Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 14:50:00 (1244)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Forseti þingsins er ekki öfundsverður af þeim ráðherrum sem hún hefur í þessari ríkisstjórn og viðleitni sinni til að greiða fyrir málum hér í þinginu. Hér voru bornar fram mjög einfaldar spurningar til hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. Þetta voru málefnalegar spurningar og hefði verið auðvelt að svara þeim á mjög skömmum tíma. Hæstv. ráðherrar hefðu getað sagt, eins og þeir reyndar sögðu, að þeir hefðu ekkert í höndunum enn sem komið er til að svara þessum spurningum og látið þar við sitja. Menn hefðu virt það. En þeir hættu ekki þar. Nei. Þeir vörðu meginhluta ræðu sinnar, hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh., til þess að ráðast á mig hvað eftir annað út af málum sem alls ekki eru á dagskrá í þessari umræðu, og enginn annar hafði vikið að í umræðunni, ekki nokkur maður, eins og skattlagningu á matvælum, framlög í Framkvæmdasjóð fatlaðra, framlög til félagslegra húsnæðismála á liðnum árum svo að ég nefni nú bara þrjá stóra málaflokka sem þessir tveir hæstv. ráðherrar kusu að taka hér á dagskrá. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég hafði ekki ætlað mér að tala langt mál nú í þessum umræðum og fyrri ræður mínar voru stuttar, en ég get ekki setið hér í þingsalnum þegar þessir tveir hæstv. ráðherrar nota tíma sinn, þegar þeir eru beðnir um að svara í stuttu máli einföldum spurningum, til að hefja allsherjarárás á mig. Það er því óhjákvæmilegt, virðulegi forseti, að ég verji nokkuð löngu máli til þess að svara hæstv. ráðherrum, en ég bið virðulegan forseta að skilja að það var ekki minn vilji eða ætlan að tala langt mál hér í þessum umræðum frekar. Þegar ríkisstjórnin kvartar yfir því við virðulegan forseta að mál gangi seint áfram, þá minni ég forseta á það að benda ráðherrunum á þeirra eigin ræður.
    Hæstv. félmrh. sagði margt í sinni ræðu og áður en ég kem að árásum hennar á mig vil ég fyrst draga það fram sem hún sagði. Í fyrsta lagi sagði hæstv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir að hún hefði enn ekki fengið samþykktar neinar jöfnunaraðgerðir fyrir láglaunafólk innan þessarar ríkisstjórnar, en hún vonaðist til þess að það gæti kannski gerst á næstunni. ( Gripið fram í: Með því að hæla fjmrh.) Ég mun nú koma sérstaklega að því hve elsk hæstv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir er orðin að fjmrh. Friðriki Sophussyni. Ég er ekki viss um að það sé vitnisburður um að hann sé góður fjmrh., en það er nú önnur saga. Alla vega hefur mér heyrst að forsvarsmenn vinnumarkaðarins hafi sagt ýmislegt um húsbréfamarkaðinn og íbúðalánakerfið og áhrif þess tvenns á ófremdarástandið í efnahagsmálum og vaxtamálum og gagnrýnt hæstv. fjmrh. fyrir það hve eftirlátssamur hann hefur verið við hæstv. félmrh., en það er líka önnur saga.
    Hæstv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir lýsti því hér yfir að í lok nóvembermánaðar, þremur mánuðum eftir að hún sagði þjóðinni að skilyrðið fyrir því að hún styddi fjárlagafrv. væri það að hún fengi aðgerðir í þágu láglaunafólks samþykktar í ríkisstjórninni, að hún hefði engar slíkar aðgerðir fengið samþykktar í ríkisstjórninni. Það er mjög mikilvæg yfirlýsing. Öll þessi barátta í þrjá mánuði hefur sem sagt reynst árangurslaus enn sem komið er. Það eru fróðlegar upplýsingar fyrir þá sem trúðu orðum félmrh. í septemberbyrjun. Síðan fer hæstv. félmrh. í ræðu sinni að undirbúa láglaunafólkið í landinu undir það að þetta kunni nú ekki að takast og er byrjuð að finna afsakanir, skýringar á því hvers vegna láglaunafólkið muni ekki fá jöfnunaraðgerðir í skattamálum og öðrum brýnum lífskjaramálum á næsta ári. Hver var skýringin? Vonir um álversframkvæmdir hafa brugðist og þess vegna eru skorður við því hvaða tekjujöfnunaraðgerðir fyrir lágalaunafólk er hægt að leiða hér í lög. Með öðrum orðum: Vegna þess að iðnrh. hefur ekki tekist að tryggja álversframkvæmdir þá treystir félmrh. sér ekki til að skila jöfnunaraðgerðum fyrir láglaunafólk. Eða svo það sé orðað á annan veg, það á að koma niður á láglaunafólkinu í landinu að álversframkvæmdirnar hafa brugðist. Þetta var skýring hæstv. félmrh. hér áðan, að búa láglaunafólkið undir það að ekki yrði hægt að standa við þessi fyrirheit af því að erlendu álfyrirtækin þrjú hefðu dregið sig til baka. Ja, hvílík reisn yfir varaformanni Alþfl. Að það sé láglaunafólkið sem eigi að bera byrðarnar. Hún talaði ekki um það að nú þyrfti að koma hátekjuþrep í tekjuskattinum til þess að jafna lífskjörin vegna þess að álversframkvæmdirnar hefðu brugðist. Hún talaði ekki um það að nú yrði að skattleggja fjármagnstekjur á næsta ári vegna þess að álversframkvæmdirnar hefðu brugðist svo að hægt væri að taka upp tekjujöfnunaraðgerðir. Nei. Hún sagði ekkert af því tagi. Láglaunafólkið í landinu, segir varaformaður Alþfl., á bara að horfa á hraunið og melana á Vatnsleysuströnd þar sem ekkert gerist á næstu tveimur árum og leita þar skýringa á því hvers vegna Alþfl. ætlar ekki að koma með neinar jöfnunaraðgerðir. Er það nú barátta. Er það nú afsökun fyrir því að ætla sér hér í desember að styðja fjárlagafrv. án þess að fá nokkuð fram nema kannski 100--200 millj.
    Það var þess vegna merkileg yfirlýsing hjá hæstv. félmrh. að henni hefði mistekist og hún er byrjuð að undirbúa skýringarnar með því að benda á álverið og þar með Jón Sigurðsson, flokksbróður sinn, hæstv. iðnrh., sem aðalsökudólginn. Það er hins vegar mikilvægt að fá það fram að innan þessarar ríkisstjórnar hefur enn ekki tekist neitt samkomulag um aðgerðir í þágu láglaunafólks.
    Síðan sagði hæstv. félmrh. sem enn frekari skýringu á því hvers vegna henni hefði eiginlega ekki tekist neitt á þessum þremur mánuðum, þessari miklu baráttukonu, hæstv. félmrh., sem er svo ánægð með Sjálfstfl., eins og fram kom í hennar ræðu --- það hefðu einhvern tíma þótt tíðindi að Jóhanna Sigurðardóttir ætti eftir flytja hér sérstakar ástarjátningar til fjmrh. Sjálfstfl. --- en hin skýringin var sú að verkalýðshreyfingin ætti að fá að hafa áhrif á skattamálin í tengslum við kjarasamninga. Hvers konar málflutningur er þetta? Hefur það farið fram hjá virðulegum félmrh. að forsrh., sem hún þjónar, hefur sagt hvað eftir annað að ríkisstjórnin ætti ekki að koma neitt nálægt kjarasamningunum, sagði það síðast við þjóðina eftir viðræðufund með fulltrúum Alþýðusambandisins og annarra samtaka launafólks í landinu að ríkisstjórnin yrði aukaleikari í samningagerðinni vegna þess að það væru launafólkið og samtök þeirra og atvinnurekendur sem ættu einir að semja um launin. Nú kemur félmrh. hér og segir: Það er verkalýðshreyfingin sem á að koma með þessar aðgerðir í skattamálum, ekki ég, félmrh. sem lofaði þjóðinni því í beinni sjónvarpsútsendingu í septemberbyrjun. En forsrh. segir: Verkalýðshreyfingin fær engan aðgang að þeirri umræðu.
    Tillögur verkalýðshreyfingarinnar eru skýrar, hæstv. félmrh. Hverjar eru tillögur verkalýðshreyfingarinnar í skattamálum? Ég skal fara með þær hér. Þær eru í fyrsta lagi hátekjuþrep í tekjuskatti. Það er líka tillaga Alþb. Í öðru lagi skattur á fjármagnstekjur. Það er líka tillaga Alþb. Í þriðja lagi að fella niður eða minnka skattaafslátt vegna hlutafjárkaupa. Það er líka tillaga Alþb. Og í fjórða lagi að hækka skattleysismörkin. Það er líka tillaga Alþb. í þágu láglaunafólksins.
    En öllum þessum tillögum, virðulegi félmrh., hefur ríkisstjórn þín nú þegar hafnað. Þetta eru tillögur sem Verkamannasambandið hefur sett fram, sem BSRB hefur sett fram, sem Alþýðusambandið hefur sett fram, sem Kennarasamband Íslands hefur sett fram, sem samtök iðnverkafólks hafa sett fram. Það þarf þess vegna ekkert að velta því fyrir sér hverjar séu óskir verkalýðshreyfingarinnar í skattamálum. Þær liggja alveg fyrir og þær eru hinar sömu og Alþb. hefur flutt tillögu um, en ríkisstjórnin hefur hafnað. En vegna þess að hæstv. félmrh. lýsti því yfir hér áðan að það ætti að fara að tillögu verkalýðshreyfingarinnar í þessum málum, þá er óhjákvæmilegt að spyrja hana: Hverja af þessum tillögum sem ég hef nú lýst ætlar hún og ríkisstjórnin að samþykkja? Er það hátekjuþrep í tekjuskatti? Er það skattur á fjármagnstekjur? Er það minnkun á afslættinum vegna hlutafjárkaupa, sem fjmrh. hefur nú þegar neitað að verði minnkaður? Er það hækkun skattleysismarka, eða hvað er það?
    Þegar hæstv. félmrh. hafði komið þessu til skila hefði kannski verið auðveldast til að greiða fyrir umræðunni að láta þar staðar numið. En það var ekki gert. Í staðinn fór hæstv. félmrh. að lýsa því hvernig ég sem fjmrh. hefði komið illa fram við hana og láglaunafólkið í landinu og væri nú einhver munur á því hvað hæstv. núv. fjmrh., Friðrik Sophusson, væri mikill vinur láglaunafólksins í landinu. Hann hefði reynst miklu meiri vinur láglaunafólksins í landinu, hæstv. núv. fjmrh. heldur en ég. Og það merkilega var að hæstv. félmrh. virtist vera alvara.
    Hæstv. félmrh. nefndi umræður í tíð síðustu ríkisstjórnar um framlög til félagslegs húsnæðis. Það væri vel þess virði að fara í gegnum þá umræðu nú því að hver var krafa hæstv. núv. félmrh. í síðustu ríkisstjórn í þeirri umræðu? Jú, ég skal greina frá því hver hún var. Hún var sú --- og hlusti nú námsmenn á Íslandi --- að Lánasjóður ísl. námsmanna yrði skorinn niður. Hæstv. félmrh. neitaði að ræða fjármögnun til félagslega íbúðakerfisins nema gengið yrði að því skilyrði að framlög til Lánasjóðs ísl. námsmanna yrðu skorin niður. Þessi krafa hennar stóð viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, og það endaði með því, til þess að koma til móts við félmrh., að framlög til Lánasjóðs ísl. námsmanna voru skorin niður. Og ég bið hæstv. fjmrh. að hlusta á það hér vegna þess að hæstv. fjmrh. gerði það að einu af ásökunarefnum hans í minn garð í ræðu sinni hér áðan að fjármagn til Lánasjóðs ísl. námsmanna hefði ekki verið tryggt nægilega í fjárlögum yfirstandandi árs. Ein af skýringunum, hæstv. fjmrh., er að félmrh. gerði kröfu um það í síðustu ríkisstjórn að framlög til Lánasjóðs ísl. námsmanna yrðu skorin niður. Það var krafa félmrh. um að skera niður framlögin til Lánasjóðs ísl. námsmanna sem er ein af skýringunum á því hvers vegna framlagið var minnkað í fjárlögum núverandi árs.
    Ég hef heyrt hæstv. félmrh. hæla sér af því utan þings að árið í ár skeri sig úr hvað það snertir hve margar félagslegar íbúðir hafa verið byggðar. Og væri nú vel þess virði fyrir virðulegan félmrh. að fara í gegnum það hér í ræðustólnum hversu margar félagslegar íbúðir voru byggðar á þeim árum þegar ég gekk frá fjárlagafrv., þar með talið árið í ár, og þegar formaður Alþfl. var fjmrh. Ég óska eftir því að hæstv. félmrh. lýsi þeim samanburði hér í ræðustólnum.

    Hins vegar verð ég að segja það að ég kunni með vissum hætti að meta það að virðulegur félmrh. lýsti því að ég hefði reynst nokkur harður fjmrh. og erfiður viðureignar, núv. fjmrh. væri miklu linari og auðveldari viðureignar í núv. ríkisstjórn. Ég er ekki viss um að það séu meðmæli fyrir fjmrh. því að auðvitað er það verkefni fjmrh. að vera harður í horn að taka og láta ekki fjárfreka ráðherra sækja allt of mikið í hinn sameiginlega sjóð. (Gripið fram í.) Ja, félmrh., hv. þm. Össur Skarphéðinsson var að lýsa því áðan að núv. hæstv. fjmrh. hefði verið miklu samvinnufúsari að ákveða útgjöldin heldur en ég. Þó hefur manni skilist að það hafi verið ein helstu meðmælin sem Sjálfstfl. ætlaði sér í núv. ríkisstjórn að honum væri best treystandi til þess að skera niður útgjöldin.
    Síðan fór virðulegur félmrh. að ræða framlögin í Framkvæmdasjóð fatlaðra og það var nú ekki stórmannlegt, virðulegi félmrh. Líður hæstv. félmrh. virkilega svona illa í núv. stjórnarsamstarfi að hún þurfi að grípa til þess til að verja sig og réttlæta það fyrir sjálfri sér og þjóðinni að hún sitji frekar með þessum mönnum en okkur að gera því skóna hér í ræðustólnum að ég hafi verið sérstaklega vondur við fatlað fólk, með sérstakan illvilja í garð fatlaðra í tíð síðustu ríkisstjórnar? Ef það mætti nú ekki misskilja það, þá hefði ég sagt að þetta hefði verið tilraun hæstv. félmrh. til að gefa mér högg undir belti. En af því að það má misskilja þá samlíkingu þá ætla ég ekki að nota hana formlega hér.
    Hitt er alveg ljóst að þær upphæðir sem hæstv. ráðherra fór hér með endurspegla ekkert í þessum efnum. Því eins og allir vita varð á þeim árum sem hún fór hér yfir mikið tekjufall í heildartekjum ríkissjóðs og það var eðlilegt að allar upphæðir yrðu að taka mið af því tekjufalli. Mér finnst það hins vegar vera fyrir neðan virðingu virðulegs félmrh. að koma með röksemdir af þessu tagi, vegna þess að hún veit mætavel að sú vinnuregla gilti að mestu leyti við fjárlagagerð í tíð þeirrar ríkisstjórnar eins og við fjárlagagerð í tíð núv. ríkisstjórnar að einstakir fagráðherrar hefðu afgerandi ákvörðunarvald um það hvernig þeim upphæðum sem komu í hlut þeirra ráðuneyta væri skipt. Það var þess vegna hæstv. félmrh. sjálf sem tók þær ákvarðanir í tíð síðustu ríkisstjórnar að lækka framlögin í Framkvæmdasjóð fatlaðra og hækka frekar eitthvað annað, vegna þess að fjmrn. í sjálfu sér gerði ekki mikinn greinarmun á því ef heildarupphæðin sem í félmrn. fór stóðst áætlanirnar sem settar voru fram. Það var almenn vinnuregla þá eins og nú að verkefni fjmrh. væri fyrst og fremst að tryggja heildarmat ríkisútgjaldanna og skiptingu þeirra milli einstakra ráðuneyta en það félli síðan í hlut einstakra ráðherra að ákveða skiptinguna innan ráðuneytanna. Það er þess vegna fullkomlega út í hött og sýnir best hve illa málið er komið ef hæstv. félmrh. er nú að fría sig algerlega ábyrgðinni á því hvernig hún kaus að skipta því heildarfjármagni sem hún fékk í sinn hlut á síðustu árum. Um það væri hægt að hafa mörg fleiri orð en ég ætla ekki að gera það nú.
    Hæstv. fjmrh. --- og ég óska eftir að hann sé sóttur, virðulegi forseti. ( Forseti: Hann hefur trúlega ekki farið langt.) Nei, nei ég treysti því. --- Hæstv. fjmrh. flutti hér ræðu sem var að því leyti keimlík ræðu hæstv. félmrh. að í stað þess að halda sig við tiltölulega skýr og stutt svör við þeim spurningum sem fram voru bornar kaus ráðherrann að hefja árás á mig. Hv. þm. Halldór Ásgrímsson hefur nú þegar afgreitt það með mjög snyrtilegum hætti og bent hæstv. fjmrh. á að það er lítil vörn fyrir hann í því að þykjast vera að gera nákvæmlega það sama og ég, en fordæma um leið það sem ég átti að hafa gert samkvæmt hans eigin lýsingu. Mér finnst merkilegt að verða vitni að því hér að hæstv. fjmrh. flytur þá tilvitnun í ræðu mína frá þinginu 1987--1988, ef ég man rétt, sem hann fór oftast með á síðasta kjörtímabili mér til háðungar og skammar og notar þá tilvitnun nú til þess að réttlæta sjálfan sig. Það má segja að enginn veit sína ævina fyrr en öll er, hæstv. fjmrh. Að svo illa skuli vera komið að hann þurfi að grípa til þeirrar tilvitnunar sem hann notaði oftast á síðasta kjörtímabili, til árása á síðustu ríkisstjórn, og segja nánast, eins og

hv. þm. Halldór Ásgrímsson benti á: Ja, ég er nú ekkert verri en fyrrv. fjmrh. sem hagaði sér svona, og lýsti því svo.
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að ég gagnrýndi matarskattinn, Alþb. gagnrýndi matarskattinn mjög rækilega. Það vita hins vegar allir að Alþfl., sérstaklega formaður Alþfl., hafnaði því að matarskatturinn yrði lagður niður. Við sögðum það alveg skýrt, forustumenn Alþb., þegar við gengum inn í síðustu ríkisstjórn að við gerðum okkur grein fyrir því að þeirri kröfu okkar hefði verið hafnað. Við höfðum ekkert að fela í þeim efnum. Það var algjörlega uppi á borðinu. Það kom ekki fram einhvern tímann í þinginu eins og er að gerast hér og nú með skattinn af verslunar- og skrifstofuhúsnæði, það var sagt strax við stjórnarmyndun. En við bættum við: Við munum hins vegar reyna að leita samkomulags í tíð þeirrar ríksstjórnar til að lækka skattlagningu á matvæli. Og það tókst, hæstv. fjmrh. Okkur alþýðubandalagsmönnum tókst að ná fram þeirri málamiðlun innan síðustu ríkisstjórnar að skattlagning á matvæli var minnkuð um það sem er að núgildi 2--3 milljarðar. Ég er ekki með töluna nákvæmlega hér í höndum en hún er af þeirri stærðargráðu. Og hvernig var sú málamiðlun? Jú, hún var á þann veg að þegar virðisaukaskattur var tekinn upp var ákveðið að fella inn í virðisaukaskattskerfið sérstakar endurgreiðslur á algengustu matvælum, innlendum matvælum, til að tryggja að á þeim væri ígildi u.þ.b. helmings þeirrar skattlagningar sem áður var. ( Fjmrh.: Það er ekki rétt, því það hafði verið gert árið áður.) Það hafði ekki verið gert árið áður, hæstv. fjmrh., og út í það er hægt að fara með hæstv. fjmrh. hér utan ræðutímans vegna þess að ég ætla ekki að tefja þingið á að fara með ráðherranum í gegnum tæknilegar útskýringar af því tagi. Sönnunin fyrir því að það hafði ekki verið gert áður, hæstv. fjmrh., var að 1. jan. 1990, þegar virðisaukaskatturinn tók gildi, lækkuðu matvælin í verði. Það var nú sönnun þess að það hafði ekki verið gert áður. Því ef það hefði verið gert áður þá hefðu matvælin ekki lækkað 1. jan. 1990, en þau gerðu það. Sjálfstfl. stóð hér í ræðustólnum í nóvember og desember 1989 og spáði því að þau mundu síðan hækka strax aftur sem þessu næmi, en það gerðist ekki. Matvælaverðið reyndist nánast óbreytt í eitt og hálft ár eða þar til ríkisstjórnin fór frá. Það er því alveg ljóst að við stigum umtalsvert skref sem nemur 2--3 milljörðum til lækkunar á skattlagningu matvæla eftir að Alþb. tók við fjmrn. Og ég var þakklátur samstarfsmönnum mínum í síðustu ríkisstjórn, m.a. formanni Alþfl. og núv. hæstv. utanrrh., sem ég vissi að átti erfitt í þessu máli, vegna þeirrar gerningahríðar sem á honum stóð vegna matarskattsins, að þeir skyldu taka þátt í þessari málamiðlun. Hún náðist m.a. á ágætum næturfundi sem við sátum á, ef ég man rétt, m.a. ég og hv. þm. Halldór Ásgrímsson sem hér er í þingsalnum.
    Hæstv. fjmrh. ætti þess vegna ekki að halda hér margar ræður um matarskattinn sem einhverja réttlætingu fyrir því að hann er að svíkja öll kosningaloforð Sjálfstfl. Ef hann ætlaði að fylgja okkar fordæmi þá ætti hann nú þegar að hefjast handa um lækkun skatta af þeirri stærðargráðu sem við knúðum fram á skattlagningu matvæla.
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. veitti engin svör við þeirri spurningu hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar hvernig ríkisstjórnin ætlaði að hækka tekjuskattinn.
    Nú er um helgina 1. des. um allt land. ( ÖS: Og víðar.) Og víðar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. (Gripið fram í.) Já, já, og líka í fjmrn. ( Gripið fram í: Líka í Alþfl.) Nei, það er ekki víst að það sé 1. des. í Alþfl., það er lítið um hátíðisdaga þar þessa dagana. Samkvæmt starfsáætlun þingsins, þeirri sem á að fara eftir og okkur er gert skylt að fara eftir, og stjórnarmeirihlutinn hér á þingi var svo bjartsýnn að hann gaf þinginu frí í viku frá þingstörfum fyrr í haust. ( ÖS: Það byrjaði viku fyrr.). Hvað er þetta með hv. þm. Össur Skarphéðinsson? Hann kemur alltaf hér í þingsalinn með svona almennar ,,bemærkningar``. En ég tek þeim vel og þakka fyrir þær. Ég er hins vegar ekki enn byrjaður að ræða

þessar tillögur í efnahagsmálum sem þingmaðurinn lét birta eftir sig í DV á laugardaginn þar sem hann var myndaður annars vegar með steyttan hnefa og hins vegar tillögur í efnahagsmálum, (Gripið fram í.) í því sem á myndamáli er kallað ,,close up``. Vill ekki hv. þm. Össur Skarphéðinsson gera þinginu grein fyrir þessum tillögum sínum í efnahagsmálum fyrst hann er mættur hér í salinn og getur varla haldið aftur af sér af löngun til að blanda sér í umræðurnar? Það væri a.m.k. fróðlegt fyrir okkur hina að vita hvernig gengur að fá þær fram, fyrst í Alþfl. og svo í ríkisstjórninni. --- En þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson greip hér fram í fyrir mér var ég að benda á þá staðreynd að samkvæmt starfsáætlun þingsins á að ljúka þingstörfum, ef ég man rétt, 14. des. ( Gripið fram í: Eða 16. des.) Nei, ég held að það sé 14. des., það er kannski rétt að gá að því. --- Jú, það er 14. des., sýnist mér, laugardagur. Látum vera þó að það teygist fram á mánudaginn 16. des. En samkvæmt starfsáætluninni er það 14. des., er það ekki forseti? ( Forseti: Jú.) Jú, forseti viðurkennir það. Hæstv. fjmrh. segir að það verði ekki fyrr en í næstu viku, í næstsíðustu viku fyrir jólahlé, sem ríkisstjórnin ,,væntanlega``, sagði ráðherrann, kemur hér með tillögur sínar í skattamálum. Og hæstv. fjmrh. ætlast til þess að þingið afgreiði þá á rúmri viku hækkun á tekjuskatti og ýmislegt annað. --- (Gripið fram í.) Þið eruð kannski að semja um skilyrðin sem hv. þm. lýsti hérna áðan. Þau voru nokkuð mörg, hæstv. fjmrh. Hvernig ganga samningarnir? ( Fjmrh.: Vel.) Þeir ganga vel, jæja. ( VE: Það er búið að semja.) Eruð þið búnir að semja? Og er þá fjmrh. búinn að samþykkja öll skilyrðin, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. ( Forseti: Ekki samtal.) Ég er að reyna að tala við fjmrh. héðan úr ræðustól en ég hef fullan skilning á að þessir samningar þurfi að fara fram þannig að ég er alveg reiðubúinn að bíða eftir því að þeir haldi áfram. --- Hæstv. fjmrh. Ég vil aðeins benda á það að á síðasta þingi og ég held einnig næstsíðasta þingi, alla vega var það þingið 1989--1990 sem þáv. þm. Friðrik Sophusson gagnrýndi það af mikilli hörku að skattafrv. þáv. ríkisstjórnar væru ekki komin fram fyrir desemberbyrjun. Og ef ég man rétt ætlaði hann að neita að afgreiða þau hér á þinginu fyrst svo væri. Ég vil aðeins minna hæstv. fjmrh. á að það er kannski líka á þessu sviði sem hann verður að fara að draga sín fyrri orð til baka. En um það ætla ég ekki að segja fleira hér og nú, en vil aðeins vekja athygli á því að það verður ekki nema rúm vika eftir af starfsáætlun þingsins þegar ríkisstjórnin loksins kemur með aðalfylgifrv. fjárlaganna hér inn í þingið. --- Mætti ég, virðulegi forseti, fá lánaða starfsáætlun þingsins hjá forsetanum?
    Í starfsáætlun þingsins kemur fram að ætlunin er að 2. umr. um fjárlagafrumvarpsins fari fram á þriðjudaginn kemur, 3. des. Nú hefur hæstv. fjmrh. lýst því yfir að aðalfylgifrumvarp fjárlagafrumvarpsins verði ekki komin fram þá eða verði kannski komin þann dag. Ég vil þess vegna nú þegar, virðulegi forseti, beina þeim tilmælum eindregið til forseta og ríkisstjórnarinnar að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir því að það er ekki hægt að láta 2. umr. fjárlaga fara fram án þess að meginfylgifrumvörp fjárlagafrv. hafi a.m.k. komið til 1. umr. Ég ætla ekki að segja meira um það á þessu stigi en vil aðeins vekja athygli á því að ríkisstjórnin er að stefna meðferð mála hér í þinginu í fullkomna óvissu með þessum vinnubrögðum, þessum drætti, þessu aðgerðarleysi og þessum deilum. Það er því nauðsynlegt að hefja þegar endurskoðun á þessum tveimur síðustu þingvikum í ljósi þeirrar yfirlýsingar sem hæstv. fjmrh. gaf hér áðan.
    Hæstv. fjmrh. sagði að engin ákvörðun hefði verið tekin í ríkisstjórninni um að breyta aðstöðugjaldinu, sagði síðan í seinna svari sínu að núv. stjórnarflokkar væru að vísu sammála því að breyta aðstöðugjaldinu í núverandi mynd. ,,Í núverandi mynd``, sagði hæstv. fjmrh. Málið hefur, hæstv. fjmrh., ekki snúist um það. Málið hefur snúist um það að leggja aðstöðugjaldið niður, ekki breyta því í núverandi mynd heldur bara taka það burt algjörlega. Ég verð að segja eins og er að þau svör sem hæstv. félmrh. gaf hér í síðustu viku

þegar borin var fram fsp. sem mig minnir að hafi komið fram hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni, ef ég man rétt, og það kann þó að vera misminni, ( Gripið fram í: Hann tók þátt í umræðunni.) en hann tók þátt í umræðunni. Þá var ekki hægt að skilja hæstv. félmrh. undir lok þeirra umræðna á annan veg en þann að það væri stefna ríkisstjórnarinnar að leggja aðstöðugjaldið niður. --- Og nú kinkar hæstv. félmrh. kolli brosandi á svip og segir þar með með táknmáli sínu að það sé rétt lýsing. --- En það var bara ekki það sem hæstv. fjmrh. sagði hérna áðan. Hæstv. fjmrh. sagði að það eina sem yrði gert væri að breyta aðstöðugjaldinu í núverandi mynd. Það getur þýtt ýmislegt. Það getur þýtt að lækka það, það getur þýtt að leggja það á einhvern annan stofn. Það getur þýtt að breyta hlutfalli þess milli atvinnugreina, ( HÁ: Hækka það.) og að sjálfsögðu að hækka það líka, en það er af kurteisi við fjmrh. sem ég nefni ekki þann möguleika. En það er að vísu alveg rétt hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni, sem er greinilega aðeins illgjarnari í garð hæstv. fjmrh. en ég, að hann reiknar með því að yfirlýsing fjmrh. geti líka þýtt það að ríkisstjórnin ætli sér að hækka aðstöðugjaldið. Hæstv. félmrh. verður því bara að horfast í augu við þá staðreynd að orðum hennar og hæstv. fjmrh. ber engan veginn saman. Og væri nú nauðsynlegt að fá svör við því hvor hefur rétt fyrir sér, fjmrh. eða félmrh.
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. kaus einnig að setja hér á nokkurt mál þess efnis að það væri svo voðalega vondur viðskilnaður hjá okkur sem vorum í síðustu ríkisstjórn. --- Stór hluti af þeirri ríkisstjórn er nú með hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni. (Gripið fram í.) Skásti hlutinn, segir hæstv. fjmrh., og er ánægður með húsbréfakerfið og áhrif þess á vaxtapólitíkina og efnahagslífið. Ég óska honum til hamingju með það. Þeir eru ekki eins ánægðir í atvinnulífinu, hæstv. fjmrh. --- Og þess vegna væri ekki hægt að lækka skattana og standa við kosningaloforð Sjálfstfl.
    Ég vil minna hæstv. fjmrh. á það að þegar ég tók við fjmrn. í septemberlok 1988, þá stefndi í það sem varð að fjárlagahallinn, sem skilinn var eftir af þeim fjárlögum sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, ríkisstjórn sem hæstv. núv. fjmrh. var í, skildi eftir sig, næmi 13--14 milljörðum að núgildi. Þess vegna er það auðvitað á engan hátt frambærilegt að færa það fram sem afsökun fyrir því að Sjálfstfl. svíki sín kosningaloforð að þeir hafi ekki vitað hvernig ástandið var á undanförnum árum í ríkisfjármálum. Og vegna þess sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sagði, að Sjálfstfl. hefði í kosningabaráttunni ekki lofað að lækka skatta --- og bið ég nú hv. þm. að hlusta á það --- þá vil ég benda hv. þm. að heimsækja höfuðstöðvar Sjálfstfl., Valhöll. Þar getur hann fengið rit sem gefið var út nokkrum mánuðum fyrir kosningar þar sem frambjóðendur Sjálfstfl. til alþingiskosninga í Reyjavík svöruðu spurningunni hvort þeir lofuðu að afnema alla þá skatta sem þáv. ríkisstjórn setti á. ( VE: Þetta hefur ekki náð norður yfir heiðar.) Nei, það er alveg rétt, hv. þm. Þetta náði ekki norður yfir heiðar. Það er alveg rétt. Það var annar Sjálfstfl. norðan heiðar en sunnan heiðar. Það er alveg rétt. ( Gripið fram í: Er nokkurt Verslunarráð þar?) Það er ekkert verslunarráð norðan heiðar en það er hér í Reykjavík. ( VE: Við bætum úr því.) Hv. þm. ætlar að bæta úr því. Ég er nú ekki viss um að Norðlendingar verði mjög hrifnir af því. En það sem ég ætlaði að benda þingmanninum á er að allir þingmenn Sjálfstfl. sem hér sitja í þingsalnum, nema hv. þm. Geir Haarde og ég virði hann alltaf fyrir það, allir þingmenn Sjálfstfl. úr Reykjavík sem sitja hér í þingsalnum með forsrh. og fjmrh. í fararbroddi lofuðu kjósendum Sjálfstfl. í Reykjavík skriflega að afnema alla þessa skatta. Svar forsrh. var einfaldlega já við spurningunni. Og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson bætti um betur og sagði: Já, ég ætla að afnema alla þessa skatta og ég ætla líka að afnema alla skattana sem lagðir voru á í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. ( Gripið fram í: Strax?) Já, þetta átti nefnilega að verða verkefni ríkisstjórnarinnar, þeirrar nýju sem átti að mynda. Hv. núv. þm. Geir Haarde var hins vegar sá eini sem gekkst ekki undir þetta

heit, enda dúnkaði hann niður á listanum og var refsað sérstaklega fyrir það af kjósendum Sjálfstfl. í Reykjavík að lofa því ekki að afnema alla skattana. Það er því alveg ljóst, og ég bið þingmanninn að ná sér í þetta rit, ég get að vísu lánað honum eintak ef hann óskar eftir, að það liggja fyrir skrifleg loforð allra þingmanna Sjálfstfl. í Reykjavík, nema Geirs Haarde, að lækka skattana.
    Ég vil hins vegar að lokum, virðulegi forseti, þakka hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni fyrir góð orð í minn garð. Það er alveg rétt hjá honum, við áttum gott samstarf þegar ég var fjmrh. til þess að hrinda í framkvæmd margvíslegum hagsmunamálum og ég tek eftir því að það eina sem hann getur talið núv. hæstv. fjmrh. til tekna það sem af er eru verk sem voru komin vel á veg þegar ég var í fjmrn. og hæstv. núv. fjmrh. hefur ekki stoppað heldur tryggt að næðu fram. Fyrir þessi góðu orð vil ég þakka.
    Hins vegar sagði hv. þm. að hann væri enn að safna þreki til þess að styðja þennan skatt og það mundi hjálpa til, það voru hans óbreyttu orð, ef framfaramál næðust fram sem hafin voru störf við þegar 8. þm. Reykn., Ólafur Ragnar Grímsson, var fjmrh. Það getur sem sagt hjálpað þingmanninum til að ganga gegn sannfæringu sinni í þessu máli ef núv. hæstv. fjmrh. ætlar að hrinda í framkvæmd þeim verkum sem hafin voru í tíð minni. Undir lok ræðu sinnar nefndi hv. þm. þessi atriði enn á ný sem skilyrði, það voru hans óbreyttu orð, skilyrði fyrir því að hann samþykkti þennan skatt.
    Ég vil svo að lokum taka undir með þingmanninum um að það var eins með mig og hann að ég átti voðalega erfitt með að skilja hvers vegna þyrfti að geyma þessa kassastrimla í sjö ár og ræddi það oft við embættismenn ráðuneytisins, en það var sæst á þá málamiðlun innan ráðuneytisins að þetta yrði skoðað þegar virðisaukaskatturinn væri búinn að vera í gildi í svona eitt til tvö ár og væri eitt af þeim atriðum sem ætti að taka upp. Og sama gildir um fjölda þeirra sölunóta sem hv. þm. nefndi.
    Virðulegi forseti. Það lýsir kannski best ræðu forsrh. að ég hef ekki enn þurft að víkja að henni nokkru orði í þessari ræðu. Enda er forsrh. ekki í salnum og erfitt að gera sér grein fyrir því hvar hann er. En hann var greinilega eitthvað að kvarta undan því hér í ræðu sinni að ég hefði verið að lýsa Alþb. reiðubúið til stjórnarmyndunarviðræðna og mátti kenna nokkurn ótta í máli hæstv. forsrh. Ég óskaði eftir því, hann notaði þau orð sem ég ætla hér að fara með, að hann vildi ,,fá að heyra við hverja ég væri að tala um stjórnarmyndun.`` ( Gripið fram í: Það er ekki óeðlilegt.) Mér finnst nú einum of mikils til ætlast af hæstv. forsrh. að ég fari að rekja það hér í þingsalnum. ( Gripið fram í: Hann er formaður stærsta þingflokksins.) Ég vil hins vegar þakka honum fyrir hamingjuóskir í minn garð sem hann flutti í sinni ræðu og óskaði mér til hamingju með endurkjör sem formaður Alþb. á nýafstöðnum landsfundi. Ég þakka fyrir það. Það verður svo að koma í ljós eftir 1 1 / 2 ár hvort ég þarf að óska honum til hamingju með endurkjör á landsfundi Sjálfstfl. eða hvort það verður einhver annar sem þá verður kjörinn þannig að við munum bíða með að svara þeim hamingjuóskum í sömu mynt þar til ljóst verður hver kosinn verður.
    Hitt er hins vegar aðalatriðið, virðulegi forseti, að forsrh. svaraði engu um það hverjir það væru í þingliði Sjálfstfl. sem ætluðu sér að styðja þetta frv. Hæstv. forsrh. svaraði því ekki. Hann gat það ekki. Hann sagði það hér að það væri traustur meiri hluti fyrir meðferð málsins --- og átti þá við að þeir stjórnarandstöðuflokkar sem áður hafa stutt þennan skatt mundu væntanlega gera það enn. Ég verð þess vegna enn, virðulegi forseti, að lýsa eftir svörum frá hæstv. forsrh., hverjir það eru í þingliði Sjálfstfl., og kannski Alþfl. en mín spurning var fyrst og fremst um þinglið Sjálfstfl., sem hafa lofað skilyrðislausum stuðningi við þetta frv. Það svar kom ekki og það er enn á ný lýst eftir því.