Aðstöðugjald

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:35:00 (1169)

     Jón Kristjánsson :
     Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég er henni fullkomlega sammála. Það misrétti, sem aðstöðugjöldin fela í sér, verður að afnema og jafna aðstöðu íslenskra fyrirtækja við erlend fyrirtæki. Þetta gjald þekkist hvergi nokkurs staðar eins og ráðherrann sagði réttilega og ég hvet hana til baráttu í þessu efni og hef enga ástæðu til að efast um vilja ráðherrans til að koma þessu máli í höfn.
    Hins vegar veit ég að þar er áreiðanlega við ramman reip að draga eins og hv. síðasti ræðumaður kom að. Sannleikurinn er sá að það misrétti sem hefur viðgengist í þessum efnum hefur farið vaxandi í gegnum árin nema að því leyti til að þegar nýju tekjustofnalögin voru samþykkt þá var aðeins dregið úr þessu.