Umhverfismengun af völdum einnota umbúða

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 17:38:00 (1082)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Það frv. sem hæstv. umhvrh. hefur hér mælt fyrir felur í sér breytingar á gildandi lögum eins og fram hefur komið. En frv. þetta var á sínum tíma til umfjöllunar í iðnn. þingsins, þar sem ég átti sæti á árinu 1989, og varð þá frv. um þetta

efni í fyrsta sinn lögfest. Hér er um að ræða löggjöf sem er tvímælalaust verulega til bóta, þá á ég við við gildandi lög sem sett voru á sínum tíma, og eðlilegt að reynt sé að þróa þessa löggjöf miðað við reynslu. Ég hef því ekkert við það að athuga að hér séu lagðar til breytingar á gildandi lögum um þetta efni.
    Umbúðir og mengun af völdum umbúða er mikið vandamál hjá okkur eins og víða annars staðar og með gildandi löggjöf hefur verið reynt að bregðast við þessu. Viðbrögðin bera vott um að notendur eru reiðubúnir að taka þátt í að safna og skila til endurvinnslu þessum umbúðum sem um er að ræða. Skilin hafa farið fram úr vonum manna þegar lögin voru sett um þetta efni. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að vel hefði komið til greina og sjálfsagt verið farsælt fyrir okkur að bregðast við þessum vanda með öðrum og róttækari hætti en felst í skilum á þessum umbúðum, þ.e. beinlínis að koma í veg fyrir þær að hluta til að minnsta kosti eins og gert hefur verið í grannlöndum okkar. Og það er sjálfsagt að athuga að herða á ákvæðum um þessi efni og breyta til þannig að einnota umbúðir verði ekki jafnmikill þáttur í úrgangi og nú er.
    En vissulega er sú starfsemi sem fram hefur farið á vegum Endurvinnslunnar hf. til mikillar þurftar. Það er illt til þess að vita að reksturinn skuli hafa þurft að vera með halla. Ég segi þurft að vera með halla, kannski er ekki alveg rétt að orða það þannig, skuli hafa reynst hallarekstur. En mér sýnist af grg. með frv. og enn frekar af athugasemdum frá fjmrn. að í rauninni heimili gildandi löggjöf mun meiri gjaldtöku en lögð hefur verið á. Og ég vil spyrja hæstv. ráðherra í sambandi við þetta frv. um ástæður fyrir því að heimildir til gjaldtöku hafa ekki verið notaðar eins og lögin leyfa. Því það virðist sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir þennan taprekstur ef brugðist hefði verið við í tæka tíð til að koma í veg fyrir þennan hallabúskap.
    Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra um það hvers vegna sú leið er valin, án þess að ég sé að gagnrýna það sérstaklega, að leggja fram nýtt frv. í stað breytinga á gildandi lögum. Það geta vissulega verið rök fyrir því, þetta er ekki langur lagabálkur og hugsanlega er skýringin sú að menn vilji leggja þetta hér heildstætt fyrir á nýjan leik. En ég inni hæstv. ráðherra eftir ástæðum fyrir því.
    Síðan vildi ég gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra, kannski hef ég misst af þeim þætti í hans framsögu ef hann hefur vikið að þeirri gagnrýni eða þeim ábendingum sem fram koma frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. varðandi breytingar á lögunum þar sem þeir telja sig sýna fram á að hægt væri með núverandi heimildum að tryggja arðbæran rekstur af endurvinnslu þessara umbúða væru heimildir í gildandi lögum notaðar. Þetta finnst mér ekki hafa verið rökstutt eins og þyrfti að vera af hæstv. ráðherra þegar hann mælti fyrir málinu.
    Ég geri ráð fyrir að málið komi til umhvn. sem ég á sæti í þannig að þar gefst færi á að fara yfir málið og ýmislegt sem því tengist. Ég ætla mér ekki að hafa hér, hæstv. forseti, lengra mál um þetta frv. sem ég tel góðra gjalda vert að fram kemur og sjálfsagt að líta á þá þætti sem horft geta til bóta. En ég vænti þess að hæstv. ráðherra víki hér í umræðunni að þeim atriðum sem ég hef spurst fyrir um þannig að það liggi skýrar fyrir áður en málið fer til nefndar.