Málefni Ríkisútvarpsins

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 17:22:00 (809)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Það sjónarmið sem fram kom hjá mér er ekkert nýtt fyrir þá sem hafa hlýtt á umræðu um menningarmál á undanförnum árum. Ég hef mjög lengi verið þeirrar skoðunar að menningarstofnanir ríkisins eigi að vera sjálfstæðar. Ég hef mjög lengi verið þeirrar skoðunar að þeir sem þar starfa eigi að ráða mjög miklu. Yfirmennirnir eigi hins vegar að vera skipaðir til takmarkaðs tíma eftir alveg ákveðnum reglum. Þeir eiga ekki að vera skipaðir ævilangt. Ég tel að þetta eigi við um Ríkisútvarpið, um Þjóðleikhúsið t.d. og fleiri slíkar stofnanir. Ég er þeirrar skoðunar, og hef mjög lengi verið, að sú aðferð, sem hefur verið höfð uppi að kjósa sérstaka pólitíska trúnaðarmenn í útvarpsráð eða þjóðleikhúsráð, sé á misskilningi byggð. Ég tel það algjörlega fráleitt. Auðvitað þarf að koma við einhverju notendaeftirliti eins og kostur er hjá Ríkisútvarpinu. En vitaskuld er staðan þannig að eftir að Ríkisútvarpið er látið standa frammi fyrir almennri samkeppni þá er hin almenna markaðslega samkeppnisstaða Ríkisútvarpsins það eftirlit sem Ríkisútvarpið hefur að sæta og í rauninni getur útvarpsráð ekki komið í staðinn að neinu leyti.
    Ég ber fulla virðingu fyrir þeim mönnum sem hafa verið kosnir í útvarpsráð, bæði nú og fyrr, en ég er sannfærður um það að hlutverk þeirra getur ekki verið með sama hætti á komandi árum og það hefur verið. Og það er misskilningur af Alþingi, það liggur mér við að segja, með leyfi forseta, að vera með fingurna í verkum af þessu tagi í smáatriðum eins og dagskrá, hvernig hún var, hvernig menn töluðu, hvað menn sögðu o.s.frv., algjör fjarstæða og er búið að leggja það af í ritskoðunarþjóðfélögum sem voru mikið harðari af sér en við nokkurn tímann í þeim efnum.