Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 10:43:56 (1407)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Ég hygg að fyrirspyrjanda sé ljóst að á þeim tveimur mínútum sem ég hef til umráða get ég ekki svarað öllum þessum spurningum. En ég vil segja það almennt um þetta tilefni að ég hef lýst þeirri skoðun minni og stend við hana að ég hef á marga lund orðið fyrir vonbrigðum með málatilbúnað og þá ekki síst stjórnarandstöðunnar hér á þinginu. Mér hefur fundist og reyndar finnst kannski þessi atburður núna vera talandi tákn um það með hvaða hætti menn vilji sumir hverjir að þingstörfin fari fram.
    Fundadagar þingsins hafa verið 33. Þingfundatími hefur alls verið 149 klukkustundir, þar af þingskapaumræður, sem eru eðli málsins samkvæmt athugasemdir við stjórn forseta eða annað þess háttar, í 9:43 klukkustundir eða tæplega 10 klukkustundir. Utandagskrárumræður hafa staðið í næstum 35 klukkustundir á þessum stutta tíma. Það kemur fram að stjórnarandstaðan hefur hafið utandagskrárumræður 14 sinnum á þessum tíma, 14 sinnum á þessum skamma tíma og þingskapaumræður 126 sinnum á þessum tíma. Stjórnarsinnar, utandagskrárumræða tvisvar og þingskapaumræður 49 sinnum þannig að menn sjá á þessu með hvaða hætti störfin hafa verið. Og ég get ekki annað en lýst því að ég tel stjórnarandstöðuna í upphafi þessa þings hafa hagað sér með mjög ómálefnalegum hætti. Ég verð að lýsa því, það er mín skoðun og ég held reyndar að flestir þeir sem fylgjast með séu þeirrar skoðunar.
    Það er rétt hjá málshefjanda að ég hef ekki setið lengi á þingi. Ég var þó þingfréttaritari í eitt ár fyrir Morgunblaðið og Þingsjármaður fyrir útvarpið í annan tíma og ég sé mikinn mun á þeim málatilbúnaði sem ég sé hér í haust frá því sem þá var. Og mér hefur ekki fundist sá málatilbúnaður vera stjórnarandstöðunni til sóma.