Eignarréttur og afnotaréttur fasteigna

23. fundur
Mánudaginn 11. nóvember 1991, kl. 14:15:00 (835)

     Jón Helgason :
     Hæstv. forseti. Ég vænti þess að frv. verði þegar að lokinni umræðunni vísað til allshn. þar sem ég á sæti og mun ég fá tækifæri til að fjalla um það þar. En frv. er gjörólíkt hinum tveimur fyrri frv. sem hæstv. dómsmrh. mælti hér fyrir áðan. Þar var um að ræða mál sem ég hygg að sé algjör samstaða um á Alþingi að þurfi að ná fram að ganga. Annars vegar er þar um að ræða breytingar sem eru búnar að vera lengi í athugun, eins og kom fram hjá hæstv. dómsmrh., lagfæringar og einföldun á framkvæmd málefna sem snerta mjög marga í þjóðfélaginu og hins vegar vegna þeirrar breyttu skipanar á dómstólum sem ákveðin hefur verið hér að undanförnu á síðustu þingum. En þetta frv. fjallar um breytingu á lögum sem samþykkt voru á síðasta þingi um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Mér finnst athyglisvert að sú fyrsta breyting sem núv. ríkisstjórn gerir á þeim lögum fjallar um að draga úr eftirliti með framkvæmd þeirra, þ.e. fella niður skyldu dómsmrn. að fylgjast þar með.
    Það getur vel verið að á öðrum stöðum verði svo nákvæmt eftirlit með framkvæmd laganna að allshn. komist að niðurstöðu um að þetta megi burtu falla. Ég vil þó hafa fullan fyrirvara um það atriði á meðan ég hef ekki skoðað það betur.
    En það sem ég vildi sérstaklega víkja að er að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort ekki séu í undirbúningi breytingar á þessum lögum. Í umræðum um skýrslu hæstv. utanrrh. um Evrópska efnahagssvæðið beindi ég til hans spurningu um eitt atriði sem mér sýnist að muni fljótlega reyna á. Það er vegna hugsanlegs samruna fyrirtækja sem við hæstv. sjútvrh. könnumst við.
    Annað fyrirtækið sem þar um ræðir var a.m.k. og ég hygg er enn að einhverjum hluta í eigu hlutafélags sem er að nokkru leyti í eigu útlends aðila. Samkvæmt þeim lögum sem samþykkt voru á sl. vetri má slíkur aðili eiga áfram eignarhluta sinn í slíkum fyrirtækjum. En hvað ef stofnað verður nýtt fyrirtæki þar sem hinn erlendi aðili er bakeigandi að einhverjum hluta? Má þá ekki gera út nýja fyrirtækið að óbreyttu eignarhaldi? Mér sýnist að hér þurfi að huga betur að. Jafnvel þó að ekki verði af samningum um Evrópska efnahagssvæðið held ég að þetta sé atriði sem hlýtur að reyna á í framkvæmdinni. Sem sagt ef fyrirtækið sem erlendur aðili á eignaraðild að stofnar nýtt fyrirtæki með öðrum, hvernig verður þá um heimildir þess nýja fyrirtækis til þess að stunda fiskvinnslu og útgerð? Ég vildi nefna þetta sem dæmi til að fylgja eftir þeirri spurningu til hæstv. dómsmrh. hvort nýju lögin séu ekki í heildarendurskoðun með tilliti til þeirra samninga sem gerðir hafa verið og væntanlega verða lagðir fyrir Alþingi á næstu mánuðum þar sem tvímælalaust mun reyna miklu meira á þessi lög.