Móttökuskilyrði hljóðvarps og sjónvarps á Vopnafirði

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 11:14:00 (1355)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
     Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram fsp. til hæstv. menntmrh. um móttökuskilyrði hljóðvarps og sjónvarps á Vopnafirði. Fsp. er svohljóðandi:
    ,,Hvað veldur slæmum móttökuskilyrðum hljóðvarps og sjónvarps á Vopnafirði og hvaða áform eru um úrbætur?``
    Tilefni þessarar fsp. er erindi sem mér barst frá sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps, dags 28. okt. sl. og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á fundi hreppsnefndar þann 24. okt. sl. var eftirfarandi ályktun samþykkt:
    Eins og forráðamönnum Ríkisútvarpsins er örugglega kunnugt hafa móttökuskilyrði útvarps og sjónvarps á Vopnafirði ekki verið sem skyldi og virðast skilyrðin fara versnandi ef eitthvað er. Eðlilega ríkir því mikil óánægja meðal íbúa byggðarlagsins. Hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps skorar því á stjórnendur Ríkisútvarpsins að bæta úr þessu ástandi nú þegar þannig að íbúar hér sitji við sama borð og flestir landsmenn.``
    Mér er ljóst að það er víða úti um land sem móttökuskilyrði Ríkisútvarpsins og yfirleitt hljóðvarps og sjónvarps eru ófullnægjandi og víða sem að úrbótum þarf að hyggja. Hér tala kjörnir fulltrúar í byggðarlagi sem hefur hátt í 1.000 íbúa og þar fara skilyrðin versnandi samkvæmt þeirra ályktun. Því hef ég leyft mér að bera þessa fsp. fram til hæstv. menntmrh.