Lánsfjárlög 1991

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 14:40:00 (762)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :

     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingar á lánsfjárlögum fyrir árið 1991. Í frv. er lagt til að fjmrh. verði fyrir hönd ríkissjóðs heimilað að taka erlent lán á yfirstandandi ári að fjárhæð allt að 12,8 milljarðar kr. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun stefnir heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs á yfirstandandi ári í að verða um 19,8 milljarðar kr. Við afgreiðslu fjárlaga árið 1991 í lok síðasta árs var heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs áætluð 13,6 milljarðar kr. Með samþykkt lánsfjárlaga á Alþingi í mars sl. hækkaði lánsfjárþörfin um 1,1 milljarð kr. vegna samþykktar hæstv. Alþingis um viðbótarútgjöld ríkissjóðs á árinu. Lánsfjárþörf ríkissjóðs er því nú áætluð um 5,1 milljarður kr. umfram áætlun lánsfjárlaga. Rekja má þessa hækkun til eftirtalinna liða fyrst og fremst:
    Í fyrsta lagi er rekstrarhalli ríkissjóðs 1991 álitinn verða rúmlega 8,9 milljarðar kr. eins og sést í fjárlagafrv. í stað 5,2 milljarða kr. samkvæmt lánsfjárlögum og 4,1 milljarðs samkvæmt fjárlögum. Ítarlega skýringu á þessum liðum er að finna í frv. til fjáraukalaga sem nú liggur fyrir hv. Alþingi.
    Í öðru lagi er útstreymi umfram innstreymi á viðskiptareikningum ríkissjóðs talið nema 1,4 milljörðum kr. á árinu 1991, eða 0,9 milljörðum kr. umfram áætlun en það skýrist af sérstöku skammtímaláni til Byggingarsjóðs ríkisins sem veitt var fyrri hluta þessa árs og endurgreiðist að fullu á næsta ári.
    Í þriðja lagi, veitt ný lán, aðallega til stofnana og fyrirtækja ríkissjóðs, eru talin nema 4,7 milljöðrum kr. samanborið við 4,4 milljarða í áætlun fjárlaga.
    Í fjórða lagi, innheimtar afborganir af veittum lánum hafa reynst vera um 0,2 milljörðum kr. lægri en áætlað hafði verið eða 3,2 milljarðar í stað 3,4 milljarða.
    Í lánsfjárlögum fyrir árið 1991 var gert ráð fyrir að allar lántökur ríkissjóðs færu fram innan lands. Því markmiði verður engan veginn náð, einungis er talið að hægt verði að afla um 6,2 milljarða kr. innan lands á árinu 1991. Umskiptin frá fyrra ári eru með tvennum hætti. Annars vegar hefur peningalegur sparnaður innan lands dregist saman frá árinu 1990. Hann var áætlaður 36 milljarðar í ár eins og á árinu 1990 en hefur reynst, samkvæmt þeim horfum og spám sem síðast hafa verið gerðar, 29 milljarðar kr. Þannig hefur innlendi sparnaðurinn fallið úr því að vera 10,7 af vergri landsframleiðslu í 7,9 af vergri landsframleiðslu.
    Hins vegar vil ég benda á að ný tegund ríkisverðbréfa, húsbréf, hafa komið á markaðinn í mjög auknum mæli.
    Afgreidd húsbréf á árinu 1990 námu 5,5 milljörðum kr. á meðan afgreidd húsbréf á yfirstandandi ári eru áætluð samtals 15 milljarðar kr. Ávöxtun húsbréfa á markaði er eðli þeirra samkvæmt hærri en ávöxtun spariskírteina ríkissjóðs. Bæði þessi atriði sem ég hef hér nefnt hafa haft þau áhrif að erfiðlega hefur gengið að selja spariskírteini ríkissjóðs þrátt fyrir hækkun vaxta.
    Vegna umræðna, sem fóru fram hér fyrr í dag um lánsfjárlagafrv. fyrir næsta ár, vil ég taka fram að gefnu tilefni að eftir fyrstu fjóra mánuði yfirstandandi árs var staðan sú í sölu ríkisverðbréfa að útstreymi úr ríkissjóði vegna ríkisvíxla var 2,6 milljarðar og vegna spariskírteina 180 millj. kr. Þannig hafði staða ríkisvíxla miðað við sama tímabil árið áður versnað um 6,2 milljarða og varðandi spariskírteinin var ástandið miðað við fyrstu fjóra mánuðina á árinu á undan, 340 millj. verri. Samanlagt eru þetta 6,6 milljarðar kr. sem umskiptin urðu séu teknir til samanburðar annars vegar fyrstu fjórir mánuðir 1990 og hins vegar fyrstu mánuðirnir 1991. Ég þarf ekki að fara fleiri orðum til að skýra út hvernig á því stóð að til þeirra ráðstafana var gripið í maímánuði á þessu ári, þessar tölur segja í raun alla söguna.
    Á yfirstandandi ári hafa verið seld spariskírteini fyrir 32 milljarða kr. og þess er vænst að unnt verði að selja spariskírteini ríkissjóðs fyrir um 1,8 milljarða til viðbótar.

Þannig er heildarsala spariskírteina áætluð 5 milljarðar kr. á árinu. Í lok september höfðu ríkisvíxlar verið seldir fyrir 4 milljarða kr. umfram innlausn á eldri víxlum. Í ljósi reynslu undangenginna ára er talið að stofn ríkisvíxla gangi til baka og ekki verður viðbótarfjáröflun í þeim á þessu ári.
    Í þessu sambandi má benda á það sem nokkuð hefur verið í umræðu, bæði hér á hinu háa Alþingi og annars staðar, að staða bankakerfisins í þessum efnum hefur verið nokkuð veik.
    Önnur lántaka á innlendum markaði nemur 1,2 milljörðum kr. og er um að ræða lán frá Framkvæmdasjóði Íslands, en sjóðstaða hans var mjög góð í byrjun árs og tók þáv. ríkisstjórn þá lán hjá sjóðnum.
    Virðulegi forseti. Hér hefur komið fram að lánsfjárþörf ríkissjóðs verður 19,8 milljarðar kr. og að einungis verður hægt að afla um 6,2 milljarða kr. á innlendum lánamarkaði. Það sem á vantar, 13,6 milljarða kr., þarf að öllum líkindum að taka að láni á erlendum mörkuðum. Af þeirri fjárhæð eru 800 millj. kr. vegna endurlána sem ríkisjóður hefur þegar heimild fyrir samkvæmt ákvæðum lánsfjárlaga áranna 1990 og 1991. Þar vegur að sjálfsögðu þyngst lántaka vegna smíði ferju fyrir Herjólf hf. í Vestmannaeyjum.
    Samtals er því í þessu frv. sótt um heimild til ríkissjóðs til erlendrar lántöku að fjárhæð 12,8 milljarðar kr. Af þeirri fjárhæð er gert ráð fyrir að veita Byggðastofnun lán að upphæð 150 millj. kr. vegna fiskeldisfyrirtækja í samræmi við samþykkt núv. ríkisstjórnar frá sl. sumri um stuðning við fiskeldi. En eins og menn muna var sú ákvörðun tekin að efna til þessara ráðstafana til þess að freista þess að sú þekking, sem hér er til staðar í fiskeldi, megi nýtast áfram þrátt fyrir þá miklu hrakninga sem þessi atvinnugrein hefur lent í að undanförnu.
    Virðulegi forseti. Ég mælist svo til þess að að lokinni 1. umr. verði þessu máli vísað til hv. fjárln. sem síðan, samkvæmt nýjum þingsköpum, vísar því væntanlega til efh.- og viðskn. til frekari umfjöllunar. Einnig þarf að vísa málinu til 2. umr.