Samráðsfundir forseta og formanna þingflokka

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 14:22:00 (696)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Ég minnist þessi ekki, þau ár sem ég hef setið á Alþingi, að andrúmsloft eins og það sem hér hefur ríkt undanfarnar vikur --- og hef ég þó ekki verið viðstaddur alltaf vegna fjarveru --- hafi verið áður. Það er í rauninni einstakt að svo sé gengið fram af hálfu stjórnarmeirihluta eins og hér hefur verið gert og bætast nú við svikabrigsl ofan á annað.
    Ég held að það sé mjög brýnt fyrir þingið að taka þessi mál til umræðu milli forustumanna flokka og þingflokka og átta sig á því hvaða ástæður liggja hér að baki og hvaða leiðir eru færar til að bæta þessa stöðu.
    Ég held að það hafi verið gerð mistök í sambandi við samþykkt nýrra þingskapa sl. vor þegar Sjálfstfl. kaus að setja það skilyrði að geta beitt sínum þingstyrk í sambandi við kosningu í forsætisnefnd þingsins í stað þess að gera þann vettvang að samráðsvettvangi þar sem leitað væri samstöðu stjórnar og stjórnarandstöðu, ekki út frá þingstyrk flokka, en þó með eðlilegu vægi fyrir aðalforseta þingsins. Ég held að menn ættu að fara yfir það hvort ekki væri hægt að læra t.d. eitthvað af starfsháttum í öðrum þingum þar sem reynt er að deila valdi milli stjórnar og stjórnarandstöðu innan stjórnar þingsins, innan forsætisnefndar þingsins, með eðlilegum hætti.
    Ég held að ráðandi meiri hluti á þingi hverju sinni þurfi að átta sig á því að það eru ákveðnir kostir því samfara að gera stjórnarandstöðuna að nokkru leyti ábyrga fyrir þingstörfunum. Sá kostur var uppi, sá möguleiki var uppi, ef menn hefðu viljað fara þá leið

í sambandi við störf forsætisnefndar í stað þess að bola þar einum þingflokki út, þingflokki sem hafði nær 10% kjörfylgi í landinu í síðustu alþingiskosningum, til að tryggja stærsta flokknum aukinn hlut sem hann hafði möguleika á samkvæmt þingsköpum í forsætisnefndinni.
    Ég held það væri ástæða til að íhuga það líka ef menn vilja breyta um og reyna að skapa hér vinnuandrúmsloft í þingsölum á nýjan leik, hvort ekki væri skynsamlegt að menn reyndu einnig að deila valdi og áhrifum í störfum þingnefnda og í störfum alþjóðanefnda á vegum þingsins með öðrum hætti en gert hefur verið. Það er tíðkað í okkar grannlöndum, a.m.k. sums staðar, t.d. í Danmörku, og ég held með nokkuð góðum árangri.
    Þessum ábendingum vildi ég koma á framfæri ef svo skyldi fara að menn settust á rökstóla í framhaldi af þessum umræðum, virðulegur forseti.