Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 12:40:00 (1433)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Núna í hléinu höfum við borið okkur saman, formenn og varaformenn þingflokka stjórnarandstöðunnar, og rætt um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin á Alþingi. Við höfum einnig lýst áhyggjum okkar við hæstv. forseta Alþingis og lagt fyrir hana þá spurningu hvernig hún hyggst í vinnulagi sínu og verkstjórn gera það sem hún getur til þess að verja Alþingi, heiður þess og sóma. Við höfum farið yfir þessi mál mjög rækilega í hóp okkar formanna og varaformanna þingflokka stjórnarandstöðunnar og við munum halda því áfram. Við teljum að hér séu alvarleg tíðindi á ferð. Viðræðum okkar við forseta er ekki lokið. Þeim verður haldið áfram en við teljum að hér sé um að ræða óviðunandi ástand.