Lyfjaverð til öryrkja

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 18:34:00 (827)

     Guðmundur Bjarnason :
     Frú forseti. Það er aðeins út af því að hæstv. ráðherra segir að það hafi ekkert komið fram skjalfest um að lyfjakostnaður öryrkja hafi hækkað. Auðvitað hefur það komið skjalfest fram. Það hefur komið skjalfest frá Sjálfsbjörg, Landssambandi fatlaðra, skráð af formanni landssambandsins, Jóhanni Pétri Sveinssyni, og hæstv. ráðherra er þá að væna hann um að þetta sé allt rangt sem þar er sett fram. Auðvitað kann að vera að ekki séu allar tölur nákvæmlega réttar, ég ætla ekki að rengja ráðherra um það að einhverjar verðupphæðir hér séu ekki nákvæmar, ég skal ekki rengja hann um það heldur. En að það geti verið svo ónákvæmt að það fari úr 2.000 kr. í 20.000 kr. því trúi ég alls ekki. Og þó ráðherra kunni að finna einhverja einstaklinga sem lyfjakostnaður kann að hafa lækkað hjá, þá segir það heldur ekkert um að þetta sé réttlætanlegt því þetta kemur verulega og alvarlega illa við þá sem verða fyrir þessum miklu hækkunum.
    Fullyrðing hæstv. ráðherra, sem hefur komið fram í þingsölum áður, að meðaltalshækkun hafi verið 190 kr. eða svo á lyfseðil --- slík meðaltalstala segir auðvitað ekki nokkurn skapaðan hlut fyrir þá sem þurfa að greiða stórhækkað lyfjaverð og minnir mig á sögu sem ég heyrði einu sinni af manni sem var kalt á fótunum og sagði þá sögu að meðaltalsupplýsingum mætti líkja við það að ef maður væri með aðra löppina í ísköldu vatni og hina í sjóðandi vatni þá ætti manni að líða að meðaltali vel. Svona eru nú þessar meðaltalstölur.