Samráðsfundir forseta og formanna þingflokka

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 14:13:00 (693)

     Ólafur Þ. Þórðarson :

     Herra forseti. Ég vil að það komi skýrt fram að ég hef engum gefið umboð fyrir mína hönd til að semja um málfrelsi hér í þinginu og mun ekki gera. Þannig liggur það væntanlega ljóst fyrir, að ef hv. 1. þm. Norðurl. v. semur um tímalengd á ákveðnum málum þá gerir hann það upp á þá ábyrgð að menn virði það vegna þess að tilefni gefist ekki til annars, en gefist tilefni til annars vegna þess hvernig staða máls er, að mínu mati, þá mun ég að sjálfsögðu nýta mér öll þau mannréttindi sem ég hef sem þingmaður. Ég vil undirstrika það að fyrrv. hæstv. samgrh. hafði á þessu skýrar meiningar á sínum tíma. ( Gripið fram í: Núv. samgrh.) Núv. hæstv. samgrh. og ég vona að einnig sé svo með fyrrv. hæstv. samgrh.
    Varðandi forsætisnefndina þá tel ég það mikil mistök að þannig skyldi hafa verið gengið frá lögum á sínum tíma að það blasi við að samkvæmt hlutfallskosningu á minni hluti þingsins rétt á þremur og meiri hlutinn rétt á tveimur forsetum. Það er einfalt mál. Þetta var rofið vegna þess að menn vildu ekki sýna þá sanngirni að spila þær leikreglur eftir því hvort forseti þingsins væri sjálfstæðismaður eða ekki. Þegar Sjálfstfl. er í stjórnarandstöðu tel ég eðlilegt að hann nýti síns ýtrasta réttar í forsetakjöri þegar kosið er hlutfallskosningu, en ég tel ekki eðlilegt eftir að fyrst er kosið á milli tveggja, að þá sé kosið hlutfallskosningu um hina á eftir og þannig komið í veg fyrir að forsetafjöldinn í þinginu sé í samræmi við styrk þeirra sem mynda stjórn og stjórnarandstöðu.