Ákvæði þingskapa um óundirbúnar fyrirspurnir

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 14:08:00 (1040)

     Páll Pétursson :
     Frú forseti. Ég var að vísu ekki viðstaddur fyrsta fyrirspurnafundinn í þinginu með þessu formi. En ég vil leyfa mér að vitna til þingskapa. Í niðurlagi 49. gr. segir svo:
    ,,Í allt að hálftíma á fyrir fram ákveðnum fundi getur forseti heimilað þingmönnum að bera fram munnlegar fyrirspurnir til ráðherra. Um ræðutíma gilda ákvæði 5. mgr.``
    Nú vil ég, með leyfi forseta, lesa 5. mgr.: ,,Fyrirspyrjandi eða framsögumaður fyrirspyrjenda mælir fyrir fyrirspurn. Ráðherra, er á hlut að máli, svarar síðan fyrirspurn. Hvor um sig, fyrirspyrjandi og ráðherra, má ekki tala oftar en tvisvar, fyrirspyrjandi eigi lengur en þrjár mínútur og ráðherra eigi lengur en fimm mínútur í senn. Öðrum þingmönnum er heimilt að gera einu sinni stutta athugasemd, eina mínútu hverjum.``
    Það stendur nákvæmlega í þingsköpum hvernig fara beri að þessu og ég er mjög óánægður ef forseti ákveður að bregða út af þingsköpum af hagkvæmnissjónarmiði eða af öðrum sjónarmiðum og hefta með því málfrelsi þingmanna.

    Ég vil líka gera athugasemd við fundarstjórn hér áðan þar sem hæstv. forsrh. notaði orðalagið ,,að gjamma`` um frammíköll frá einstökum þingmönnum. Ég tel það óviðurkvæmilegt orðalag hjá forsrh. að segja að þingmenn gjammi þó að þeir grípi fram í.