Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 22:58:00 (910)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Frú forseti. Í upphafi langar mig til þess að taka undir þau tilmæli hv. 8. þm. Reykn. að virðulegur forseti og forsætisnefnd þingsins hugi að því hvernig þingsköpin um utandagskrárumræður hafi reynst. Ég held að það sé mjög margt sem við getum lært af þeirri reynslu sem fengist hefur á þessu þingi. Sú reynsla er kannski helst til ríkuleg miðað við þá starfsdaga sem þingið hefur til ráðstöfunar, en ég held engu að síður að það sé fullkomin ástæða til að huga að þessu. Sérstaklega á þetta við um tækifæri til skoðanaskipta sem ég tel að andsvörin leysi ekki svo vel fari þótt þau séu framför. Þetta segi ég í upphafi míns máls, virðulegur forseti, til að taka undir það sem mér hefur fundist skynsamlegt í máli hv. 8. þm. Reykn.
    Ég vík þá að öðru. Það verður að segjast eins og er að vonbrigði hefur verið stef í ræðum margra manna hér. Það eru vissulega vonbrigði að frestur skuli nú óhjákvæmilegur á framkvæmdum um nýtt álver á Keilisnesi. En það eru líka vonbrigði að mínu áliti hvernig hv. stjórnarandstaða hefur haldið á sínu máli í dag og kvöld vegna þess að nú glímum við sameiginlega við mikinn atvinnuvanda. Satt að segja fundust mér þau orð sem hv. 8. þm. Reykn. hafði í síðustu ræðu sinni um nauðsyn þess að þing og stjórn standi saman um lausn vandans hljóma eins og argasta öfugmæli í framhaldi af því sem hann hafði áður sagt. Þar lýsti sér svo sannarlega ekki vilji til að ná sameiginlegum skilningi eða sanngjarnri sýn á viðfangsefni gærdagsins, því lítið var talað um morgundaginn í máli hans.
    Ýmsir hafa gefið sig fram í þessari umræðu sem segja sig hafa vitað betur allan tímann. Hv. 8. þm. Reykn. vék í upphafi fyrri ræðu sinnar að því að Páll Pétursson, hv. 1. þm. Norðurl. v., ásamt fleirum, hefði á fundi í London fyrir u.þ.b. ári tekið á því að Atlantsálsmenn hefðu þá þegar lýst erfiðleikum á fjármögnun eftir samtöl við banka sem þeir Landsvirkjunarmenn hefðu notað tækifærið til að heimsækja úr því þeir voru á annað borð í borginni. Um þetta mál er það að segja að á þeim tíma sem umræddur fundur var haldinn um orkuverðsamninga í London voru Atlantsálsmenn ekki farnir að sinna fjármögnunarviðræðum að neinu marki. Þeir áttu ýmsa hluti ófrágengna, t.d. varðandi sín innri samskipti, og það hefur margsinnis komið fram að fjármögnunarleitinni hugðust þeir fyrst sinna af krafti nú á haustdögum.
    Það sem máli skiptir er að eftir að fjármagnsleitin hófst fyrir alvöru skýrðu þeir frá því að þeim væri tekið nokkuð vel, ekki síst af bönkum í Evrópu. Og ég leyfi mér að minna á ummæli Atlantsálsmanna þessa efnis þegar þeir voru hér á ferð í ágúst sl. Það hefur reyndar margoft síðan komið fram á fundum sem íslenskir samningamenn hafa átt við þá um ýmis mál, m.a. í Amsterdam upp úr miðjum október, að þeir teldu að undirtektir fjármálastofnana væru þokkalega jákvæðar. Forsvarsmenn Alumax hafa t.d. lýst því í fjölmiðlum oftar en einu sinni að undanförnu að þeir teldu umræðurnar um fjármögnun ganga eftir atvikum.
    Eins og ég hef lýst og ýmsir aðrir reyndar tekið undir þá eru það aðrir þættir almenns eðlis sem varða hið almenna efnahagslega umhverfi áliðjunnar og lánamarkaðanna sem hafa orðið til þess að kjörin voru að lokum óhagstæð að mati Atlantsálsfyrirtækjanna. Þótt illa gengi í vor í upphafi var hreint engin ástæða til þess að draga það því að málið væri á réttri leið.
    Áður en ég vík að fleiri atriðum í ræðu hv. 8. þm. Reykn. ætla ég aðeins að koma að því sem málshefjandi, hv. 7. þm. Reykn., tók fyrir í sinni seinni ræðu. Þar beindi hann ýmist til mín nýjum spurningum eða endurtók fyrri spurningar. Áður en ég held áfram að rekja viðbrögð mín við spurningum og athugasemdum ýmissa annarra ræðumanna ætla ég að sinna þessum atriðum.
    Í fyrsta lagi innti hv. 7. þm. Reykn. eftir því hvort Atlantsálsmenn væru að draga

okkur á asnaeyrunum. Nei, þeir eru ekki að gera það. Það er enn ekki kominn á samningur og við munum halda áfram að fjalla um þetta mál við þá. Ég hef trú á þessum samstarfsaðilum og samningaviðræðurnar eru nú á frágangsstigi. Ég tel að það komi hugsanlega til greina að gera samning á þeim nótum sem nú liggja fyrir en með þeirri viðbót að samningurinn falli úr gildi ef framkvæmdir hafa ekki hafist að fullu fyrir eitthvert ákveðið tímamark. Hvert það tímamark ætti að vera ætla ég ekki að tjá mig um á þessu stigi. Ég vek athygli á því að Atlantsálsaðilarnir hafa lýst því mjög skilmerkilega að þeir hafi frestað áformum sínum um fjáröflun en séu ekki hættir við framkvæmdina. Ég vil líka endurtaka að við erum ekki skuldbundnir þeim formlega um nokkurt atriði málsins þótt að sjálfsögðu felist í því mikil siðferðileg skuldbinding sem við höfum sameiginlega með þeim starfað. Þetta vildi ég segja um það hvernig þessi samningsmál standa.
    En mér fannst það mjög athyglisvert að í sömu andrá sagði hv. 7. þm. Reykn., að hann benti alls ekki á sæstrenginn sem lausn á vandamálum þjóðfélagsins um þessar mundir í staðinn fyrir álver. Mér finnst mjög fróðlegt að bera þessi orð saman við það sem kom fram í andsvari hv. 8. þm. Reykn. sem virtist einmitt líta á sæstrenginn sem raunverulegan valkost við hliðina á álveri. Ég hef nú tilhneigingu til að taka undir sjónarmið rafmagnsverkfræðingsins, hv. 7. þm. Reykn., í þessu máli.
    Þá kem ég að annarri spurningu hv. 7. þm. Reykn. í seinni umferð. Það er spurningin um skýrslu um málið. Hvort þess sé ekki kostur að gefa skýrslu um málið strax, helst á morgun, eins og ég skildi þingmanninn. Ég tel það hvorki heppilegt né skynsamlegt og miðað við það sem fram hefur komið um málið tel ég langæskilegast að slík skýrsla verði gefin þinginu að loknu jólahléi. Þetta segi ég af því að ég tel það heppilegri málsmeðferð málsins vegna og að þingið muni þá fá gleggri upplýsingar. En ég tek fram að þetta mun ekki tefja mig frá því að gefa iðnn. þingsins upplýsingar um málið.
    Þá kem ég að þriðju spurningunni sem varðar umhverfismál. Henni tel ég reyndar að ég hafi þegar svarað. Það er komin alveg fullnægjandi lausn á þeim vanda sem fólginn var í efnisatriðum sem upp voru talin í minnisblaðinu frá 4. okt. 1990. Fyrir þeirri lausn hefur umhvn. þingsins verið gerð grein. Fyrir þeirri lausn verður þinginu í heild gerð grein með skriflegri skýrslu sem væntanleg er í þingið á næstu dögum. Þar leyfi ég mér að halda því fram, þótt ég kjósi að bíða þess að skýrslan birtist að segja frá því í einstökum atriðum, að tekist hafi að finna algerlega fullnægjandi lausn á þessu máli sem tryggi að endurskoðun á starfsleyfinu verði eingöngu af góðum og gildum ástæðum.
    Síðan spurði hv. þm. um kostnað við þessa samningavinnu og undirbúning verka. Þar er til að svara kostnaður Landsvirkjunar nemur nú tæplega 900 millj. kr. á verðlagi ársins 1991 en það er kostnaður sem er í raun og veru fjárfesting sem mun nýtast í fyllingu tímans. Svipuðu máli gegnir að mínu áliti um þann kostnað sem markaðsskrifstofan hefur lagt í og samanlagt er um þessar mundir hægt að meta sem 39 millj. kr. á verðlagi ársins 1991. Kostnaður iðnrn. á öllum þessum tíma er nú tæplega 60 millj. kr. Ég tel þessu fé vel varið og bendi t.d. á að umhverfisathuganir vegna staðarvals og starfsleyfis eru rannsóknir sem nýtast vissulega til framtíðar.
    Þetta tel ég að svari í meginatriðum beinum spurningum um staðreyndir máls og tölulegar upplýsingar og aðra slíka hluti sem hv. 7. þm. beindi til mín. Hann innti mig að lokum eftir því hvernig mál stæðu um áformaða byggingu þilplötuverksmiðju á Íslandi. Ég get svarað því til að vegna eigendaskipta sem orðið hafa á skoska fyrirtækinu sem í hlut átti urðu þar tafir í athugunum aðila. Nýtt fyrirtæki hefur eignast hið skoska fyrirtæki, bandarískt fyrirtæki, Butler, sem vinnur nú að athugunum á málinu. Ég átti viðræður við forustumenn hins nýja fyrirtækis fyrir hálfum mánuði ásamt mínum samstarfsmönnum. Ég tek það fram að þar var ekki um samningaviðræður að ræða, heldur eingöngu upplýsingafund um hverra kjara þeir gætu hér vænst að íslenskum lögum. Butler sýni málinu framhaldandi áhuga og munu gera aðilum máls, bæði sveitarfélögum og öðrum viðsemjendum sínum, íslenskum fyrirtækjum, grein fyrir sínum áformum í byrjun hins nýja árs. Breytingin sem varð við eigendaskiptin hefur orðið til þess að málið hefur nokkuð dregist og breyst í meðförum. Þetta, virðulegur forseti, eru svör við því sem fram kom í máli hv. 7. þm. Reykn. í seinni ræðu hans.
    Ég vík þá aftur að máli hv. 8. þm. Reykn., bæði í hinni fyrri og síðari umferð

vegna þess að það var að mörgu leyti endurtekning sama efnis. Í fyrri ræðu sinni vék hv. 8. þm. Reykn. að því að honum hefði verið kunnugt um það eftir viðræður við menn frá verðbréfafyrirtækinu Goldman Sachs í upphafi þessa árs að Atlantsálsfyrirtækin þrjú mundu ekki reisa neitt álver á Íslandi. Þetta sagði þingmaðurinn raunar frammi fyrir alþjóð í fréttatímanum bæði í sjónvarpi og útvarpi í gærkvöldi og endurtekur í Morgunblaðinu í morgun. Þar segir hann orðrétt, með leyfi forseta: ,,Um seinustu áramót áttum við í fjmrn. viðræður við fulltrúa hins þekkta bandaríska fjármögnunarfyrirtækis Goldman Sachs sem er eitt af stærstu fjármögnunarfyrirtækjum í veröldinni. Þeir töldu afar ólíklegt að þessi þrjú fyrirtæki væru í þessu af alvöru. Ég greindi fráfarandi ríkisstjórn frá þessu.``
    Þetta er ósatt. Í frásögn Ólafs Ragnars Gímssonar, hv. 8. þm. Reykn., þáv. fjmrh., til ríkisstjórnarinnar í lok mars sl. um þetta mál, reyndar í því samhengi að hann vildi fela Goldman Sachs að gera nokkra athugun á lánamálum íslenska ríkisins, lýsti hann því helsta sem hann taldi að fram hefði komið í viðræðum við Goldman Sachs um Atlantsálsverkefnið og áhrif þess á lántökur og lántraust íslenska ríkisins. Hann minntist þá hvergi á að Goldman Sachs teldi afar ólíklegt að þessi þrjú fyrirtæki ætluðu sér að fjárfesta í álveri á Íslandi. Það eru seinni tíma fullyrðingar hans. Í þessari frásögn af Goldman Sachs-samtali hans voru hins vegar ýmsar gagnlegar vangaveltur um hugsanleg áhrif á lántökur íslenska ríkisins af völdum Atlantsálsverkefnisins, sem er gott og blessað og sjálfsagt framtak á vegum fjmrh. En það vakti athygli mína þá og gerir enn að þá var gengið út frá því sem sjálfsögðum og eðlilegum hlut, sem ég tel að vísu rétt, að Atlantsálsverkefnið yrði fjármagnað.
    Það kom fram í áliti þeirra Goldman Sachs-manna að mögulegt sé að ýmsir áhrifaþættir sem Ísland ráði ekki yfir gætu truflað framgang Atlantsálsverkefnisins, m.a. þættir sem varða hið almenna efnahagsástand. Þá kom reyndar líka fram að áliti þessa merka fyrirtækis að miklar líkur væru á því að Íslendingar gætu hagnast vel á Atlantsálsverkefninu þótt það væri vissulega áhættusamt. Þetta eru reyndar alkunn tíðindi. En það kom hins vegar ekki fram orð um það frá Goldman Sachs að þeir teldu ólíklegt að þessi þrjú fyrirtæki mundu reisa álverið.
    Í annan stað sagði hv. 8. þm. Reykn. að Goldman Sachs hefði haldið því fram að Persaflóastríðið hefði ekki truflað fjármagnsmarkaðinn nema í eina viku í mesta lagi, eins og hann komst að orði áðan. Ég held að það sé víðs fjarri að þetta hafi verið álit fyrirtækisins eða komið fram í þeim viðræðum sem fram fóru. Ég hygg að hið rétta hafi verið að þeir kunni að hafa haldið því fram að áhrifin á fjármagnsmarkaðinn hafi verið sérlega sterk vikurnar eftir innrás Íraka í Kúvæt og vegna hinna miklu hækkunar sem varð á olíuverði. Síðan hafi þeir haldið því fram að frá áramótunum 1990--1991, þ.e. eftir að björgunaraðgerðir bandamanna höfðu heppnast, hafi markaðirnir farið að nálgast jafnvægi á ný.
    Lítum á þetta. Það eru því æði margar vikur sem Goldman Sachs hefur haldið því fram að Persaflóastríðið hafi haft afdrifarík áhrif á fjármagnsmörkuðum. Mér reiknast til að það séu 5, 6 eða 7 mánuðir a.m.k. Samningaviðræðurnar um Atlantsálsálverið hafa staðið í rúma 18 mánuði og órói vegna Persaflóainnrásarinnar gæti því samkvæmt þessu áliti, sem hv. 8. þm. Reykn. leggur svo mikið upp úr, hafa varað a.m.k. þriðjung þess tíma. Skiptir þetta engu máli? Um hvað er hv. þm. að tala?
    Þá hélt hann því fram, þessi sami hv. þm., að þær ástæður sem ég hefði tilgreint til frestunar málsins, hinar almennu aðstæður í efnahagsmálum veraldarinnar og sérstakir atburðir eins og Persaflóastyrjöldin og umrótið í Austur-Evrópu og Sovétríkjunum, skiptu engu máli. Hann tilgreindi þrjár nýjar ástæður, eins og hann kallaði þær. Hina fyrstu kallaði hann dómgreindarskort iðnrh. Sá þáttur í máli þingmannsins var rökstuddur með upptalningu á dagsetningum og byrjaði á yfirlýsingum frá árinu 1989. Það var ótrúlega ómerkilegur blekkingarvefur. Þingmaðurinn veit mjög vel að á þeim tíma sem hann hóf sinn dagsetningalestur vorum við að reyna að ná samningum um stækkun álversins í Straumsvík, en ekki um Atlantsálsverkefnið. Sumir aðilar að því máli voru tregir til að ljúka þeim samtölum og vildu draga samningana á langinn. Það var einmitt til að knýja á um niðurstöðu í málinu eða slit samningana sem ég knúði mjög á um málalok í þeim samningum, m.a. með yfirlýsingum af því tagi sem þingmaðurinn vitnar nú til. Enda sleit ég þeim

samtölum um áramótin 1989--1990 þegar mér þótti einsýnt að þau mundu ekki leiða til árangurs, einkum af því að einn aðilinn að þeim samningum, Alusuisse, var ekki af alvöru í verkinu. Það var því rík ástæða til að reka á eftir þeim samtölum en mér þykir það skjóta skökku við ef þingmaðurinn áfellist mig nú fyrir að viðhafa þessi vinnubrögð á sama tíma og hann krefst þess að samningunum við Atlantsálsfyrirtækin verði slitið, fyrirtæki sem þó hafa marglýst yfir einlægum vilja sínum og ásetningi til að ráðast í byggingu álvers hér þegar markaðsaðstæður leyfa.
    Síðar í þessum hluta ræðu sinnar vísaði 8. þm. Reykn. í það sem hann kallar endurteknar yfirlýsingar mínar frá árinu 1990 um það --- ég vísa orðrétt í ræðu hans --- ,,að tímans vegna sé nauðsynlegt að álsamningar verði undirritaðir.`` Efast þingmaðurinn virkilega um að þær yfirlýsingar hafi haft gildar ástæður, verið rökstuddar yfirlýsingar um að nauðsynlegt væri að flýta þeim samtölum og undirritun samninganna? Efast þingmaðurinn nú um það þegar málið hefur því miður frestast sem raun ber vitni?
    Mér er engin launung á því að allt frá því ég tók við embætti iðnrh. árið 1988 hef ég talið að tækifæri sem opnuðust til samninga um álver ætti að nýta sem skjótast. Þetta væru, eins og sagt er á enska tungu, gluggar tækifæra sem opnast og lokast á víxl. Ég hef ætíð talið nauðsynlegt að ná fram sem haldbestum niðurstöðum í öllum þeim samningsáföngum sem næðust, einkum vegna þess hversu fjölþættir og flóknir þessir samningar eru. Af því að þarna eigast við á aðra hlið þrjú fyrirtæki og stundum fleiri og á hina hliðina fleiri en eitt ráðuneyti og stundum sundurleitar samsteypustjórnir.
    Ég hef trú á því að staðfesting slíkra skjala í áföngum verksins væru einmitt verkefninu til framdráttar. Ég trúi því illa nú þegar við stöndum frammi fyrir orðnum hlut um frestun vegna utanaðkomandi aðstæðna að þingheimur dragi í efa að þessi viðleitni hafi verið rétt. Við þurftum að reka niður hæla í þessu bjargi.
    Aðra ástæðu telur 8. þm. Reykn., og auk hans nefndu hana 1. þm. Norðurl. v. og málshefjandinn, 7. þm. Reykn., hafa valdið erfiðleikum í málinu og kannski úrslitum í því að gerð samningsins sjálfs hafi verið gölluð vegna takmarkaðrar ábyrgðar fyrirtækjanna þriggja á byggingu bræðslunnar. Hæstv. forsrh. hefur nokkuð fjallað um þetta mál í sinni ræðu, einkum sinni seinni ræðu en mig langar þó að bæta við það nokkrum orðum. Ég vil segja þetta um gerð samninganna:
    Í fyrsta lagi er það fyrirkomulag fjármögnunar sem hér er áformað það sem algengt er í verkefnum af þessu tagi um allan heim þar sem fengist er við verkefni af þessu tagi nú um stundir. Það er trú manna að áhætta sem bankarnir vilja taka með því að ganga að fjármögnun af þessu tagi sé einmitt trygging fyrir því að fjárfestingarnar standist strangt próf.
    Í öðru lagi vil ég segja að fyrirtækin þrjú sem standa að Atlantsáli eru að hætta mjög miklu af eigin fé sínu. Þau munu í fyrsta lagi leggja fram a.m.k. fimmtung af kostnaði við byggingu bræðslunnar af sínu eigin fé. Það gæti verið a.m.k. 200 millj. Bandaríkjadollara og má sjá minna grand í mat sínum.
    Ég vil líka benda á í fjórða lagi að í samningunum eru ákvæði sem fela í sér ábyrgðir á byggingartíma, svokallaða lúkningarábyrgð, þ.e. að fyrirtækin skuldbinda sig til þess að greiða viðsemjanda sínum, Landsvirkjun, fullvirði þeirra framkvæmda sem Landsvirkjun hefur lagt í hverfi Atlantsálsaðilarnir frá framkvæmdinni að því marki sem framkvæmdum hefur undið fram við slit framkvæmdanna hjá Atlantsáli. Með líkum hætti hafa þeir og þyrftu að undirgangast ábyrgðir gagnvart sínum bönkum um það að endurgreiða þeim að bragði lánsfé sem þeir hefðu fengið útgreitt ef þeir hverfa frá framkvæmdinni.
    Í fjórða lagi eru svo ábyrgðir til Íslendinga vegna hafnargerðar ef svo skyldi vilja til að bygging álversins stöðvaðist á byggingartíma. Í þessu felst mjög mikil fjárhagsleg ábyrgð, sú fjárhagslega ábyrgð sem öllu máli skiptir, og er á margan hátt drýgri en kaupskyldan sem áður var miðað við og upphaflega var krafa Íslendinga. Þetta er nú mergurinn málsins. Og eins og kom fram hjá hv. þm. Páli Péturssyni, þeim fyrsta frá Norðurl. v., þá taldi hann og var í því máli studdur af hæstv. forsrh. að þarna hefði fundist viðunandi niðurstaða í mjög erfiðu samningamáli. Ef það væri rétt, eins og skilja mætti af máli hv. 8. þm. Reykn. og reyndar að sumu leyti í máli annarra sem hér hafa talað, að þessir samningar væru viðsemjendum okkar svo hagstæðir að annars eins væri ekki dæmi, þá væri lítil ástæða fyrir mennina að hika að ganga til þess að staðfesta samningana með sinni undirskrift.
    Einnig taldi þm. hinn 8. Reykn. að það hefði stöðvað þetta mál sem hann kallaði að væri gölluð aðferðafræði í samningunum. Hún hefði verið röng og hann talaði um ruglandi í því sambandi. Þetta mál hefur nú reyndar áður verið rætt hér á Alþingi og ég ætla ekki að bæta mjög miklu við það, en það er þó alveg ljóst og hefur verið allan tímann hverjir höfðu umboð til samninga og hverjir báru ábyrgð á tilteknum samningssviðum. Ruglandin í þessum samningum, ef hv. þm. kýs að nota það orð, ég vildi nú frekar nota erfiðleika, var einmitt vegna þess að sumir stjórnarliðar sem lýstu því yfir að þeir styddu samningana gerðu það í reynd ekki eða höfðu ekki til þess flokkslegt umboð. Þetta voru sem sagt samstarfsörðugleikar í ríkisstjórn í miklu ríkari mæli en skipulagsörðugleikar í samninganefndum. Sérstaklega í upphafi samningaferilsins voru miklar deilur innan stjórnarflokkanna, Framsfl. og Alþb. um það hvort yfirleitt ætti að byggja álver á Íslandi og þá alveg sérstaklega á Keilisnesi. Það þarf ég ekki að rifja upp fyrir þingheimi en þar held ég að hundurinn liggi nú grafinn miklu fremur en í ímyndaðri ruglandi hv. 8. þm. Reykn. Málflutningur hv. þm. hér í dag og kvöld er af því tagi sem verður ekki talinn gundvallaður á áhuga eða stuðningi við málið heldur af einhvers konar hentistefnu.
    Mig langar að minnast hér líka á nokkur atriði úr ræðu hv. 9. þm. Reykv. Svavars Gestssonar. Þingmaðurinn spurðist fyrir um þann kostnað sem félli á íslenska ríkið ef ekki yrði úr samningum. Það má gera ráð fyrir að ef svo færi mundi ríkið þurfa að bera um 200 millj. kr. Það er þó fyrst og fremst um það að ræða að ríkið hefði þá eignast lóðir og undirbúningsvinnu sem örugglega mun nýtast þótt af þessum tilteknu framkvæmdum verði ekki. Hann vék líka í sínu máli með mjög ósæmilegum hætti að mönnum sem mig minnir að hann hafi kallað ,,múlbundna sérfræðinga``, og þóttist taka til varna fyrir þá, sem hefðu verið til kvaddir til að hitta að máli þingnefndir, einkum iðnn. Alþingis. Hann virtist draga í efa trúverðugleika þessara manna svo að hann talar um að nauðsynlegt sé að þingið hafi sérstaka sérfræðinga á sínum snærum. Ég harma þessi ummæli þingmannsins og vil taka það alveg sérstaklega fram að þá sérfræðinga og embættismenn, sem unnið hafa að álmálinu í minni starfstíð sem iðnrh., hef ég aldrei reynt að öðru en strangasta heiðarleik og sjálfstæði í vinnubrögðum.
    Hv. 9. þm. Reykv. Svavar Gestsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, 10. þm. Reykv., viku bæði að mengunarvörnum í álveri á Keilisnesi. Hv. þm. Ingibjörg Sórún hélt því fram að mengunarvarnir í nýjum álverum sem verið væri að byggja í Noregi væru miklu strangari en gert væri ráð fyrir í starfsleyfisdrögum fyrir Keilisnes. Hv. 9. þm. Reykn. vék líka að þessu. Um þetta mál er það að segja að það er ekki verið að byggja ný álver í Noregi. Ég veit þess vegna ekki til hvers sem þingmennirnir vitna. Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá hollustuvernd Norðmanna er verið að tala um að lækka útblástursmörk fyrir flúor frá álverum. Ef útblástursmörkin fyrir flúor í þeim drögum að starfsleyfi, sem fyrir liggja fyrir Keilisnes, eru borin saman við kröfurnar í þeim starfsleyfum norskum sem síðast voru veitt, þá eru íslensku mörkin neðan við þau nýjustu norsku að jafnaði.
    Ég kem þá, virðulegi forseti, að máli hv. 1. þm. Norðurl. v., Páls Péturssonar. Hann flutti hér makalausa ræðu fyrr í dag. Hann sagði m.a. að Blönduvirkjun hefði ekki verið tekin með í reikninginn vegna Atlantsáls en svo svaraði hann þessu sjálfur þegar hann sagði seinna að orkan frá Blöndu með afslætti hefði verið gulrótin í samningunum. Ég vil ítreka það og undirstrika að það átti og á að greiða fyrir alla þá orku sem til álversins fer. Málið snýst einmitt m.a. um það að koma orkunni frá Blöndu í verð. Það er m.a. þess vegna sem frestun á framkvæmdum nú er okkur fjárhagslegt áfall, að við nýtum ekki orkuna frá Blöndu. Og ef einhvers staðar er hægt að tala um ruglandi í málflutningi þá er það eins og kom fram í máli hv. þm. Páls Péturssonar. Hann byrjar á því að gagnrýna að Blanda sé ekki með í reikningnum en segir svo fáeinum andartökum síðar að það sé ljóst að ef frestun verði og úr því að frestun hafi orðið sé nauðsynlegt að endurskoða orkusamninginn með hliðsjón af ákvæðum sem rekja megi til Blöndu. Þetta eru nokkrar ábendingar vegna þess sem kom fram fyrr í máli hv. 1. þm. Norðurl. v.
    Hv. 18. þm. Reykv., Kristín Ástgeirsdóttir, talaði um það sem hún kallaði, ef ég man rétt, leikhús fáránleikans. Það er sígild og gömul samlíking að lífið sé leiksvið og að

því hafa fleiri vikið í þessum umræðum. En ég verð nú reyndar að segja það að ég saknaði þess að hún nefndi til ýmsa af þeim leikurum sem mér finnst að leikið hafi fáránlegustu hlutverkin í þessu leikriti og reyndar hafa sumir þeirra talað hér í dag og kvöld.
    Hv. 18. þm. Reykv. vék líka nokkuð að mengun vegna áliðju og mig langar til að leggja áherslu á það vegna þess sem kom fram hér síðast í máli hv. 10. þm. Reykv. að áliðja á Íslandi er, þegar að er gáð, framlag til umhverfisverndar í heiminum. Ál sparar orku. Það er þess vegna sífellt notað meira til þeirra hluta. Og í öðru lagi vil ég líka segja það að það er líka framlag til umhverfisverndar í heiminum að framleiða ál á Íslandi og nota til þess rafmagn sem framleitt er án þess að brenna kolum eða olíu.
    Hv. 18. þm. Reykv., sem líka er sagnfræðingur, gerði að umtalsefni það sem ég leyfði mér að kalla síðari byltinguna í Sovét. Auðvitað var þetta ekki hugsað af sagnfræðilegri nákvæmni en mig furðar að þingmaðurinn skuli fara að hártoga þetta orð. Það er auðvitað rétt að bylting er hreyfing en ekki dagsetning, ekki einhver einn dagur í ágúst. Það fer hins vegar ekkert á milli mála að ringulreiðin í kjölfar atburðanna í Sovétríkjunum á undanförnum missirum hefur haft feiknamikil áhrif í Evrópu og á allt efnahagslíf álfunnar. Það er furðuleg skoðun, ekki síst hjá sagnfræðingi, að halda því fram að ástand heimsmála af því tagi hafi engin áhrif á efnahagslega umgjörð stóriðju eins og áls. Ástæður tafanna í þessari framkvæmd er einmitt breytt efnahagslegt umhverfi áliðnaðarins en ekki samningar aðilanna eða samstarf þeirra. Spár um efnahagsbata í heiminum á síðari hluta þessa árs hafa því miður ekki ræst. Horfur eru enn tvísýnar um framvindu efnahagsmála á næstunni í Bandaríkjunum, Evrópu og Japan þar sem eru mikilvægustu álmarkaðarnir og á álmarkaði ríkir núna mjög óvenjulegt ástand. Eftirspurn hefur ekki vaxið jafnört og vænst hafði verið. Á markaðinn kom skyndilega aukið framboð á áli frá Sovétríkjunum en það er óvíst um framboð þaðan á næsta ári. Það er því mikil óvissa um þróun álmarkaðarins.
    Í ágúst sl. var almennt talið að álverð hefði náð lágmarki. Það lækkaði hins vegar eftir það. Nú er svo komið að margir af helstu álframleiðendum heims hafa tilkynnt um samdrátt í framleiðslu og það er búist við frekari lokun álvera á næstunni. Við þessar aðstæður er mjög erfitt að afla lánsfjár til framkvæmda af þessu tagi. Auk þess eiga margir alþjóðlegir bankar við erfiðleika að etja um þessar mundir.
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að mér verði sýndur nokkurra mínútna skilningur til þess að ljúka svörum við ýmsu því sem hér hefur komið fram. Ég mun ekki tefja þingheim lengi.
    Þetta ástand á álmörkuðum er án alls efa óvenjulegt og tímabundið. Hið óvenjumikla framboð á ódýru áli frá Sovétsvæðinu, aðallega frá Rússlandi, hefur hér komið nokkuð til umræðu, m.a. hjá málshefjanda. Þetta er að áliti allra helstu sérfræðinga aðeins tímabundið ástand sem endir verður bundinn á eftir því sem ríkin í Austur-Evrópu þróast í átt til markaðsbúskapar. Það er einfaldlega þannig að áætlunarbúskapur er enn við lýði í þungaiðnaði Rússa og verðlagning aðfanga þar er algerlega úr takt við heimsmarkaðsverð og endanlegt söluverð því fullkomlega óraunhæft eins og nú stendur. Þróunin er hröð í Austur-Evrópu og þjóðirnar verða senn að laga sína iðnaðarframleiðslu að markaðslögmálunum. En ef litið er á grundvöllinn sjálfan, þá eru það aðeins Rússneska lýðveldið Kazakhstan og Úkraína sem hafa yfir nægri orku að ráða til þess að geta orðið samkeppnisfær til frambúðar á sviði orkufreks iðnaðar. Aðrar þjóðir í Austur-Evrópu búa við orkuskort og verða væntanlega að loka sínum úreltu, orkufreku iðjuverum, e.t.v. með einhverri undantekningu í Júgóslavíu.
    En ég ætla að víkja sérstaklega að þróun mála í Rússlandi og minni á ræðu hv. 3. þm. Reykv. hér áðan og reyndar vík ég hér einnig að þeim orðum málshefjanda, hv. 7. þm. Reykn., sem hann viðhafði í umræðunum að hann hefði í fyrra hitt sérfræðing sem hefði haft mikla vantrú á spám sérfræðinga Landsvirkjunar um álverð. Það er rétt hjá þingmanninum að hann skýrði mér frá þessum hugmyndum og auðvitað bar ég þær undir sérfræðinga iðnrn. og Landsvirkjunar í málinu. Það var hins vegar niðurstaða þeirra að þótt menn vissu um þetta óvænta framboð frá Sovétríkjunum væru spárnar alls ekki of bjartsýnar þegar til lengri tíma væri litið. Á þeim tíma sem liðinn er hafa fleiri sérfræðingar komist að þessari sömu niðurstöðu.
    En mig langar til þess að vitna beint til manns á vettvangi, nefnilega til yfirgripsmikillar stefnuræðu sem Jeltsín, forseti rússneska ríkjasambandsins, flutti í rússneska þinginu nú 28. október. Þar víkur forsetinn að tveimur atriðum sem hafa þarf í huga þegar fjallað er um óvenjulega mikið framboð á áli frá Sovétríkjunum. Í fyrsta lagi heitir Jeltsín því að gefa verðlag frjálst þegar á þessu ári. Það nær einnig til verðlagningar á raforku. Miðað við stöðu orkumála í Rússlandi og öðrum lýðveldum fyrrum Sovétríkjanna má reikna með því að raforkuverð nálgist það sem tíðkast á meginlandi Evrópu. Áliðnaður Rússa nær alls ekki þeirri framlegð sem vel rekin fyrirtæki á Vesturlöndum ná og auknar kröfur til umhverfisverndar munu leiða til úreldingar eða verulegra endurbóta í flestum álverksmiðjum þeirra. Samkeppnisstaða Rússa á sviði áls verður því víða erfið þótt almennt sé með því reiknað að verulegur hluti áliðnaðar á Sovétsvæðinu geti verið samkeppnisfær þegar til lengri tíma er litið. Hið mikla framboð á ódýru áli frá Sovét mun því aðeins vara í fáeina mánuði eða ár til viðbótar að áliti hinna sérfróðu manna.
    Í öðru lagi vék Jeltsín að óhagstæðum viðskiptum Rússa við önnur fyrirtæki og önnur Sovétlýðveldi. Rússar hafa yfir að ráða rúmlega 90% af vinnanlegri orku á því landssvæði sem áður tilheyrði Sovétríkjunum. Rússar hafa líka séð öðrum lýðveldum Sovétsambandsins fyrir hráefnum. Jeltsín benti á það í þessari ræðu sinni að sala hráefna á fyrir fram ákveðnu verði sem enn tíðkast leiðir til verulegs fjárhagslegs taps fyrir Rússa. Hann telur tap Rússa vegna þessa nema 33 milljörðum rúblna á þessu ári. Hann hét því í ræðunni að heimsmarkaðsverð verði tekið upp í öllum viðskiptum. Þetta þýðir að heimsmarkaðsverð verður greitt fyrir öll aðföng til álframleiðslu, þar eru líka talin raforka, súrál, rafskaut, flúor, kríólít og fleira. Ég bendi líka á að í Sovétríkjunum, sem voru, er þessi iðnaður mjög háður flutningum yfir langar leiðir. Af þessu má sjá að núverandi röskun á álmörkuðum vegna mikils framboðs frá Sovétsvæðinu fær ekki staðist til lengdar. Hins vegar er líklegra að um leið og dregur úr þessu óraunhæfa framboði geti myndast um sinn umframeftirspurn eftir áli sem þá leiðir til mjög örra verðhækkana. Ástandið getur því batnað fyrr en flesta grunar.
    Í niðurlagi ræðu sinnar fjallaði Jeltsín um þau miklu mistök sem nú eigi sér stað í miðstýrðum útflutningi hráefna frá Sovétsvæðinu. Hann heitir því að leiðrétta hið mikla tap sem afleiðingar sölu hráefna undir raunverulegu kostnaðarverði leiðir af sér, m.a. með auknu frelsi í gjaldeyrismálum og raunhæfari verðlagningu rúblunnar, m.a. með frjálsum útboðum á gjaldeyri. Þetta eru hlutir sem við verðum að taka til athugunar þegar við metum hvort langtímamat og áætlanir sem liggja til grundvallar Atlantsálsverkefninu eru raunhæfar. Hversu fljótt þetta ástand verður komið í eðlilegt horf ræðst af því hvernig tekst til um endurreisnina í Austur-Evrópu.
    Þá kem ég auðvitað að hv. 1. þm. Norðurl. v. sem ég heyrði tala áðan um kristilegt hugarfar og svo vék hann að Blönduvirkjun. En ef það mætti virkja fúkyrðaflauminn hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. væri það örugglega væn viðbót við orkubúskapinn. Ég vil taka það skýrt fram að margt af því sem hann sagði í sinni ræðu var efnislega vel og skynsamlega mælt. En það sem hann lætur fljóta með af skætingi í orðastraumi er ekki alltaf jafnheppilegt.
    Næst talaði, ef ég man rétt, 9. þm. Reykn., Anna Ólafsdóttir Björnsson, konan sem fagnaði frestuninni. Undir hennar ræðu komu mér í hug orð Guðmundar J. Guðmundssonar sem sagði fyrir ekki löngu: ,,Þeir sem eru á móti álveri eru hlynntir atvinnuleysi.`` Hún ræddi líka um vothreinsibúnað og það að íbúar Vatnsleysustrandarhrepps hefðu fengið þau svör að slíkur búnaður yrði ekki settur upp af því að það kostaði svo mikið. Þarna hallar þingmaðurinn réttu máli. Svörin, sem hún fékk, voru önnur og byggð á faglegum rökum. Þetta hlýtur hún að muna ef hún hugsar sig um. Þingmaðurinn var að sjálfsögðu velkominn á kynningarfund umhvrh. í Vogum á Vatnsleysuströnd og var ekki spurður þar um skilríki frekar en aðrir fundarmenn.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði í sinni ræðu að ef einhvers staðar hefur verið leikinn ljótur leikur í þessu máli, þá hefði það verið í staðarvalsmálinu. Ég er honum algerlega ósammála. Þar var vel og rétt að verki staðið og á endanum náði ríkisstjórnin mjög vel saman um það mál. Þingmaðurinn nefndi líka réttilega að EES-samningarnir opnuðu nýjar leiðir í atvinnumálum og ég vil taka undir það með honum og segi um leið að sá samningur fjallar ekki bara um fisk. Hann er líka forsenda fyrir iðnþróun. Landsvæðin utan

Reykjavíkur munu njóta hans til jafns við önnur svæði. (Forseti hringir.)
    Virðulegi forseti. Það er athyglisvert ef maður reynir að taka saman í lokin ummæli þeirra 7. þm. Reykn., 8. þm. Reykn., 1. þm. Norðurl. v. og 9. þm. Reykv. að það gefur okkur vissa sýn bæði á stöðu og þróun álmálsins. Allir voru þessir menn miklir áhrifamenn í síðustu ríkisstjórn. Þeir hafa hins vegar hér í kvöld haft uppi mjög óvandaðan málflutning. Hverju á fólk að trúa þegar þeir koma hér hver á fætur öðrum og lýsa því yfir að þeir hafi séð öll þessi vandræði fyrir? Þeir hafi verið vitni að því hvernig sá sem hér stendur hafi stöðugt misfarið með málið á þessum 18--20 mánuðum sem samningaviðræðurnar hafa staðið. (Forseti hringir.) Í fyrsta lagi vil ég benda á það sem einfaldast er, að af þessum tíma voru þeir sjálfir í ríkisstjórn eða stuðningsmenn hennar í 12--13 mánuði. Í öðru lagi spyr ég: Af hverju sögðust þessir fyrrv. ráðherrar og stuðningsmenn ríkisstjórnar styðja málið þótt með semingi væri í þeirri stjórn? Ég spyr þá líka: Af hverju reyndu þeir ekki í alvöru að knýja það fram að hætt yrði samningum við Atlantsálsfyrirtækin úr því að þeir töldu sig hafa vísbendingar um að þeim aðilum væri ekki alvara? Eina tillagan sem kom fram af því tagi var í upphafi þessa árs, hugmynd hv. 8. þm. Reykv., þáv. fjmrh. þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að það ætti að taka upp samtöl við varaskeifur. Um varaskeifuhugmyndina er það að segja að leitinni að samstarfsaðilum um stóriðju hefur jafnan verið haldið áfram og eðlilega haldið á sambandi við önnur fyrirtæki. Það er einfaldlega ekki þannig að hér standi fyrirtæki í biðröð eftir því að komast að.
    Virðulegi forseti. Ég vil að endingu ítreka það að markaðsskrifstofa iðnrn. og Landsvirkjunar hefur unnið mjög gott starf að því að afla markaða fyrir raforku til stóriðju og útflutnings. (Forseti hringir.) Nú er svo komið að þar eru mörg verkefni í gangi, bæði stór og smá, en það er mjög mikilvægt að við brjótumst úr þeirri vök sem við höfum því miður þurft að verjast í um allmörg ár og náum því að koma fram verki sem sýni og sanni að hægt sé að gera hér gagnlega og varanlega samninga.
    Atlantsálshópurinn hefur ítrekað það að Ísland bjóði upp á bestu aðstæður til fjárfestinga. Það er þetta sem við þurfum að byggja á. Það er þessi framtíð sem við eigum að stuðla að að geti orðið hér til þess að leggja nýjan grunn að tekjum og atvinnu fyrir almenning.