Viðlagatrygging Íslands

30. fundur
Miðvikudaginn 20. nóvember 1991, kl. 14:37:00 (1099)

     Pálmi Jónsson :
     Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. heilbrrh. hefur þetta mál hlotið allvandaðan undirbúning sem hann hefur lýst og hjá þeim, sem standa að undirbúningi þessa máls, er samstaða um það eins og það er úr garði gert. Ég bað hins vegar um orðið til þess að benda á atriði sem hv. 2. þm. Vestf. hefur gert að umtalsefni. Ég hygg að sú endurskoðun, sem sett var af stað snemma á þessu ári og við sjáum hér væntanlega árangurinn af, hafi m.a. og kannski ekki síst sprottið af því að mikil umræða varð um það hér á Alþingi að fjömargir aðilar höfðu orðið fyrir gífurlegu tjóni vegna ofviðris í byrjun febrúar á þessu ári. Þó að unnt sé að tryggja gegn foki á hinum frjálsa tryggingamarkaði, þá var það svo að mjög margir einstaklingar og fyrirtæki höfðu ekki haft sínar eignir tryggðar gegn því mikla tjóni sem þá varð. Mér eru það nokkur vonbrigði að sjá að við undirbúning þessa frv. hefur ekki verið fallist á að taka þennan þátt náttúruhamfara með inn á þau svið sem viðlagatryggingu ber að tryggja.
    Ég held að það séu engin tvímæli að ofviðri hlýtur að teljast meðal náttúruhamfara þegar veðurhæð er með því mesta sem gerist hér á landi og það er hárrétt sem hv. 2. þm. Vestf. sagði áðan að ef sá þáttur náttúruhamfara er ekki tekinn með inn á tryggingasvið þessa sjóðs eru það allmargir, raunar fjölmargir aðilar í landinu sem eru skyldaðir til þess að leggja fram fé til sjóðsins, greiða iðgjöld, en munu seint eða aldrei fá neins notið frá þeim tryggingasjóði. Víða hagar svo til að menn verða ekki fyrir tjóni af völdum skriðufalla, snjóflóða eða vatnsflóða og á ýmsum svæðum hafa ekki komið eldgos í margar þúsundir ára. Og á þeim svæðum sumum hefur það yfirleitt ekki gerst að tjón, a.m.k. ekki að marki, hafi orðið af jarðskjálftum þannig að þetta styður allt það sem kom fram í ræðu síðasta ræðumanns að allmargir aðilar og jafnvel heil landsvæði eru að meginhluta þannig sett að þau verða skyldug til að greiða viðlagatryggingu iðgjald munu aldrei fá greiddar bætur. Ég vil því fara fram á að þetta sé athugað í þingnefnd. Málið fer nú til heilbr.- og trn. Alþingis og ég vænti þess að þar verði þetta atriði tekið til athugunar og rætt um það við hæstv. ráðherra hvort ekki sýnist réttmætt a.m.k. að taka það til nýrrar og alvarlegrar athugunar hvort þetta svið tryggingamála verði ekki tekið hér inn. Við höfum orðið vitni að svo stórfelldu tjóni af völdum ofviðris að það þekkja víst flestir Íslendingar.
    Það var þessi athugasemd eða þessi ábending sem ég vildi koma hér á framfæri, virðulegi forseti. Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða þetta mál að sinni.