Forsendur þjóðhagsáætlunar og fjárlagafrumvarps

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 13:35:00 (1015)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Þessi endurskoðun er þegar hafin af hálfu fjmrn. og hæstv. fjmrh. Í annan stað hefur verið skipaður starfshópur embættismanna og sérfræðinga til þess að fara ofan í málið. Þeir eru þegar í vinnu. Ég á von á því að tillögur verði lagðar fyrir ríkisstjórn í næstu viku. Ég býst við því að meginhluti þeirra aðgerða sem vera má að gripið verði til verði þess eðlis að þær séu á valdi ríkisstjórnarinnar. Ef atbeini Alþingis þarf til að koma verður frv. þess eðlis og efnis lagt fyrir hið fyrsta og ég vænti þess að umræða um það á Alþingi eigi sér stað þá um sömu mundir. Það kann að vera að ég hafi gleymt einni spurningunni.
    Ég hef tekið eftir því í fréttum að forusta Alþýðusambands Íslands hefur ákveðið að óska eftir viðræðum við ríkisstjórnina. Það kemur sér vel. Við höfum að vísu átt óformlegar viðræður við forustumenn aðila vinnumarkaðarins á undanförnum vikum, aðallega kynningarfundi, en það er ljóst að óhjákvæmilegt er að þessir aðilar komi að þessari endurskoðun og tillagnagerð.