Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 15:46:00 (771)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Ég geri engar kröfur um það að fulltrúar Alþfl. taki þátt í þessum umræðum, þeir munu vætnanlega upplýsa sína afstöðu síðar. En það er aðeins eitt sem ég vildi segja við hæstv. fjmrh. út af því sem hann sagði að ekkert væri vitað um það hvenær þessi frv. kæmu fram. Hann nefndi annars vegar í byrjun desember og hins vegar sagði hann á næstu vikum. Ég hef e.t.v. misskilið hann, hann sagði að annað frv. væri komið til stjórnarflokkanna og mundi væntanlega koma fram á næstu vikum. Það þarf þá að vera þar afar lengi.
    Ég vil benda hæstv. ráðherra á það, þótt hann vitni til fyrri ára --- og það er alveg rétt hjá honum að oft á tíðum hafa frumvörp verið lögð allt of seint fram á þinginu og má finna mörg vond fordæmi fyrir því, þannig að þar geta menn leitað lengi og vel í fortíðarvanda --- að það vill svo til að við störfum nú eftir nýrri skipan, nýjum þingsköpum og nýrri skipan Alþingis. Hér áður fyrr var það þannig að mál voru flutt fyrst í neðri deild eða fyrst í efri deild og þá gátu menn oft látið sér það nægja að tala við og fá upplýsingar frá ráðherrunum í annarri deildinni. En nú er það ekki svo, allar umræður verða

að fara fram í einni deild. Þar að auki var Alþingi ekki sett 10. okt. heldur 1. okt. Og það er gert ráð fyrir því að því ljúki mun fyrr en áður hefur verið.
    Þessar upplýsingar benda því til þess að hér sé að skapast alvarlegt ástand sem ríkisstjórnin virðist bera alla sök á því hún er ekki einu sinni farin að koma saman frumvörpunum sínum. Og fram hefur komið að ekki sé víst að frumvörp, sem er þó búið að koma saman, sjái dagsins ljós hér á Alþingi fyrr en eftir nokkrar vikur. Ég hlýt að vara við þessari hugsun sem kom fram hjá hæstv. ráðherra og minni hann á það að ekki dugar að segja við stjórnarandstöðuna að hún sé að tefja hér mál ef það á að standa þannig að málum að það verður engin áhersla lögð á það að Alþingi fái að sjá þessi frv. fyrr en nokkrum dögum áður en á að samþykkja þau.