Almenn hegningarlög

25. fundur
Miðvikudaginn 13. nóvember 1991, kl. 14:51:00 (932)

     Margrét Frímannsdóttir :
     Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. sem felur í sér að samfélagsþjónusta verði notuð sem viðurlög við afbrotum hér á landi. Samfélagsþjónusta hefur verið notuð á þennan hátt í þó nokkuð mörgum löndum um árabil, en eins og fram kemur í grg. með frv. eru ástæður fyrir því nokkuð mismunandi í hinum ýmsu löndum. Það sama á við um lög og reglur um samfélagsþjónustu. Þar er byggt á ólíkum forsendum.
    Samfélagsþjónusta er nútímalegt og heppilegt refsiúrræði ef vel tekst til um framkvæmd. Eðlilegt er að við setningu laga um samfélagsþjónustu sé kveðið á um ákveðið reynslutímabil eins og hér er gert, en það skiptir einnig afar miklu að varlega sé af stað farið. Æskilegt er að samfélagsþjónusta komi í stað refsivistar í færri tilvikum en fleirum á meðan á reynslutíma laganna stendur.
    Samfélagsþjónusta er e.t.v. ekki alveg jafnný af nálinni hér á landi og virðist í fljótu bragði.
    Í 57. gr. almennra hegningarlaga er ákvæði sem kveður á um það að binda megi fullnustu refsingar m.a. því skilyrði að aðili sem hlotið hefur dóm hlíti fyrirmælum umsjónarmanns um dvalarstað, menntun, vinnu, umgengni við aðra menn og notkun tómstunda eða að viðkomandi aðili gangist undir dvöl á hæli í tiltekinn tíma ef nauðsyn þykir bera til, allt að 18 mánuði þegar venja þarf hann af notkun áfengis eða deyfilyfja.
    Þessu ákvæði 57. gr. hegningarlaga, sem er í anda samfélagsþjónustu, hefur sjaldan verið beitt hér á landi, líklega vegna þess að ekki hefur verið aðstaða til þess. Þó er hugsunin sem þar kemur fram áreiðanlega sú sama og býr að baki þegar samfélagsþjónusta kemur í stað fangelsisvistar. Í þessu ákvæði er t.d. fjallað um vinnu og tómstundir þess sem dóm hlýtur.
    Samfélagsþjónusta getur vel komið til greina sem liður í skilorðsbindingu dóms ekki síður en í stað óskilorðsbundins dóms eins og gert er ráð fyrir í frv. Það væri jafnvel vænlegra til árangurs vegna þess að þeir sem hljóta fangelsisdóm eru oftar en ekki búnir að fá á sig áður skilorðsbundinn dóm.
    Með því að nýta ákvæði 57. gr. hegningarlaga sem ég nefndi áðan ásamt lögum um samfélagsþjónustu, sem hér er rætt um að setja, mætti e.t.v. koma í veg fyrir fangelsisdóm síðar meir því að bæði 57. gr. hegningarlaganna og samfélagsþjónusta eru án efa uppeldislega góð og vænleg til betrunar, vænlegri en þau úrræði sem nú er beitt.
    Það þarf að grípa til uppeldis- og betrunarúrræða áður en til fangelsisdóms kemur. Langflestir ungir afbrotamenn neyta einhverra vímuefna og oft eru afbrotin framin til að útvega peninga fyrir fíkniefnum. Þegar fangelsisdómur kemur hjá þessum ungmennum eru þau oft mjög langt leidd og vart hæf til samfélagsþjónustu.
    Ég er ekki með þessu að draga úr gildi þess að samfélagsþjónusta komi í sumum tilfellum í stað fangelsisvistar heldur aðeins að benda á að samfélagsþjónusta getur jafnvel gert meira gagn ef hún er tengd skilorðsbundnum dómi. Það má vel hugsa sér samfélagsþjónustuna sem skilorð, ekki síst vegna þess að skilorðsdómar falla jafnan á undan fangelsisdómum og með því fyrirkomulagi væri gripið fyrr til mannbætandi viðurlaga.
    Þetta frv. var, eins og áður er komið fram, lagt fram á síðasta þingi og var þá vísað til nefndar. Í umsögn um frv. sem barst frá Fangelsismálastofnun ríkisins komu fram nokkrar athugasemdir við einstakar greinar þess. Þar var m.a. lagt til að í stað 10 mánaða óskilorðsbundinnar refsivistar, eins og kveður á um í 1. mgr. 1. gr., komi 6 mánaða óskilorðsbundin refsivist. Rökin fyrir þessari tillögu eru að varlega skal farið af stað og bent er á í umsögninni að árið 1989 barst stofnuninni 321 óskilorðsbundinn dómur til fullnustu þar sem refsivist var 6 mánaða fangelsi eða styttri. 32 dómar voru á bilinu 6--12 mánuðir og 25 dómar um lengri refsivist. Það þýðir að 8--9 af hverjum 10 dómum sem stofnuninni berast að jafnaði fela í sér fangelsisvist sem er 6 mánuðir eða styttri. Það eru því æðimargir brotamenn sem koma til greina til að gegna samfélagsþjónustu í stað fangelsisvistar þó miðað væri við 6 mánaða mörkin. Fulltrúar Fangelsismálastofnunar komu með ýmsar aðrar ábendingar en þessi var að mínu mati sú veigamesta.
    Í 3. gr. frv. er fjallað um það hversu margar klukkustundir dómþoli skuli vinna í stað refsivistar. Þar er sagt að miða skuli að jafnaði við að 20 klukkustunda samfélagsþjónusta jafngildi eins mánaðar refsivist. Þessi vinna skal þó ekki innt af hendi á skemmri tíma en þremur mánuðum.
    Ég verð að segja að frelsissvipting í 30 daga sem felur í sér fjarveru frá fjölskyldu og vinnu og hefur í för með sér tekjumissi fyrir nú utan þann stimpil sem oft vill fylgja þeim sem setið hefur í fangelsi, er ekki talin mjög alvarleg refsing hjá þeim sem sömdu þetta frv. Þeir leggja að jöfnu 30 daga frelsissviptingu og 20 tíma vinnu í þágu samfélagsins, þjónustu við samfélagið sem unnin er í frítíma viðkomandi einstaklings sem heldur vinnu sinni eða getur stundað nám sitt óhindrað og búið með fjölskyldu sinni og verið laus við þá niðurlægingu að tilkynna á vinnustað um brottför sína vegna fangelsisvistunar. Viðkomandi kemst hjá því að þola þá niðurlægingu eftir afplánun dóms að fara á milli staða í vinnuleit og horfa á viðbrögð fólks þegar síðasti dvalarstaður er kynntur. Hann kemst einnig hjá því að valda fjölskyldunni meiri sársauka en þann sem fyrir var vegna afbrota. Er hugsanlegt að 20 tíma samfélagsþjónusta komi í stað alls þessa sem eins mánaðar fangelsisvist getur haft í för með sér? Ég held ekki.
    Auðvitað er eðli afbrota misjafnt og auðvitað eiga sumir afbrotamenn að hljóta þyngri dóma en aðrir en hér er ekki um þá viðmiðun að ræða, aðeins að 20 tíma samfélagsþjónusta jafngildi eins mánaðar innilokun.
    Ég vil einnig benda á að í 1. tölulið 2. gr. frv., þar sem kveðið er á um þriggja mánaða frest til að sækja um breytingu á refsivist yfir í samfélagsþjónustu, er ákveðinn fulllangur frestur þó að ekki sé miðað við annað en það að ekki má líða of langur tími frá afbroti til afplánunar dóms.
    Þá kem ég að því hverjir það eru sem ákveða hvort dómi um refsivist skuli breytt í samfélagsþjónustu. Í 5. gr. frv. segir að dómsmrh. skipi nefnd þriggja manna til að taka ákvörðun um þetta atriði. Jafnframt ákveði nefndin með hvaða hætti þjónustan við samfélagið verður innt af hendi og á hve löngum tíma. Þarna er farið inn á afar varhugaverðar brautir. Með þessu er verið að gera ákvörðunina um samfélagsþjónustu, sem er í raun dómur yfir viðkomandi einstaklingi, að stjórnsýsluákvörðun en ekki ákvörðun dómstóla sem hlýtur þó að vera réttara eðli málsins samkvæmt.
    Fangelsisvist í 10 mánuði er alvarleg refsing og alvarleg brot sem að baki liggja. Í skýrslu Fangelsismálastofnunar sem ég vitnaði í áðan kemur fram að af 378 dómum sem komu til fullnustu 1989 fólu aðeins 57 í sér fangelsisvist lengur en 6 mánuði sem sýnir í raun hversu alvarleg 10 mánaða fangelsisvist er. Það er því með öllu óeðlilegt að það verði stjórnsýsluákvörðun að breyta slíkum dómi. Eðlilegast væri að dómur sem felur í sér samfélagsþjónustu í stað refsivistar verði felldur af dómurum. Staða þeirra og ábyrgð ætti að tryggja öruggari niðurstöðu. Um dóma sem fallið hafa þegar og ef frv. þetta verður að lögum geta gilt önnur úrræði til handa þeim sem vilja fá eldri fangelsisdómum breytt í samfélagsþjónustu. Þó er eðlilegt að dómari komi þar að verki líka.
    Virðulegi forseti. Það er lengi hægt að halda áfram því að margar spurningar vakna

við lestur þessa frv. Hins vegar er vart annað hægt en að mæla með að samfélagsþjónustan verði reynd í stað refsivistar en hvetja um leið þá nefnd sem fær málið til umfjöllunar að vanda vel athugun sína á frv. Leita þarf svara við öllum þeim spurningum sem upp kunna að koma.
    Við umfjöllun um frv. þarf einnig að athuga sérstaklega hver áhrifin af samfélagsþjónustunni verða. Henni er ætlað að hafa varnaðaráhrif á dómþola en það þarf einnig og ekkert síður að svara þeirri spurningu hvort hún muni hafa varnaðaráhrif á almenning þannig að öðrum sé haldið frá afbrotum.