Verðlagsráð sjávarútvegsins

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 13:49:00 (859)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. 4. þm. Norðurl. e. að það er ærin ástæða fyrir Alþingi að ræða ítarlega um málefni sjávarútvegsins. Hér er til umfjöllunar frv. sem gerir ráð fyrir grundvallarbreytingum á verðlagningu sjávarfangs með því að mælt er fyrir um að horfið verði frá áratuga gamalli skipan um miðstýrðar verðákvarðanir yfir í þá nýskipan að verð ráðist á frjálsum markaði.
    Hv. þm. ræddi hins vegar minnst um efni þessa frv. og þeirrar nýsköpunar heldur ýmis önnur atriði sem tengjast málefnum sjávarútvegsins. Mörg þeirra og flest hver verða til umræðu í formlegum þingmálum. Sá þáttur sem hv. þm. varði mestum tíma til að ræða, fyrirhugaðar breytingar á Hagræðingarsjóði, kemur til umræðu í þingmáli sem ég vænti að verði lagt fram í dag eða allra næstu daga og hv. þm. geta rætt þegar það mál kemur á dagskrá. Fjölmörg önnur mál er snerta sjávarútveginn munu koma hér til umfjöllunar, m.a. það sem hv. þm. vék að og lýtur að betra jafnvægi á milli starfsskilyrða fiskvinnslu í landi og úti á sjó þar sem ætlunin er að gera sambærilegar kröfur um gæði og nýtingu varðandi vinnslu á sjó. Frv. þess efnis kemur einnig til umfjöllunar hér. Þegar það kemur á dagskrá er eðlilegt að ræða það ítarlega.
    Við munum einnig ræða mjög ítarlega stöðu sjávarútvegsins í ljósi nýgerðra samninga um Evrópska efnahagssvæðið. Það mál verður líka á dagskrá þingsins og eðlilegt að ræða um þau efni og stöðu sjávarútvegsins á ítarlegan hátt þegar þar að kemur. Við munum einnig síðar á þessu þingi ræða um skipulagsbreytingar í stjórnsýslu sjávarútvegsins sem eru í undirbúningi og fela í sér verulegar breytingar á skipan þeirra mála. Vitaskuld er það kórrétt hjá hv. þm. að allir þessir þættir tengjast meira og minna og ekkert óeðlilegt við það að menn varpi fram spurningum um önnur atriði í sjávarútvegi þegar rætt er um nýja skipan á verðmyndun sjávarfangs.

    Ég vil þó í þessu sambandi minna á að þau ákvæði sem hér er verið að fjalla um eru í samræmi við þróun sem er að eiga sér stað. Hér er ekki verið að þvinga fram nýja skipan með lögum heldur varða leiðina fram á við í ljósi þeirrar þróunar sem á sér stað og allt hefur það verið undirbúið í mjög góðu samráði og samstarfi þeirra samtaka sem aðild eiga að Verðlagsráði sjávarútvegsins.
    Ég ætla ekki, frú forseti, að fara mörgum orðum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins en vísa aftur til þess að það mál kemur hér til umræðu. Við getum fjallað ítarlega um það þegar það kemur með formlegum hætti á dagskrá. Ég vil aðeins eyða þeim misskilningi sem fram hefur komið í því efni í þessari umræðu. Ég vil taka það skýrt fram að ég hef ekki borið fram neinar ásakanir á hendur fyrrv. ríkisstjórn í þessu efni eða kennt henni um eitt eða neitt. Ég var að vísu andvígur þeim lögum sem sett voru um Hagræðingarsjóðinn af ýmsum ástæðum. En þau voru eigi að síður sett af fyrrv. ríkisstjórn og þingmönnum þeirra flokka sem að henni stóðu. Það atriði sem helst var gagnrýnt varðandi notkun á þeim aflaheimildum sem Hagræðingarsjóður hefur til ráðstöfunar í þágu Hafrannsóknastofnunar var sú skipan mála hvernig þeim yrði komið í verð. Í því efni vísaði ég einungis til þess sem núgildandi lög mæla fyrir um í því efni. Það verður með öðrum orðum í engu breytt frá því sem fyrri ríkisstjórn ákvað varðandi þetta atriði. Að því leyti er þess vegna ekki um nein nýmæli að ræða.
    Í gildandi lögum um Hagræðingarsjóð segir svo í 8. gr.: ,,Hagræðingarsjóður skal við upphaf hvers fiskveiðiárs eða veiðitímabils gefa þeim skipum, er tilteknar veiðar stunda, kost á að fá framseldar til sín gegn endurgjaldi heimildir til þeirra veiða, sem sjóðurinn hefur forræði á, í hlutfalli við veiðiheimildir hvers skips. Skal endurgjaldið miðað við almennt gangverð á sams konar aflaheimildum að mati sjóðstjórnar. Ráðherra getur með reglugerð ákveðið lágmark þeirra aflaheimilda sem forkaupsréttur samkvæmt þessari málsgrein nær til.
    Þær veiðiheimildir, sem forkaupsréttur er ekki nýttur á skv. 1. mgr., skal sjóðstjórn framselja hæstbjóðanda samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur í reglugerð. Sama gildir um framsal aflaheimilda á því fiskveiðiári eða veiðitímabili sem fiskiskip er keypt.`` Hér er með öðrum orðum kveðið á um það hvernig koma á þessum aflaheimildum í verð.
    Ég var þeirrar skoðunar þegar þessi lög voru sett að hér væri um að ræða gjaldtöku á sjávarútveginn. Það stendur eftir sem áður óbreytt. Aflaheimildirnar hafa verið teknar af sjávarútveginum og það er gjaldtaka. Á hinn bóginn er rangt að það sé ný gjaldtaka sem nú er verið að ákveða. Hún var ákveðin með þessum lögum og það var ákveðið að koma heimildunum í verð með þessum hætti og þar á eru ekki gerðar neinar breytingar. Gjaldtakan á sér stað en hún er ekki ný af nálinni. Hún var ákveðin af fyrri ríkisstjórnarflokkum.
    Þá er spurningin um notkunina á þeim fjármunum. Í fyrsta lagi gera þau lög sem nú eru í gildi ráð fyrir því að Hagræðingarsjóður standi undir ákveðnum hluta af kostnaði við úreldingu fiskiskipa. Það hefur enn sem komið er ekki komið til framkvæmda. Lögin, eins og þau eru úr garði gerð í dag, hafa ekki þjónað þeim tilgangi. Þau hafa ekki stuðlað að því að menn hafi sóst eftir slíkum styrkjum. Það þarf því að gera á þeim breytingar til þess að sjóðurinn geti gegnt því hlutverki, en af hálfu fyrri ríkisstjórnar var ekki þannig staðið að lagasetningunni að hún næði tilgangi sínum að þessu leyti. Ætlunin er að gera þessa breytingu á fyrst og fremst með því að heimila hærra bótahlutfall en núgildandi lög gera ráð fyrir. Sjóðurinn mun áfram fá árlegar tekjur af sérstöku gjaldi sem lagt er á rúmlestatölu fiskiskipa. Það verður nýtt til að standa undir hagræðingarverkefnum með því eigin fé sem sjóðurinn á í dag. Það er því ekki ætlunin að hverfa frá þessu hlutverki. Þvert á móti á að opna möguleika á því að geta gert snöggt tímabundið átak til þess að

hafa raunveruleg áhrif í þá veru að fækka fiskiskipum.
    Hitt atriðið sem hér kemur til álita eru byggðaverkefni þau sem Hagræðingarsjóðnum var ætlað að hafa með höndum. Ég dreg ekki í efa góðan tilgang manna með þeim ákvæðum og dreg síst úr því að eins og sakir standa þarf að hlúa að atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni án þess að ég ætli að fara lengra út í þá sálma í þessari umræðu. En ég minni á það að eins og þessi lög voru úr garði, gerð þá er tæknilega mjög erfitt að koma því við að þau þjóni þessum tilgangi sínum. Við setningu laganna komu fram athugasemdir frá ýmsum aðilum í sjávarútvegi sem bentu á að hæpið væri að lögin gætu þjónað þessum tilgangi. Þau hafa ekki náð markmiði sínu enn sem komið er að því er varðar úreldingu fiskiskipa. Þau hafa ekki enn náð því markmiði að vera stuðningur við einstakar byggðir í landinu og ég held að það stafi einfaldlega af því að lögin eru þannig úr garði gerð að það er hæpið að þessi markmið náist. Ég bendi á að hér er um tímabundnar aflaheimildir að ræða og það getur ekki falist nein varanleg lausn í því fyrir neitt byggðarlag að opinber sjóður af þessu tagi ákveði aflaheimildir til nokkurra mánaða og flytji þær síðan eitthvert annað. Menn hljóta að hugsa þau mál miklu dýpra ef á annað borð er verið að taka af festu á vandamálum í einstökum byggðarlögum.
    Það mál sem hv. þm. benti á, sem eru vandamál á Súgandafirði, og sagði að einmitt þar hefði Hagræðingarsjóðurinn getað komið til álita. Það var prýðisgott að hv. þm. skyldi nefna þetta dæmi því að það er einmitt skýrt dæmi um að þessi sjóður hefði ekki komið að neinu haldi við þann vanda sem nú er að etja á Súgandafirði. Vandi þeirra í dag er ekki skortur á aflaheimildum. Vandi þeirra í dag er sá að Landsbankinn vill ekki lána mönnum út á fisk sem landað er þar. Eftir því sem mér skilst er sjálfsagt að lána út á fiskinn ef honum er landað annars staðar. Þó segi ég þetta með þeim fyrirvara að ég hef ekki skilið nákvæmlega hvað býr að baki þeirri ákvörðun Landsbankans sem lýtur að þeirri sameiningu fyrirtækja og hagræðingu sem átt hefur sér stað á Súgandafirði og með þeim fyrirtækjum sem þar hafa haft ráðagerðir uppi um að halda áfram atvinnurekstri á staðnum í nýju formi. Hagræðingarsjóðurinn hefði ekki leyst þetta vandamál, ekki á nokkurn hátt. Þetta er einmitt dæmi um að það er mjög ofgert hvað þessi sjóður, eins og lögin eru upp byggð, hefði getað gert í þeim tilgangi að styðja við einstakar byggðir.
    Ég ítreka að tilgangurinn er góður og gildur og ég er ekki að deila við þá menn sem höfðu það að markmiði að styðja við sjávarútveginn og einstakar byggðir í landinu. Horfandi á þessa galla laganna og með þá staðreynd í huga að auknar hafrannsóknir hljóta að vera forgangsverkefni í íslenskum sjávarútvegi, þá var mjög eðlilegt í þeim þrengingum sem við búum við að víkja þessu verkefni til hliðar, enda er það meginverkefni Byggðasjóðs að sjá um verkefni af þessu tagi, en nýta þær aflaheimildir sem búið var að taka af sjávarútveginum þess í stað til að standa undir verulegum hluta af kostnaði við hafrannsóknir. Með þessum móti var líka unnt að skapa Hafrannsóknastofnun stóraukið svigrúm til þess að takast á við ný verkefni á sviði hafrannsókna, þ.e. fjölstofnarannsóknir.
    Ég er þeirrar skoðunar að það hafi dregist úr hömlu að gefa Hafrannsóknastofnun kost á því að ráðast í þessar mikilvægu og nauðsynlegu rannsóknir. Við þurfum á þessari vitneskju að halda til þess að geta tekið ábyrgar ákvarðanir um nýtingu auðlindarinnar til lengri tíma. Það hafa verið efasemdir um gildi þeirra rannsókna sem við byggjum okkar ákvarðanir á. Við gerum það þó á grundvelli bestu vitneskju sem til er. Við vitum hins vegar að það er hægt að afla meiri vitneskju. Við vitum að það er hægt að óska eftir svörum við fleiri spurningum sem nauðsynlegar eru fyrir okkur til þess að byggja frekari ákvarðanir á. Það getur skipt sjávarútveginn og þróun atvinnumála í einstökum byggðum sköpum hvort í þessar rannsóknir verður ráðist eða ekki. Íslenskur sjávarútvegur á mjög mikið undir því, og þar á meðal öll sjávarplássin í landinu, að í þessar rannsóknir verði

ráðist.
    Þess vegna hef ég litið svo á að þetta væri forgangsverkefni og það hafi verið fullkomlega eðlilegt að leggja þessa áherslu og nota þessa fjármuni sem þannig var búið að taka frá í þessum tilgangi.
    Frú forseti. Ég ætla ekki að ganga meira á svig við dagskrárefni fundarins en þær umræður sem hér hafa farið fram gerðu það að verkum að óhjákvæmilegt var að víkja að einstökum atriðum eins og þessum sem ekki eru beinlínis dagskrárefni fundarins. En ég ítreka þakklæti mitt varðandi þann stuðning sem frv. sjálft sem hér er til umræðu hefur fengið. Ég treysti því að hv. þm. skilji mikilvægi þess og í samræmi við þá samstöðu sem er á bak við frv. í atvinnugreininni sjálfri stuðli að því að það fái sem skjótasta og vandaðasta málsmeðferð í þinginu.