Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 16:04:00 (1322)

     Guðni Ágústsson :
     Hæstv. forseti. Bátur ríkisstjórnarinnar er á reki. Enginn getur búið við þá raunvexti sem ríkja í landinu. Höfuðmálið nú gagnvart atvinnulífinu, ekki síst sjávarútveginum og fólkinu í landinu, er að raunvextir lækki. Til þess að það gerist verður málið að bera rétt að. Nú er mesti nafnvaxtamunur útlána á milli peningastofnana sem verið hefur um árabil. Það sést glöggt á þessari töflu, hann er frá 2 og upp í 4%. Það er rétt að Íslandsbanki og Landsbanki hafa farið niður með sína vexti í anda snigilsins. Hins vegar heldur ríkið uppi raunvöxtum í landinu með háu ávöxtunartilboði á spariskírteinum upp á 8,1%. Einnig býður ríkið óverðtryggða pappíra með nafnvöxtum í dag á 19,1% sem eru raunvextir á sparifé upp á 16--17% miðað við verðbólgu í dag. Ríkið hagar sér gagnvart atvinnulífinu og einstaklingunum eins og það sé eitt í heiminum. Ríkið stendur fyrir mikilli sölu húsbréfa að auki. Ríkið hefur sótt á íslenska peningamarkaðinn 20 milljarða það sem af er þessu ári. Það er reyndar furðulegt að þeir sem hæst hafa um raunvaxtalækkun eru vinnuveitendur og verkalýðsforustan sem eru sömu aðilar og sitja í stjórn lífeyrissjóðanna. Það eru lífeyrissjóðirnir sem krefjast þessarar háu ávöxtunar á tryggum ríkispappírum svo sem húsbréfum og spariskírteinum ríkissjóðs. Þessir piltar hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri. Ef lífeyrissjóðirnir og ríkið lækka sína ávöxtunarkröfu skapast fyrst grundvöllur raunvaxtalækkunar í landinu sem er mjög mikilvægur. Þetta heitir að byrja skákina á byrjunarreit. Á því verður ríkisstjórnin að átta sig og hætta að tala í báðar áttir því það hefur hún gert.
    Annars er það rannsóknarefni hvernig launafólk og lífeyrissjóðir þess komast upp með að veifa einni milljón af hverjum fimm út um gluggann í sambandi við húsbréfin. Það er rannsóknarefni og það er óskiljanlegt að íslenska þjóðin skuli sætta sig við það. Að auki, hæstv. forseti. Lífeyrissjóðirnir gera kröfu um afföll upp á 22--24% og er hleypt með þessi sömu bréf á erlendan markað þar sem þeir gera viðbótarkröfur um afföll upp á 5--6% um leið og þeir skuldsetja íslenska þjóð. ( Forseti: Enn vill forseti minna hv. þm. á að fara ekki svona fram yfir tímann.)