Samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 16:26:00 (1330)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Ég legg fram till. til þál. um fullgildingu samnings um hefðbundinn herafla í Evrópu.
    Ef spurt er hvort nokkur einn þáttur hafi öðrum fremur sett svip á samskipti austurs og vesturs frá lokum síðari heimsstyrjaldar getur svarið vart dulist neinum. Tímabil kalda stríðsins verður tvímælalaust skráð á spjöld mannkynssögunnar sem tímabil stórfelldasta vígbúnaðarkapphlaups sem sögur fara af. Hin ógnvænlega hernaðaruppbygging sem einkenndi þá fjóra áratugi sem okkur er tamt að nefna tímabil kalda stríðsins, gætti ekki síst á miðju meginlandi Evrópu þar sem hersveitir Varsjárbandalagsins og varnarbandalags vestrænna ríkja, Atlantshafsbandalagsins, stóðu lengst af gráar fyrir járnum augliti til auglitis.
    Það er kunnara en frá þurfi að segja að það var í skjóli hervalds sem Sovétríkjunum var gert kleift að halda ríkjum Mið- og Austur-Evrópu í helgreipum kommúnískrar harðstjórnar og koma þannig í veg fyrir að lýðræðis- og frelsishugsjónir almennings í ríkjum þessum næðu fram að ganga.
    Sá samningur sem ég legg nú fyrir Alþingi í formi þáltill. um fullgildingu markar þáttaskil í sögu eftirstríðsáranna. Ég nota orðið þáttaskil vegna þess að samningurinn um hefðbundinn herafla í Evrópu sem þáv. forsrh. og núv. utanrrh. undirrituðu fyrir Íslands hönd með fyrirvara um fullgildingu Alþingis hinn 19. nóv. 1990 í París er fyrsta áþreifanlega vísbendingin um að brotist hafi verið út úr þeim vítahring samkeppni á hernaðarsviðinu sem einkenndi tímabil kalda stríðsins. Um leið er með þessum samningi lagður

grunnur að nýju öryggiskerfi byggðu á samvinnu Evrópuríkja. Með þessum orðum vil ég ekki halda því fram að endir hafi verið bundinn á framleiðslu vopna eða fróðafriður í Evrópu sé tryggður um fyrirsjáanlega framtíð, samningurinn einskorðast við hefðbundin vopn á landi og nær því hvorki til kjarnavopna sjóherja né efnavopna. Þar sem honum er ætlað að eyða misvægi á hernaðarsviðinu sem einkum hefur ógnað stöðugleika í Evrópu á undanförnum áratugum hlýtur hann engu að síður að teljast mikilsvert framlag til friðar og öryggis í álfunni. Það er ekki síst til þess að leggja þeim málstað lið sem ég fer þess nú á leit við hv. Alþingi að það fullgildi þennan samning.
    Þáltill. sjálfri sem dreift hefur verið í þinginu fylgir grg. um samninginn þar sem gerð er m.a. grein fyrir aðdraganda hans, innihaldi og áhrifum hér á landi. Ég mun ekki endurtaka hér það sem fram kemur í grg. en vil eigi að síður staldra við nokkur meginatriði varðandi mikilvægi samningsins, þýðingu hans fyrir Íslendinga og þær kvaðir sem hann leggur okkur á herðar, auk þess sem nauðsynlegt er að fara nokkrum orðum um áhrif þeirra atburða sem nú eiga sér stað í Sovétríkjunum og varða gildistöku samningsins.
    Hernaðarlegt mikilvægi samningsins er e.t.v. best lýst með því að rifja upp þau meginmarkmið sem stefnt var að með samningsgerðinni. Í fyrsta lagi miðar samningurinn að því að útrýma tugum þúsunda vopna sem nota má til skyndilegra sóknaraðgerða á landi, auk þess sem hann setur skorður fjölda slíkra vopna innan samningssvæðisins frá Atlantshafi til Úralfjalla. Kveðið er á um fimm flokka vígbúnaðar í samningnum, skriðdreka, bryndreka, stórskotalið, orrustuflugvélar og árásarþyrlur.
    Í öðru lagi er samningnum ætlað að koma í veg fyrir að nokkurt eitt aðildarríki geti átt meira en u.þ.b. þriðjung framangreindra vopna og að ekki skapist misvægi milli afmarkaðra svæða, t.d. milli miðsvæðis og norðurvængs.
    Í þriðja lagi setur samningurinn skorður við fjölda vopna í framangreindum flokkum sem ríki geta haft í þjónustu sinni eða virkum liðsveitum og mælir fyrir um vistun vopna umfram þær skorður í tilgreindum og afmörkuðum birgðageymslum.
    Í fjórða og síðasta lagi kveður samningurinn á um mjög strangt eftirlit og sannprófun, bæði til að tryggja framkvæmd samningsins og koma í veg fyrir undanbrögð frá honum.
    Ég vil bæta því við að flest þessara vopna, u.þ.b. 100 þús. vopna, sem gert er ráð fyrir að verði eyðilögð á rúmum þremur árum eftir að samningurinn tekur gildi er í eigu þeirra ríkja sem áður voru í Varsjárbandalaginu, en samningurinn byggir á þeirri meginreglu að sá aðili sem yfirburða nýtur skuli skera niður hlutfallslega fleiri vopn en hinn aðilinn.
    Þrátt fyrir að fyrst og fremst sé um að ræða samning um takmörkun vígbúnaðar er ekki síður mikilvægt að menn hafi í huga pólitíska þýðingu samningsins fyrir einstök ríki og fyrir samstarf Evrópuríkja í heild. Eins og ég vék að hér að framan hefur samningurinn mikla þýðingu fyrir hin nýfrjálsu ríki í Mið- og Austur-Evrópu en nærvera sovéskra herja stóð lýðræðisþróun í ríkjum þessum lengst af fyrir þrifum og gerði að verkum að í raun bjuggu þau við takmarkað fullveldi. Samningurinn er auk þess mikilvægur fyrir Eystrasaltsríkin og önnur lýðveldi sem annaðhvort hafa þegar sagt sig úr sovéska ríkjasambandinu eða hafa í hyggju að gera það á næstunni, þar sem hann gerir þeim kleift að gera sjálfstæðar varnaráætlanir við betri og stöðugri ytri aðstæður í öryggismálum en áður.
    Hinn pólitíski ávinningur af samningnum um hefðbundinn herafla í Evrópu er þó síður en svo bundinn við austanverða Evrópu einvörðungu. Framkvæmd samningsins mun að öðru óbreyttu leiða til þess að grunnur verði lagður að nýju fyrirkomulagi í öryggismálum í Evrópu. Þar á ég einkum við að í kjölfar samningsins munu þau ríki sem aðild eiga að honum að viðbættum ríkjum sem staðið hafa utan bandalaga öðlast aukna hlutdeild í sameiginlegum aðgerðum til eflingar friði og stöðugleika í álfunni. Eftir því sem dregur úr vægi vopnavalds gefast ríkjum Evrópu og Norður-Ameríku ný og áður óþekkt tækifæri til að hlúa að öryggi sínu með pólitískum frekar en hernaðarlegum aðgerðum. Í þessu sambandi vil ég geta þess að á Helsinki-fundi ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu sem hefst í mars á næsta ári er gert ráð fyrir að öryggisviðræður þátttökuríkjanna 38, sem nú eru orðin, leysi af hólmi samningaviðræður ríkjanna 22, þ.e. aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og fyrrv. Varsjárbandalags, sem aðild eiga að samningnum um hefðbundinn herafla.
    Um efnahagslega þýðingu samningsins þarf ekki að fjölyrða. Aukin stöðugleiki á hernaðarsviðinu mun vafalítið leiða til þess að dregið verður úr útgjöldum til varnarmála. Við það sparast umtalsvert fé til að glæða vöxt í þeirri efnahagslegu eyðimörk sem er arfleifð kommúnismans í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Loks vil ég einnig vekja athygli á mikilvægi þess að samningurinn, sem er ótímabundinn, verður lagalega bindandi eftir að aðildarríki hafa fullgilt hann. Þjóðréttarlegt gildi samningsins hefur það í för með sér að með honum eru ófrávíkjanlegar skorður reistar við hugsanlegu afturhvarfi til hernaðaruppbyggingar liðins tíma.
    Vonir eru við það bundnar að brottnám stórs hluta sóknarvopna á meginlandi Evrópu muni, eins og ég hef þegar tekið fram, stuðla að betra jafnvægi og auknum stöðugleika á hernaðarsviðinu í Evrópu. Að svo miklu leyti sem aukinn stöðugleiki dregur úr líkum á að styrjöld brjótist út á meginlandinu má færa rök fyrir því að Íslendingar sem aðrir njóti góðs af samningnum. Burt séð frá hinum almennu áhrifum samningsins á íslenska öryggishagsmuni eru bein áhrif samningsins á Íslandi takmörkuð að því leyti að niðurskurðarákvæði hans ná ekki til þess viðbúnaðar sem fyrir er á vegum varnarliðsins. Samningurinn hefur þó í för með sér ákveðnar skuldbindingar fyrir íslensk stjórnvöld í samvinnu við bandarísk stjórnvöld og varnarliðið, einkum hvað varðar tilkynningarskyldu og móttöku erlendra eftirlitsmanna, sem ég geri nánari grein fyrir hér á eftir.
Samningurinn er, eins og ég gat um áðan, fyrst og fremst samningur um niðurskurð landherja á meginlandi Evrópu. Niðurskurður landherja mun gera það að verkum að það mun verða mikilvægara en ella að geta flutt varalið yfir Atlantshafið frá Norður-Ameríku á hættu- og ófriðartímum. Á það ekki síst við ef samkomulag næst um fækkun í mannafla í framhaldi af þeim samningi sem hér er til umræðu. En viðræður um það efni fara um þessar mundir fram í Vínarborg. Við Íslendingum blasir því sá mótsagnarkenndi veruleiki að jafnframt því sem dregið hefur úr varnarþörfinni, þegar á heildinni er litið, kann mikilvægi þeirrar aðstöðu, sem Ísland lætur Atlantshafsbandalaginu í té til að fylgjast með og vernda siglingarleiðir yfir Atlantshafið, að hafa aukist í samanburði við það sem áður var.
    Ég vil nú snúa mér að þeim þætti sem lýtur að eftirliti með samningnum hér á landi sérstaklega. Á Íslandi er einungis ein tegund vígbúnaðar sem samningurinn nær til, þ.e. F-15 orrustuvélar í eigu Bandaríkjanna, sem staðsettar eru á Keflavíkurflugvelli. Þrátt fyrir að samningurinn hafi ekki í för með sér fækkun þessara véla á Íslandi falla þær undir upplýsinga- og eftirlitsákvæði samningsins. Óski eitthvert fyrrum Varsjárbandalagsríkja að sannreyna upplýsingar sem veittar hafa verið samkvæmt ákvæðum samningsins um samningsbundinn vígbúnað hér á landi eru íslensk stjórnvöld skuldbundin til að veita eftirlitsmönnum þeirra viðtöku. Þar sem einungis er um að ræða eitt eftirlitssvæði á Íslandi og eina tegund tilkynningarskylds vopnabúnaðar má búast við að eftirlitsferðir hingað til lands verði mun færri en annars staðar á samningssvæðinu. Samningurinn heimilar annars vegar eina eftirlistferð á tilkynntu eftirlitssvæði á fimm ára fresti og hins vegar skyndieftirlitsferð einu sinni á ári.
    Tekið skal fram að samningurinn heimilar beiðni um skyndieftirlit utan Keflavíkurflugvallar, t.d. á ratsjársvæðum, en slíkri beiðni ættu íslensk stjórnvöld rétt á að hafna á þeirri forsendu að engum samningsbundnum vopnabúnaði sé til að dreifa utan vallar. Ógerningur er hins vegar að spá fyrir um það með vissu á þessu stigi hvort eða að hvaða marki fyrrum aðildarríki Varsjárbandalagsins muni nýta sér þessar heimildir til eftirlits hér á landi.
    Í sérstakri bókun samningsins um eftirlit er kveðið á um skyldur aðildarríkja í tengslum við eftirlit. Samkvæmt bókun þessari bera íslensk stjórnvöld ábyrgð á upplýsingamiðlun og móttöku eftirlitsmanna og áhafna flugvéla svo og uppihaldi og flutningi til eftirlitssvæðis. Innan eftirlitssvæðisins taka fulltrúar bandarískra stjórnvalda og varnarliðsins á hinn bóginn við og fer eftirlit fram í fylgd fulltrúa utanrrn.
    Að loknu eftirliti ber íslenskum stjórnvöldum að taka aftur við eftirlitsmönnum og fylgja þeim til brottfararstaðar. Tekin verður saman eftirlitsskýrsla áður en eftirlitsmenn hverfa af landi brott.
    Á vegum utanrrn. hefur verið tekin saman móttökuáætlun vegna komu erlendra eftirlitsmanna og má geta þess að efnt var til sérstakrar eftirlitsæfingar á Íslandi dagana 30. sept. til 4. okt. í samvinnu við varnarliðið, bandarísk stjórnvöld og kanadíska eftirlitsmenn. Þótti sú æfing takast vel. Þess skal að lokum einnig getið að samkvæmt samningnum eiga Íslendingar einnig kost á að framkvæma eða taka þátt í eftirlitsferðum til fyrrverandi aðildarríkja Varsjárbandalagsins. Enn hefur ekki verið kveðið á um hvort eða með hvaða hætti Íslendingar muni nýta sér þessar heimildir en unnið hefur verið að því að samræma notkun eftirlitskvóta einstakra ríkja á vettvangi Atlantshafsbandalagsins.
    Virðulegi forseti. Meira en ár er nú liðið síðan þessi umfangsmesti samningur um takmörkun vígbúnaðar sem gerður hefur verið var undirritaður í París. Margt hefur breyst á þeim tíma og velta menn því eðlilega fyrir sér hvort ekki sé hætt við að samningurinn sjálfur úreldist nú óðum. Víst er að sú heimsmynd sem samningagerðin tók í upphafi mið af hefur breyst í veigamiklum atriðum eins og vikið er að í greinargerðinni með samningnum. Nægir í því sambandi að nefna að annað bandalagið sem aðild á að samningnum, Varsjárbandalagið, er úr sögunni og að Eistland, Lettland og Litáen, sem áður voru uppistaðan í svokölluðu Eystrasalts-herstjórnarsvæði Sovétríkjanna hafa endurheimt fullt og óskorað sjálfstæði.
    Óhætt er að fullyrða að þrátt fyrir slíka ófyrirsjáanlega atburði haldi samningurinn gildi sínu fullkomlega óskertur. Brotthvarf Varsjárbandalagsins breytir í grundvallaratriðum engu um þá staðreynd að framkvæmd niðurskurðar á grundvelli þeirra markmiða sem samkomulag varð um á milli bandalaganna tveggja er eftir sem áður á ábyrgð einstakra aðildarríkja samningsins. Sá vandi sem hlaust af sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna í tengslum við gildissvæði samningsins var enn fremur leystur með sérstakri lagalega bindandi yfirlýsingu sem tekur gildi um leið og samningurinn. Þessi niðurstaða ásamt lausn ágreinings sem upp kom um talningareglur samningsins fyrr á árinu er raunar órækur vitnisburður þess að sérstök ákvæði samningsins gera aðilum hans kleift að aðlaga samninginn breytilegum aðstæðum. Engu að síður verður því ekki í móti mælt að gætt hefur nokkurrar óvissu síðustu vikur um þau áhrif sem nýlegir og fyrirsjáanlegir atburðir í Sovétríkjunum kynnu að hafa á fullgildingu samningsins. Hér á ég ekki síst við þá upplausn miðstjórnarvalds sem vekur efasemdir um hvort sovéska þingið hafi í reynd umboð til að fullgilda samninginn fyrir hönd lýðvelda sem þegar eru á leið út úr ríkjasambandinu.
    Eins og kunnugt er stendur fyrir dyrum þjóðaratkvæðagreiðsla í Úkraínu um sjálfstæði lýðveldisins þann 1. des. nk. Lýsi stjórn Úkraínu lýðveldið sjálfstætt ríki í kjölfar atkvæðagreiðslunnar, eins og yfirgnæfandi líkur eru taldar á, er nánast óhugsandi að stjórnvöld í Kænugarði telji sig bundin af fullgildingarákvörðun sovéska þingsins. En stór hluti

hefðbundins vígbúnaðar Sovétmanna sem fellur undir samninginn er staðsettur á landssvæði Úkraínu. Of snemmt er á þessu stigi að segja til um með vissu hvernig brugðist verður við þessum vanda en hugsanlegar lausnir eru m.a. til umræðu í sameiginlegri samráðsnefnd í Vínarborg sem sett var á stofn með samningnum.
    Ekki er til að mynda ólíklegt að Úkraína verði krafin lagalega bindandi yfirlýsinga þess efnis að hún verði að virða í einu og öllu fyrri skuldbindingar Sovétríkjanna samkvæmt samningnum á úkraínsku landsvæði. Bendir raunar ekkert til þess að stjórnvöld í Úkraínu muni hreyfa andmælum við slíkri kröfu. Með hliðsjón af því ástandi sem við blasir í Sovétríkjunum er hins vegar ljóst að því lengur sem það dregst að aðilar samningsins fullgildi hann þeim mun erfiðara gæti það reynst að tryggja að samningurinn nái fram að ganga. Óhætt er að fullyrða að það sé áhætta sem enginn aðila samningsins vill taka. Ég vil því beina þeim tilmælum til hins háa Alþingis að það fullgildi þennan samning og sýni þannig í verki að Ísland vilji ekki láta sitt eftir liggja til að friður megi haldast í okkar heimshluta um fyrirsjáanlega framtíð.
    Áður en ég lýk máli mínu, virðulegi forseti, vil ég taka fram til skýringar að ég hef lagt fyrir Alþingi í íslenskri þýðingu, auk samningsins sjálfs, bókun samningsins um bráðabirgðagildistöku vissra ákvæða og XIII. kafla bókunar um eftirlit sem hefur sérstaka þýðingu fyrir Ísland. Einnig hafa verið lagðar fram í þýðingu átta yfirlýsingar sem tengjast samningnum en eru ekki hluti hans. Ákveðið var að leggja ekki fram í íslenskri þýðingu aðrar bókanir samningsins þar sem þær eru miklar að vöxtum og algjörlega tæknilegs eðlis. Utanrrn. mun hins vegar koma öllum bókunum samningsins á framfæri í enskri útgáfu sé þess óskað.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni umræðu um þennan samning verði honum vísað til umfjöllunar í utanrmn og til síðri umr.