Jöfnun atkvæðisréttar

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:04:00 (1153)

     Valgerður Sverrisdóttir :
     Hæstv. forseti. Mig langar að segja örfá orð í tilefni þessarar fsp. og af því að hæstv. samgrh. er hér í salnum væri ánægjulegt að hann dokaði aðeins við og enn betra að heyra viðhorf hans á jöfnun atkvæðisréttar. Því hefur reyndar verið fleygt í kjördæmi hans, Norðurl. e., að hann muni beita sér fyrir því að sú breyting að einn þingmaður flytjist við næstu kosningar frá Norðurl. e. til Reykjaness, taki ekki gildi.
    Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni að það verður að líta á lífsaðstöðu fólksins í landinu þegar þessi mál eru skoðuð. Ég get tekið undir með hv. fyrirspyrjanda í þeim efnum að kosningalögin eru allt of flókin. En ég vara eindregið við því að farið verði út í það á þessu strjálbýla landi að það sé sama vægi á bak við þingmenn allra kjördæma. Það gengur ekki meðan lífsaðstaðan er eins og raun ber vitni.