Vegrið

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 11:05:00 (1350)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Vegna þessarar fyrirspurnar langar mig að benda á að það kostar ekki nema 3 þús. kr. metrinn í vegriðum samkvæmt upplýsingum sem hæstv. samgrh. gaf áðan. Þetta hlýtur að vera spurning um forgangsröð í vegaframkvæmdum. Það verður auðvitað að metast. En mér finnst samt furðulegt að ekki sé metið meira að reyna að afstýra því á hættulegustu vegaköflum landsins að þar geti orðið slys, jafnvel dauðaslys, en að leggja bundið slitlag. Því miður hefur sú þróun orðið að vegrið eru oft ekki sett á ákveðnum vegaköflum fyrr en eftir að slys hafa orðið. Ég nefni sem dæmi einn vegarkafla milli þéttbýlisstaða á Vestfjörðum þar sem ekki þurfti vegrið nema á litlum kafla. Það var ekki sett fyrr en heil fjölskylda hafði farið þar út af og farist. Þannig eru dæmin til og þess vegna er þetta spurning um forgangsröð.