með þessum hætti. En ég kem þessari hugmynd hér með á framfæri.
    Hv. 17. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, talaði áðan um þessa umræðu á svolítið sérkennilegum nótum fannst mér. Honum fannst hún ekki tímabær og mér fannst hann fara í kringum tillögur nefndarinnar á tíðum eins og köttur í kringum heitan graut. Hann talaði eins og námsmönnum hefði verið falið að gera tilteknar tillögur en þær hefðu ekki enn litið dagsins ljós og þar af leiðandi væri afskaplega erfitt að fara í þessa umræðu. Námsmenn voru ekki beðnir um neinar tillögur. Menntmrh. átti frumkvæði að því að skipa nefnd sem kemur með þessar róttæku niðurskurðartillögur og námsmenn geta kannski lítið annað gert en að bregðast við því. Það er ekki hægt að gera neina kröfu til þess að þeir leggi inn til þingflokkanna einhverjar almennar tillögur um niðurskurð á sjálfum sér. Við þurfum ekkert að bíða eftir neinu slíku hér. Við höfum heyrt þeirra viðbrögð. Þau liggja ljós fyrir.
    Ég ætla hins vegar að fagna yfirlýsingu hv. þm. um tekjutenginguna vegna þess að ég held einmitt, eins og kom fram í hans máli, að tekjutengingin sé eitthvert mikilvægasta réttlætisatriði í þeim lögum sem við höfum núna. Hún ein getur tryggt að þeir tekjulægstu beri ekki of þungar byrðar af námslánunum að námi loknu.
    Ég ætlaði ekki að hafa um þetta fleiri orð en hv. þm. gat þess að það væri mun meiri ásókn í námslán en verið hefði þegar þessi lög voru sett og þegar hann og annar ótiltekinn þingmaður hér voru á sínum sokkabandsárum í háskólanum. En þegar þessir strákar voru á sínum sokkabandsárum voru þessir stærri fæðingarárgangar, sem nú er verið að tala um, fæddir. Það var vitað að fæðingarárgangarnir voru svona stórir.