Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 11:32:00 (1428)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég er sammála hæstv. viðskrh. að nú er mál að linni. En það hefði farið betur að hann hefði sagt þetta við sessunaut sinn, forsrh., fyrst í fyrradag, svo aftur í gær og svo aftur í morgun áður en forsrh. kom hér upp. Og hæstv. viðskrh. hefði einnig getað sagt við forsrh. áður en hann steig í stólinn undir lok þessarar umræðu: nú er mál að linni, vegna þess að hæstv. forsrh. kaus að nota þann rétt eða misnota þann rétt sem síðasti ræðumaður hér til að hefja nýjar árásir og flutti beinar svívirðingar og aðdróttanir í minn garð. Ég ætla ekki að svara þeim, virðulegi forsrh. En ég vil hins vegar segja að það er viss heiður að því að vera kominn í hóp með hv. þm. Inga Birni Albertssyni, þann hóp sem fær slíkar kveðjur frá virðulegum forsrh.
    En erindi mitt hingað upp í stólinn, virðulegi forseti, var að óska eftir því að gert yrði hlé á fundum þingsins nú. Ég tel að það sé ekki skynsamlegt að halda þessari umræðu áfram. Við eigum ekki að láta stíl og tón forsrh. trufla þetta lengur. Ég vil óska eftir því, virðulegi forseti, að nú verði gert hlé á þingfundum. Við höfum tækifæri til þess að ræða málin í þingflokkum utan fundar svo að við höldum áfram þeirri virðingu og því verklagi sem Alþingi Íslendinga hefur sýnt með sóma um langt árabil. Þetta er formleg ósk mín, virðulegi forseti.