Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Miðvikudaginn 13. nóvember 1991, kl. 00:32:00 (921)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Mig langar til að gera athugasemd við þá staðhæfingu hv. 1. þm. Norðurl. v. að fjármögnun nýlegs álvers Alumax í Kanada hafi verið með allt öðrum hætti en þeir ráðgerðu fyrir álverið sem ráðgert er á Keilisnesi. Staðreyndin er sú að þeir eru einmitt mjög fast bitnir í það form sem hér hefur verið rætt af því að það er það sem notað var til að fjármagna álverið við Deschambault í Kanada í Québec-fylki. Þeir segja: Nú erum við að bjóða sama eiginfjárhlutfall en það eru þrjú fyrirtæki í staðinn fyrir eitt. En að flestu öðru leyti er þetta eins. Það er þess vegna sem þeir vita að fjármagnsmarkaðurinn er erfiðari nú en hann var þegar þeir fengu það fé. Við þetta bætist að einmitt svona verkefnafjármögnun er algengust nú. M.a. hefur fyrirtækið Goldman Sachs verið til ráðgjafar um slíka verkefnafjármögnun á álveri og koparmálmbræðslu og fleiri slíku.
    Ég vildi svo að lokum þakka hv. 1. þm. Norðurl. v. fyrir það sem hann sagði um aðra kosti í stað álbræðslu sem nýtingu á okkar orkulindum. Þar mælti hann vel og skynsamlega.