Samráðsfundir forseta og formanna þingflokka

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 14:19:00 (695)

     Páll Pétursson :
     Frú forseti. Ég ætla nú ekki að fara að elta mikið ólar við ummæli Björns Bjarnasonar, hv. 3. þm. Reykv. Ég viðurkenni það ekki að ég hafi brotið samninga. Ég tel það oftúlkun satt að segja þó að hv. 3. þm. Reykv. sé með einhverjar slettur hér í ræðustól á Alþingi að kalla það upplýsingar, eða það hafi verið upplýst að brotnir hafi verið samningar.
    Hv. 3. þm. Reykv. lét þess getið í upphafsræðu sinni að hann vildi gjarnan að hér ríkti meðal manna fullt traust og fullur trúnaður. Ég tel mig ekki hafa brugðist trausti eða brotið trúnað, en framganga hv. 3. þm. Reykv. hér á Alþingi hefur sannarlega ekki greitt fyrir því að traust eða trúnaður ykist meðal manna. Hann á þátt í því, ásamt með nokkrum öðrum, að innleiða ný vinnubrögð á Alþingi og hann er nokkuð stoltur af því. Spurningin er bara hvort þessi vinnubrögð eru miklu betri en þau sem við höfum tíðkað áður. Ég held að flest í hinum nýju þingsköpum hafi verið til bóta, en samskipti stjórnar og stjórnarandstöðu eru önnur en þau hafa verið á undanförnum þingum. Núv. stjórnarlið hefur tekið upp þá stefnu að neyta alltaf ýtrasta aflsmunar í hverju tilfelli, hverju smáatriði, ekki bara í forsætisnefnd, heldur í öllum alþjóðasamskiptum og hvarvetna þar sem hægt er að láta kné fylgja kviði er það gert. Aldrei sýndur vottur af sanngirni eða samkomulagsvilja. Þetta er nýlunda hér í þingsalnum og í samskiptum þingmanna.
    Ég átti um langt árabil mjög gott samstarf við hæstv. menntmrh. sem þá var starfsbróðir minn og formaður þingflokks sjálfstæðismanna. Við kappkostuðum það báðir, hvort sem við vorum sömu megin við borðið eða ekki, að reyna að hafa sem allra best samstarf, svo mikið lifandis ósköp sakna ég hans.
    Hluti þessa þingfundartíma hefur farið í umræður um þingsköp og ég hóf þær. Hefði hv. 3. þm. Reykv. ekki verið með þennan rógburð í grein sinni þá hefði ég komist hjá því að kveðja mér hljóðs um þingsköp.