Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 23:17:00 (669)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :

     Virðulegi forseti. Svör mín beinast að tveimur málum. Hið fyrra varðar gagnkvæmar veiðiheimildir okkar í samningsdrögunum að því er varðar viðmiðunarmörkin um karfaígildistonnin og loðnuna. Ég endurtek það, hv. 4. þm. Austurl., að það er rangt sem þú hefur sagt, að sigurlaunin hafi verið greidd úr eigin vasa. Íslendingar hafa aldrei veitt þessa loðnu sjálfir innan íslenskrar lögsögu. Það er ekkert úr eigin vasa. Ef þessi loðna væri fengin innan grænlenskrar lögsögu þá væri hún tekin af hlut Grænlendinga þar vegna þess að þann hlut hafa þeir selt Evrópubandalaginu og þann hlut hefur Evrópubandalagið skuldbundið sig til þess að láta Íslendingum í té. Skuldbindingin er raunveruleg vegna þess að ella hefðu þeir alveg eins getað framselt þessar veiðiheimildir öðrum, þ.e. Norðmönnum sem hefðu getað veitt þetta innan íslenskrar lögsögu. Það er einfaldlega rangt að þessi gagnkvæmni í veiðiheimildum sé ekki fullgild. Og það er jafnframt hitt atriðið sem er líka nauðsynlegt að menn átti sig á að ef Íslendingar, af einhverjum ástæðum, geta ekki fengið þessa loðnu, þá hefur Evrópubandalagið ekki þessi karfaviðmiðunartonn þannig að málflutningur hv. þm. stenst ekki.
    Að því er varðar túlkun annars vegar á niðurstöðum dóma og úrskurðum framkvæmdastjórnar um rétt stjórnvalda í EFTA-löndunum til þess að setja þrengjandi reglur sé ég ekki ástæðu til, eins oft og við hv. þm. Kristín Einarsdóttir höfum um það fjallað, að þrasa lengur um það úr ræðustól. Ég held að rétta leiðin væri sú að taka þetta mál til gagngerðrar skoðunar í þingnefndinni sem um það fjallar og leita eftir lögfræðilegri álitsgerð því ég held að við bætum okkur ekki á frekari orðræðum úr ræðustól.