Lánsfjárlög 1992

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 14:21:00 (760)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Ég vildi fyrst segja frá því að ástæðan fyrir því að ég missti af fyrri hluta ræðu hv. 5. þm. Suðurl. var sú að ég var á fundi með veiðibændum af bökkum Mývatns og Laxár til að ræða þeirra hagsmunamál sem ég vona að hv. þm. og aðrir sem spurðu eftir nærveru minni hér í þingsalnum skilji.
    Þessi umræða um lánsfjárlagafrv. fyrir árið 1992 hefur orðið tilefni til almennra umræðna um efnahagsmál. Það er að vonum. Hins vegar er mjög mikilvægt, þegar um þau er rætt og stjórn þeirra, að menn hugi að því að þar má skipta viðfangsefninu í tvennt. Annars vegar að óbreyttu hagskipulagi og markaðsaðstæðum: Hvernig bregðast menn við frá ári til árs, frá degi til dags, frá mánuði til mánaðar með þeim hagstjórnartækjum sem þeir þannig ráða yfir og við þeim breytingum sem þeir sjá í hagstærðunum á líðandi stund?

Mjög oft snýst umræðan einmitt um þetta. Hver er lánsfjárþörf ríkisins á næsta ári? Er hægt að draga úr henni? Hvernig virkar hún á jafnvægið á lánamarkaðnum? Hinn þáttur stjórnar efnahagsmála er ekki síður mikilvægur en hann er: Hvernig má breyta skipulaginu? Hvernig má breyta markaðsaðstæðum þannig að hagkerfið skili okkur meiri og betri árangri? Það er nefnilega þannig á þjóðarbúinu eins og á öðrum búum að margs þarf búið við. Mér fannst nú satt að segja hv. 6. þm. Norðurl. e. vera mun fjárgleggri bóndi en hv. 5. þm. Suðurl. eða 1. þm. Austurl. þegar þeir ræddu skipulag bankamála hér á landi. Í ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e. kom ákaflega vel fram skilningur hans á því að opna þyrfti lánamarkaðinn, enda í samræmi við merkt álit efnahagsnefndar þingflokks Framsfl. sem fyrir ekki löngu skilaði sínu áliti sem mjög var í frjálsræðisátt. Það þóttu mér heldur góð tíðindi og þykja enn.
    Það sem var mjög mikilvægt í ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e. var að hann spurði: Gekk ekki helst til hægt að opna lánamarkaðinn fyrir samkeppni eftir að vaxtafrelsið var veitt á árunum 1985--1987? Svarið er já. Þetta er rétt athugað hjá hv. þm. Vandinn var sá, hængurinn var sá, að erfiðlega gekk að mynda þingmeirihluta fyrir breytingum á lögum um fjárfestingu erlendra manna í atvinnurekstri á Íslandi. Það tókst vorið 1991. Það voru gerðar að þessu atrennur á árunum 1987--1988 en tókst ekki. Við þessu er svo sem ekkert að segja annað en að það tekur tíma að breyta skipulaginu, en það þýðir ekki að menn eigi að hverfa frá því og ekki líta til þess sem hinna varanlegu úrræða, eða a.m.k. endingarbetri úrræða en tómri skammtímastjórn.
    Þess vegna fagna ég því sem fram kom í máli hv. 6. þm. Norðurl. e. hvað þetta snertir, tel reyndar að það hafi líka komið fram að marki í máli hv. 1. þm. Austurl. þótt hann væri trúaðri á hægfara þróun. Það er ég reyndar líka, en málið er það að við megum ekki missa sjónar á því. Til þess að fákeppnin á íslenska lánamarkaðnum verði okkur ekki of dýr verðum við að hafa möguleikana á samkeppni.
    Menn hafa hér spurt unnvörpum: Hvaða erlendu bankar eru það sem hingað koma? Það gerði hv. 5. þm. Suðurl. Eru það finnsku bankarnir? Eru það norsku bankarnir? Eru það sænsku bankarnir? Svarið er að það er hugmyndin sem máli skiptir, sú hugmynd að þegar menn keyra úr hófi með kjörin muni aðrir koma til þess að njóta þeirra líka, að bankarnir okkar séu ekki með þá tilfinningu að þeir séu einir í heiminum. Þess vegna tel ég það mjög merkt viðfangsefni þessa þings að koma því á að íslenskir atvinnuvegir hafi hér fjármagn á heimsmarkaðsverði eins og hv. 2. þm. Vestf. hefur einatt orðað þetta.
    Það sem mér finnst líka mjög athyglisvert við þessa umræðu, þrátt fyrir nokkurn skoðanamun í röðum þingmanna Framsfl. um það hversu skammt eða langt, skjótt eða hægt menn skuli ganga fram í því að opna íslenska hagkerfið, er að á þingi er mjög mikil samstaða um það að til þess að ná tökum á okkar efnahagsmálum þurfti að halda eftirspurn ríkisins eftir lánsfé við hóf, með öðrum orðum að ná tökum á ríkisfjármálunum. Hér gengur hver maðurinn á fætur öðrum í stólinn og lýsir þessari skoðun. Þetta tel ég fagnaðarefni og tel það boða gott um afgreiðslu væntanlegs fjárlagafrv. og lánsfjárlagafrv. sem við ræðum í dag.
    Þetta snertir að sjálfsögðu líka aðra þætti í fjárlagagerðinni en þá sem við ræðum nú. Ég vil vegna spurninga, sem hér hefur verð varpað fram til mín sérstaklega, segja það alveg skýrt að ég tel það vera tvö mjög mikilvæg verkefni í skattamálum, að samræma skattlagningu eigna og eignatekna, eins og skýrt er fram tekið í stefnu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar að hún ætli að vinna að, og að breyta skattlagningu íslensks atvinnurekstrar til samræmis við það sem gerist í nágranna- og samkeppnislöndum okkar. Þar verður að sjálfsögðu fyrst fyrir aðstöðugjaldið sem hér hefur nokkuð verið rætt. Það gildir um hvor tveggja málin að þau má ekki skoða í einangrun þótt á þeim þurfi að taka sérstaklega. Það

á að líta á heildarbyrði skattanna annars vegar og við viljum ekki hækka hana. Það þýðir ekki að við eigum að læsa þetta saman mjög þröngt, heldur líta breitt yfir skattlagningu einstaklinga og að sjálfsögðu viljum við jafnan reyna að ná þar sanngjarnari niðurjöfnun skattanna en verið hefur, það er ævarandi viðfangsefni Alþingis, og hitt, að tryggja íslenskum atvinnuvegum sambærileg skattakjör og keppinautar þeirra njóta. Þetta er verkefnið sem fyrir okkur liggur og ég hygg gott til þess að eiga um það samstarf við menn hér á þinginu að ná fram slíkum starfskjörum fyrir íslenskt atvinnulíf og íslensk heimili.
    Að lokum, virðulegi forseti, vildi ég svara beinni spurningu hv. 8. þm. Reykn. þegar hann spurði hver skoðun mín væri á þeim úrræðum í atvinnumálum sem gripið var til haustið 1988 og fólu m.a. í sér að stofnaðir voru sjóðir til þess að skuldbreyta skuldum útflutningsatvinnuveganna, og þá er ég hér einkum að tala um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina. Ég get sagt það skýrt að ég tel að þær ráðstafanir hafi verið nauðsynlegar. Það var, við þær aðstæður sem þá voru, þörf á sértækum ráðstöfunum af því tagi sem þá var gripið til. Því miður hefur framhaldið orðið slíkt að margt af því sem menn töldu að væri tímabundið og mundi snúast til betri vegar og réttlætti þessar aðgerðir hefur því miður ekki staðist. Við ætluðum okkur alla tíð, við sem að þessum aðgerðum stóðum, að leysa þær af hólmi með almennum aðgerðum. Það verkefni hvílir enn á okkur og í því máli getur ekki gilt nein þrætubókarlist. Það sem við þurfum að huga að er að finna lausnir sem tryggja jafnvægi í okkar efnahagsmálum, sanngjarna skiptingu kjara og rekstrargrundvöll fyrir okkar atvinnulíf. Þar held ég að við höfum enn ekki fundið eilífðarpatentið, en eitt er alveg víst, að það er margt sem betur má fara í starfsemi þeirra sjóða sem starfa fyrir atvinnulífið og þess vegna má vel vera að æskilegt sé að gera víðtækari könnun á því hvernig þeir standa en gerð hefur verið til þessa. Mig langar til að minna á að þar stendur mikið verk fyrir dyrum sem er að breyta lögum um fjárfestingarlánasjóði atvinnuvega, breyta þeim í hlutafélög, fækka þeim, færa þá saman þannig að þeir verði áreiðanlegri og betri starfstæki fyrir íslenskt atvinnulíf, geti fært okkur það sem við þurfum sem er starfsfé fyrir Ísland á sanngjörnum kjörum.