Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 22:09:00 (899)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Hv. 8. þm. Reykn. sagði að mikilvægt væri að við núverandi aðstæður starfaði í landinu ríkisstjórn sem gæti leitt menn saman. Ég verð að segja eins og er að lýsing sú sem ræðumaðurinn gaf á atburðum í fyrrv. ríkisstjórn, a.m.k. um þetta mikilvæga mál, benti ekki til þess að þar hefðu menn gengið samstiga í þessu máli eða öðrum. Þvert á móti virtist enginn vita hvað annar var að gera og hæstv. fyrrv. forsrh. vill helst ekki neitt hafa vitað af þessu stóra máli sem þó heyrði á þessum tíma undir hann.
    Mig langar að fara nokkrum orðum hér í upphafi um álmálið sjálft og stöðu þess og það sem um það hefur verið fjallað en síðan aðeins um atvinnumálin. Hv. 8. þm. Reykn. sagði, og það með töluverðum þyt og þjósti, að þetta lýðveldi hefði veitt erlendum fyrirtækjum einokun og forgang að orkulindum landsins. Þetta gæti hljómað mjög alvarlega ef mál hefðu verið þannig vaxin að hér hefðu menn og fyrirtæki í stóriðju og stóriðnaði staðið í biðröðum knýjandi dyra til að fá að koma hér og nýta okkar auðlindir en við hefðum af þrákelkni og þrjósku einbeitt okkur að því að láta þennan tiltekna hóp fyrirtækja eiga hér forgang og einokun. Hv. 8. þm. Reykn. veit að þetta var ekki svo. Það var ekki svo og hefur ekki verið svo eins og hér hefur verið rakið fyrr á fundinum. Fyrirtæki af þessu tagi standa ekki í biðröðum eftir því að komast hér að. Það var mat flestra þeirra sem best máttu vita hér á landi að þessi þrjú fyrirtæki, a.m.k. tvö þeirra, væru þau líklegustu um þessar mundir til að vilja fjárfesta hér í álveri. Ég hygg því að sú athugasemd og ásökun að þessum fyrirtækjum hafi verið veittur einokunarforgangur eigi ekki við þó að það sé rétt að forráðamenn Íslendinga í þessum viðræðum töldu auðvitað ekki viðeigandi að standa um leið í sérstökum viðræðum við önnur fyrirtæki eða leita sérstaklega eftir viðræðum við önnur fyrirtæki meðan svo vel virtist ganga eins og leit út hvað viðræðurnar snerti.
    Hv. 7. þm. Reykn. talaði um að hvorki við né hinir erlendu bankar hefðum í þessari stöðu og í samningum okkar haft neinar raunverlegar tryggingar eða ábyrgðir og fyrirtækin gætu skilið bæði banka og okkur eftir með sárt ennið eftir að samningar hefðu náðst og framkvæmdir hefðu verið hafnar. Þetta er að hluta til rétt hvað bankana snertir. Fyrirtækið átti að eiga töluvert lítið eigið fé. Við höfðum af því vissar áhyggjur, það er ekki vafi, að eigið fé upp á 20% væri í það lægsta. Við óttuðumst að hinum erlendu bönkum mundi þykja það lágt, a.m.k. í erfiðri stöðu og það hefur heyrst í umræðum að undanförnu að bankar hafi óskað eftir því að þetta eigið fé yrði nokkru hærra heldur en þarna var gert ráð fyrir. En hvað okkur snertir þá var ekki hætta á því í sjálfu sér að við sætum uppi með sárt ennið vegna þess að engar ábyrgðir væru fyrir okkur. Það voru þungar ábyrgðir komnar inn í þá samninga sem unnið hafði verið að og það voru fullnustuábyrgðir sem þessi fyrirtæki skuldbundu sig til að inna af hendi, fullnustuframkvæmdir sem nema tugum milljarða kr. Og það var ekki síst sú ábyrgð sem Landsvirkjun gat byggt á og ef henni hefði ekki verið fullnægt, þá voru beinar greiðsluábyrgðir sem til urðu að koma til Landsvirkjunar. Það sem hins vegar hafði gerst á samningsferlinum að fyrstu hugmyndir um ábyrgðir, svokölluð ,,take or pay``-ábyrgð hafði breyst yfir í þessa fullnustuábyrgð sem menn töldu þó út af fyrir sig þó að hún væri ekki eins góð að mínu mati og ,,take or pay``-ábyrgðin sem móðurfyrirtækin bæru endanlega ábyrgð á, hún hefði breyst yfir í þetta far, þá töldu menn það vera ásættanlegt. En þarna var vissulega ákveðin trygging sem sett hafði verið inn í samninginn af okkar hálfu.
    Menn hafa reynt að finna blóraböggla af hálfu þeirra sem mest hafa farið með málið og auðvitað iðnrh. sérstaklega. Ég hef áður farið yfir það að það eigi ekki við og hér sé um að ræða óviðráðanleg utanaðkomandi áhrif. Það gerast nefnilega slíkir atburðir og hafa gerst alveg nýlega sem snerta okkur. Við vitum hvernig ástandið er í bankamálum í Noregi og jafnvel í Svíþjóð. Við höfum haft mjög góða stöðu þrátt fyrir töluverða skuldasöfnun gagnvart viðskiptabönkum okkar erlendis. Hins vegar er enginn vafi á því núna að staðan í bankaheiminum í Noregi og Svíþjóð hefur veikt okkar stöðu og okkar lánakjör og okkar möguleika. Með sama hætti má kannski áður segja að sterk staða banka í Skandinavíu hafi með óbeinum og beinum hætti styrkt okkar stöðu. En hún hefur veikst núna, ekki vegna þess að við höfum komið nálægt þeim ósköpum sem yfir hafa dunið í Noregi að mestu og í Svíþjóð. En engu að síður veikir það stöðu okkar án þess að við fáum nokkuð við það ráðið.
    Ég hlýt að taka undir með hv. 5. þm. Reykn. sem var nokkuð brugðið við afstöðu fulltrúa Kvennalistans í sjónvarpinu í gær þar sem hann fagnaði alveg sérstaklega þessu áfalli sem þjóðin varð fyrir. Og þegar fréttamaðurinn sagði: Ja, en er ekki slæmt að vegna þessa mun hagvöxtur minnka verulega í landinu? Þá sagði fulltrúinn eitthvað á þá leið að Kvennalistinn væri á móti hagvexti, einkum mengandi hagvexti held ég að það hafi verið orðað. Ég held að fólkið í landinu eigi bágt með að skilja afstöðu af þessu tagi og ég tel líka að það sé ekki rétt hjá Kvennalistanum að gefa sér það að stóriðja og til að mynda ferðaiðnaður þurfi að vera andhverfur sem geti ekki átt saman. Stóriðja á þessu horni landsins verður að sæta miklum kröfum um umhverfisvernd og það er ekki rétt að þær séu takmarkandi eða litlar. Stóriðja þarf ekki að skaða okkur og möguleika okkar til að auka ferðaþjónustu. Ég held að fullyrðingar um slíkt sé þröngsýni sem fái ekki staðist.
    Menn hafa töluvert rætt hér um atvinnumálin og afleiðingar þess að álversframkvæmdum verður bersýnilega frestað um töluverðan tíma. Við gerum okkur öll grein fyrir því að við erum sérstaklega að hugsa um þetta vegna þess að þessa töf framkvæmda ber upp á sama tíma og við verðum fyrir áfalli í nýtingu fiskstofna okkar. Ég er viss um það að menn mundu tiltölulega lítið fjalla um þennan þátt ef það bæri ekki þannig upp á sama tíma og við verðum að draga úr fiskveiðum okkar. Menn spyrja: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til þess að bæta úr þessu? Við skulum alveg gera okkur grein fyrir því að í þessu landi er ekki margt sem hið opinbera getur gert til þess að bæta stöðu atvinnulífsins ef grundvallareiningin, sjávarútvegur, skerðist stórkostlega. Það er ekki neitt sem menn grípa upp úr hatti sínum í þeim efnum. Menn hafa ekki önnur ráð í rauninni en að reyna að nýta betur þá kosti sem fyrir eru og þá ekki síst í fiskvinnslunni. Menn segja hér og hafa margsagt: Ætlar ekki ríkisstjórnin að breyta stefnu sinni að vilja ekki hafa afskipti af atvinnulífinu? Það hefur aldrei verið sagt af hálfu ríkisstjórnarinnar að hún hafi ekki afskipti af atvinnulífinu. Ríkisstjórnin gerir það daglega í öllum verkum sínum meira og minna að hafa áhrif og afskipti af atvinnulífinu. Ríkisstjórnin hefur hins vegar sagt að sértækar aðgerðir sem beinist að einstökum fyrirtækjum með þeim hætti sem áður var gert eigi ekki upp á pallborð ríkisstjórnarinnar. Og við skulum horfa til Reykjaness hvernig þær aðgerðir hafa dugað. Ég tel víst að hæstv. fyrrv. forsrh. og hæstv. fyrrv. fjmrh. hafi beitt þessum snilldaraðerðum sl. þrjú eða fjögur ár, ekki síst í sínu kjördæmi sem stendur nú svo hraklega og þær aðferðir hafa þá dugað. En það sýnist ekki svo að þær aðgerðir hafi dugað.
    Hv. 7. þm. Reykn. sagði að menn væru að fordæma þá sjóði sem eitthvað hefðu verið notaðir. Við erum ekki að fordæma sjóðina heldur meðferð þeirra. Ég skal viðurkenna að það væri gott að hafa þá fjármuni nú sem hafa týnst og tapast einmitt úr þessum sjóðum. Það væri kostur ef nú væru 1,7 milljarðar eða svo hjá Framkvæmdasjóði en ekki mínus 1.200 milljónir, þ.e. viðsnúningur upp á 3 milljarða. Það væri kostur að hafa slíka peninga þegar svona árar. Það væri kostur að eiginfjárstaða Byggðastofnunar væri 4 milljarðar, eins og hún var fyrir örfáum árum, en ekki þriðjungur af því eins og hún er núna. Það væri kostur við þá stöðu sem blasir við í okkar efnahags- og atvinnumálum.
    En hvað er það sem atvinnulífið sjálft er að tala um gagnvart ríkisstjórninni? Atvinnulífið sjálft segir: Gefið okkur svigrúm, það svigrúm sem ekki var áður gefið. Gefið okkur svigrúm með því að takmarka ríkisútgjöld og takmarka lánsfjáreftirspurn til þess að við höfum aðgang að þeim fjármunum sem við sárlega þurfum á að halda. Þetta var ekki gert áður af hálfu fyrrv. ríkisstjórnar. Þetta eru menn að gera nú. Menn eru einmitt eftir megni að koma til móts við sjónarmið atvinnulífsins um það með hvaða hætti sé best og færast að styðja atvinnulífið.
    Ég tel þrátt fyrir allt og þrátt fyrir að við séum varaðir við bjartsýni að ekki hafi komið fram nein rök í þessum umræðum sem segi okkur að stóriðjuáformin, sem hafa verið uppi, séu endanlega dauð. Auðvitað eigum við að fara varlega, það kennir reynslan okkur, í að tímasetja það hvenær þau gætu orðið að veruleika. Við höfum ekki tök á því í augnablikinu að tímasetja þau. Við getum þó sagt með nokkuð öruggri vissu að þetta er a.m.k. árs töf. Það vitum við og við eigum að segja það og það liggur fyrir. En við eigum að hugsa þetta sem töf vegna þess að það er ekkert sérstakt sem bendir til þess að þetta sé annað en töf. Þegar þekkt tímarit í þessum fræðum eru skoðuð og þegar borið er saman hvaða álverksmiðjur sem hafa verið í burðarliðnum eru líklegastar og af fræðimönnum metnar svo að þær muni fyrst koma til þegar róðurinn léttist og markaðurinn réttir sig við, þá er verksmiðjan á Keilisnesi í efsta sæti.
    Ég hygg að það sé ekki vegna þess, eins og hv. 7. þm. Reykn. var að gefa í skyn að við hefðum samið af okkur, eða hinn erlendi viðsemjandi hefði fengið allt og hefði okkur í hendi sinni. Það er ekki vegna þess. Það er af mörgum öðrum ástæðum. Við höfum ekki samið verr af okkur en það þrátt fyrir allt að þessir aðilar taka þá áhættu að fresta nú sínum ákvörðunum. Við erum algjörlega óbundnir og getum þess vegna snúið okkur annað. Ef það spyrðist út að við hefðum samið með slíkum vildarkjörum til þessa hóps þá ættu hinir hóparnir sem við áttum að semja við að mati hv. 8. þm. Reykn. á meðan við vorum í þessum viðræðum að koma hlaupandi þegar menn vita hvers konar vildarkjör við erum tilbúnir að bjóða. En það er ekkert sem bendir til þess núna að þau vildarkjör séu slík að aðilar komi hlaupandi eftir þeim við núverandi aðstæður.
    Ég held að við höfum í þessum samningaviðræðum þrátt fyrir allt reynt að ná sanngjarnri niðurstöðu. Ég hef sagt það áður og dreg enga dul á það að Landsvirkjun sem fyrirtæki í þessum samningum tekur töluvert mikla áhættu. Hún getur ef vel gengur og best gengur haft mjög gott upp úr honum, ef allt gengur sem best er spáð. Hún getur líka lent í töluvert miklum vandræðum ef allt færi á hinn versta veg. Miðað við venjulegt ástand á staða hennar að geta gengið. Það var mat samningamanna Landsvirkjunar að það væri fórnandi og hægt að taka áhættu vegna þess að aðrir hagsmunir eigenda Landsvirkjunar til að mynda, og þá ekki síst ríkisvaldsins og þjóðarinnar, væru slíkir af þessum samningum að Landsvirkjun gæti slíka áhættu tekið. Það var mitt mat og ég veit að það var mat annarra sem að þessum málum stóðu og unnu.
    Ég hygg að ég hafi vikið að flestum þáttum sem var sérstaklega beint að mér. Ég get þó nefnt það vegna þess að hv. 7. þm. Reykn. talaði um afsláttartímabilið. Þetta er alveg rétt sem hann segir. Við höfum þegar við eina frestun gengið til móts við hinn erlenda viðsemjanda hvað það snertir. Ég tel því augljóst að það atriði hljóti að koma til alvarlegrar umhugsunar og íhugunar þegar samningar takast upp á nýjan leik.