Kaup á björgunarþyrlu

33. fundur
Mánudaginn 25. nóvember 1991, kl. 14:11:00 (1218)

     Guðrún Helgadóttir :
     Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að ég fékk leyfi til að hefja þessa umræðu og ég skal ekki níðast á fundartíma. Aðeins vil ég leyfa mér að þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls. Hér virðist vera mikil eining í hópi þingmanna en e.t.v. dálítið óljósara hvernig komið er fyrir ríkisstjórninni í þessu máli.
    Það er alveg ljóst að sá vélakostur sem varnarliðið hefur nú nýlega fengið og er að festa kaup á hentar engan veginn íslenskum aðstæðum, allra síst til björgunar á sjó eins og komið hefur fram og forsvarsmenn Landhelgisgæslunnar hafa bent á. Það er sjálfsagt að eiga gott samstarf við varnarliðið og auðvitað er gott að geta til þess leitað þegar á þarf að halda. Það breytir ekki því að við verðum að eignast fullbúna vél sem hentar okkur á landi og á höfunum í kring því að við skulum ekki gleyma því að við erum ekki einungis að tala um sjómannastéttina. Auðvitað er slík björgunarþyrla í þágu allra landsmanna, einnig þeirra sem á landi vinna og búa. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að þetta mál þolir auðvitað enga bið. Á meðan verið er að ganga frá kaupum verður að leigja vél og það er áreiðanlega ekki erfitt að fá fyrirtækin sem framleiða vélarnar til þess að leigja vél meðan hin er í smíðum.     Ég vil aðeins að lokum, hæstv. forseti, minna menn á að á nýafstöðnu fiskiþingi og einnig á fundi LÍÚ var samþykkt tillaga um að menn kæmu með allan veiddan undirmálsfisk að landi og það sem fengist fyrir það sem umfram er 10 leyfilegu prósentin yrði látið renna í sjóð til þyrlukaupa.
    Ég vil einnig benda á að í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins eru nú þegar 1,2 milljarðar kr. Mér er auðvitað ljóst að þar eru eigendur að en ekki þætti mér ólíklegt að þeir gætu fallist á að eitthvað af þessari upphæð, sem ég held að hvort sem er verði erfitt að skipta upp, færi til að kaupa þetta lífsnauðsynlega björgunartæki.
    Ég held að hér sé tómt mál að tala um kostnað. Hafa menn sest niður og reiknað

út það tjón, í beinhörðum peningum, sem varð hér við Hópsnesið fyrir nokkrum dögum, þó ekki væri annað?