Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 18:04:00 (1254)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það voru tvær spurningar sérstaklega sem hv. þm. nefndi að ég hefði ekki svarað. Annarri spurningunni reyndar hafði ég svarað við aðra umræðu í þinginu, það var spurning um Hraðfrystihúsið á Stokkseyri og þá niðurstöðu sem varð við nauðasamninga vegna þess fyrirtækis. Og ég svaraði því þá til að í forsrn. hefði legið fyrir fundargerð frá fundi sem þáv. forsrh. hafði haldið í ráðuneytinu þar sem tekin var ákvörðun um það að tilteknir skattar skyldu koma til nauðasamninga. Fundargerð þessi var skrifuð af Helga Bergs bankastjóra. Ég lýsti því hér í þingsalnum að við hefðum ákveðið að virða þessa ákvörðun sem fyrrv. forsrh. hefði tekið, ganga ekki gegn henni. Ég hef skýrt þetta áður. Þingmaðurinn hefur sennilega ekki verið í salnum þá þegar þetta svar var gefið.
    Varðandi hitt atriðið, þá gæti ég út af fyrir sig rætt um fjölmarga þætti sem ég hef efasemdir um að Byggðastofnun hafi farið eftir þeim lögum sem um hana gilda. Ég er ekki þar með að segja að þar sé um refsiverða hluti að ræða en það hefur verið farið út fyrir þann lagaramma sem Byggðastofnun var settur. Ég get til að mynda nefnt að ég tel afskaplega vafasamt, svo ekki sé meira sagt, að sá fjáraustur sem verið hefur til fyrirtækisins Miklalax fái staðist að lögum. Það er í meira lagi vafasamt svo að ekki sé meira sagt. ( StG: Ólöglegt?) Það er í meira lagi vafasamt, hv. þm., að það fái staðist að lögum.