Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 15:36:00 (1443)

     Jóhann Ársælsson :
     Virðulegur forseti. Mér finnst að umfjöllunin um þetta mál afsanni alveg gjörsamlega þá umræðu sem fór fram í morgun að stjórnarandstaðan hafi verið að þvælast fyrir

í framgangi mála á þinginu. Við erum hér að fjalla um mál sem ekki liggur nokkurn skapaðan hlut á að afgreiða. Það breytti engu þótt öll umræða um það mál yrði færð fram yfir áramót, þannig að það skuli vera hér á dagskrá og notaður tími sem bætt er við störf þingsins til að vinna að málinu segir einfaldlega þá sögu að þeir sem stjórna þinghaldinu hafa ekki talið að þingið hefði neitt þarfara að gera en að ræða mál sem auðvelt væri að fást við á öðrum tíma. Þar með ætla ég ekki að lengja neitt meira umræðuna um það hvort verið er að tefja störf þingsins því mér sýnist að þetta sé nógu góð sönnun fyrir því að svo er ekki.
    Hv. síðasti ræðumaður hélt hér á ýmsan hátt athyglisverða ræðu. Hann talaði m.a. um það að sumir vildu láta blóð renna og í því samhengi að fyrirtæki yrðu að fá að fara á höfuðið. Hann virtist ekki vera sammála þessum skilningi. Hann talaði líka um það í ræðu sinni að mörg vel rekin fyrirtæki mundu fara á höfuðið ef ekkert gerðist. Hann talaði um það að stjórnarandstaðan hefði verið að tefja mál og mér virtist að hann vildi kenna henni um það hvernig hefði gengið að stjórna þinginu, en fór svo beint út í að tala um vanda sjávarútvegsins. Ég hef ekki orðið var við það að við værum að þvælast fyrir málum í þinginu, eins og ég sagði áðan, og þaðan af síður að við þvældumst fyrir málefnum sem eru lögð fyrir til þess að leysa vanda sjávarútvegsins. Ég hef ekki orðið var við það. Mér finnst þetta aldeilis ótrúlegt. Ég held að hv. þm. hafi hreinlega verið að segja okkur frá því að það væri einhvers konar stjórnarandstaða inni í stjórnarflokkunum sem væri að þvælast fyrir því að mál kæmust áfram sem varða sjávarútveginn. Alla vega gat ég ekki skilið þetta öðruvísi en að hann væri að gagnrýna einhverja andstæðinga sína sem kæmu í veg fyrir það að þörf mál til að leysa vanda í sjávarútvegi kæmust áfram. Hann talaði um að lengja lán og skuldbreyta, lækka raunvexti og dráttarvexti og að breyta gjöldum eins og bryggjugjöldum og ýmsu öðru. Ég tel það góðra gjalda vert að ræða þessi mál fram og til baka. Hins vegar hefur mér fundist að sumt af þessu hafi verið kallað því munntama nafni ,,sértækar aðgerðir`` og þá er að sjá hvort hefur orðið stefnubreyting hjá stjórnvöldum í landinu núna gagnvart þessum sértæku aðgerðum. Ég ætla satt að segja að vona það, en ég ætla að snúa mér að því að ræða þetta mál sem er á dagskránni, þ.e. frv. til laga um breyting á lögunum um Hagræðingarsjóð.
    Það er mín skoðun að tilgangur sjóðsins sé að stórum hluta til brostinn með þeirri tillögu sem liggur hér fyrir. Tekjur sjóðsins verða á þessu ári í kringum 75 millj. Það sjá allir að það verður ekki mikið úrelt af fiskiskipum með slíkum tekjum þegar fyrirætlanir þessa frv. eru að í framtíðinni komi engar frekari tekjur til sjóðsins og þá getum við reiknað með því að það verði kannski í kringum 80 millj. til ráðstöfunar á næsta ári. Sjóðurinn mun eiga eitthvað í kringum 600 millj. þannig að það væri auðvitað hægt að nýta sér þá peninga eitthvað í úreldingar, en með þeirri hækkun sem talað er um að verja til úreldingar, þ.e. að þeir sem fái afgreiðslu úr sjóðnum geti í staðinn fyrir að fá 10% af húftryggingarmati fengið 30%, þá hækkar náttúrlega verulega sú fjárhæð sem um gæti verið að ræða í hverju tilfelli. Og ekki bara það. Þetta mundi gjörbreyta þeim möguleikum að menn sæktu um. Fram að þessu hafa menn verið tregir að sækja um fyrirgreiðslu í sjóðnum vegna þess að þeir hafa getað komið sínum skipum í verð og fengið meiri peninga fyrir þau eða kosið að bíða með það vegna þess að það verð sem Hagræðingarsjóðurinn hefur viljað borga hefur verið það lágt. En með því að færa þetta upp í 30% er ekki lengur nema kannski 10% munur á því verði sem menn geta fengið fyrir skip sem búið er að taka aflaheimildir af og því verði sem Hagræðingarsjóður býður upp á og þá munu margir hugsa sig um að selja frekar Hagræðingarsjóði skipið en að sitja uppi með það og bíða eftir því að geta selt það öðrum aðila. Það má því búast við því að ásókn í Hagræðingarsjóðinn muni mjög aukast og það muni strax verða fjárvöntun í honum eftir að búið er

að gera þessa breytingu sem þarna er lögð til.
    Ég ætla ekki að fara að endurtaka svo mjög þær ræður sem hafa verið fluttar um tilgang sjóðsins en vísa til þess sem aðrir ræðumenn hafa sagt um hann. Ég tek undir þá skoðun að það sé nauðsynlegt að hafa möguleika á því að koma til móts við byggðarlögin í landinu meðan svo háttar til sem nú er, að sú fiskveiðistefna sem hefur verið tekin upp veldur því að smám saman færast veiðiheimildir og stundum reyndar með mjög afdrifaríkum hætti á milli byggðarlaga. Þá þurfi menn að hafa einhverja möguleika til þess að bjarga þeim byggðarlögum sem verða verst úti með því að geta komið til móts við þau með nýjum aflaheimildum. Í frv. er lagt til að það verði ekki gert lengur og að Byggðasjóður, eins og sagt er hérna, eigi að taka það hlutverk að sér. Þetta er alveg út í hött miðað við þær fyrirætlanir um stuðning við Byggðasjóð sem núna liggja fyrir og undarlegt að þeir sem hafa ákveðið að draga um 20% úr framlögum til Byggðasjóðs skuli á sama tíma ætla honum ný hlutverk, bæði hvað varðar þetta, sem er geysilega stórt hlutverk ef Byggðasjóður ætti að rækta það, og í fleiri atriðum sem hafa komið hér fram.
    Mér þykir eiginlega miður að hv. 17. þm. Reykv. er ekki viðstaddur hér vegna þess að hann hefur með ýmsum hætti, bæði í ræðum á Alþingi, í frammíköllum og í samtölum við mig, verið að spyrja út í hugmyndir mínar og annarra um fiskveiðistefnu í aðdraganda kosninganna í vor og sem hafa verið öðru hvoru í umræðunni síðan. (Gripið fram í.) --- Er hann kominn? Það kann vel að vera, hann mætir þá og hlýðir á ræðu mína. Ég ætlaði að gera tilraun til þess að útskýra fyrir honum hvaða munur er á því að taka gjald sem menn kalla auðlindaskatt og á því gjaldi sem við lögðum til að yrði sett á með þeirri tillögu í sjávarútvegsmálum sem við lögðum fram í vor. Ég ætla fyrst að fara fáeinum orðum um það gjald sem menn vilja kalla auðlindaskatt eða þær hugmyndir um að selja veiðileyfi sem hafa verið í umræðunni. Þær hugmyndir eru að mínu viti einfaldar eins og þær hafa verið lagðar fram og menn hafa yfirleitt ekki lagt í það að útskýra fyrir fólki með hvaða hætti ætti að útfæra sjálfa söluna. Mín skýring á því að menn skuli ekki hafa gert það er einföld. Það er vegna þess að það er alveg sama hvernig menn líta á það mál, að lokum hljóta menn að komast að þeirri niðurstöðu að það er ekki hægt að framkvæma þetta öðruvísi en að selja til hæstbjóðanda allar veiðiheimildir. Þegar svo væri komið að menn yrðu að bjóða til hæstbjóðanda allar veiðiheimildir þá væri engin stjórn lengur á því hvert veiðiheimildirnar færu. Ef menn selja hæstbjóðanda ekki allt saman þarf að viðhalda einhvers konar skömmtunarkerfi í líkingu við það kerfi sem er í gildi núna og þá yrði ríkið að ákveða gjaldið með tilliti til markaðarins. Það yrði alltaf undir smásjá hvert þetta gjald væri og ævinlega yrðu menn að taka mið af því að reyna að ná hæsta mögulega gjaldi. Ég tel þess vegna að það sé út í hött að ætla að halda það að það gangi til lengdar að selja þeim ekki sem hæst bjóða ef ríkið er á annað borð að selja veiðiheimildir.
    Ef það kerfi væri komið í gildi gætu menn auðvitað valið á milli ýmissa aðferða, hve mikið væri selt í einu, hvenær það væri gert og annað slíkt, en þeir gætu aldrei komist undan því að það væru þeir fjársterkustu sem mundu eignast veiðiheimildirnar. Allir sem eru núna í útgerð og fiskvinnslu, útflutningi á fiski og fjölmargir aðrir aðilar mundu auðvitað taka þátt í þeim leik. Ég tel að það væri langlíklegast að allra stærstu aðilarnir í útflutningi og í útgerð og svo kannski bæjarfélög sem ætluðu að reyna að tryggja atvinnuna á sínu svæði mundu taka þátt í uppboðunum eða samkeppninni um kaup á aflaheimildunum.
    Það sjá allir, þegar þeir fara að velta þessum hlutum fyrir sér, að stjórnun á því hvert aflaheimildirnar fara mundi ekki ekki vera fyrir hendi. Auk þess mundu útgerðaraðilar í landinu meira og minna lenda í þeirri aðstöðu að þeir gætu ekki keppt um þetta. Þeir yrðu einhvers konar vinnuvélaeigendur hjá þeim sem hrepptu kvótann og byðu þeim upp

á að veiða fyrir sig fyrir ákveðið verð, sem hefur reyndar borið á nú þegar í þessu kerfi okkar núna. Það eru þó nokkur fyrirtæki sem eiga það mikinn kvóta að þau geta ekki veitt hann eða vilja ekki veiða hann með sínum skipum og þau bjóða mönnum ákveðið verð fyrir að veiða fyrir sig. Og menn verða annaðhvort að taka því eða ekki. Núna eru fiskibátar frá Akranesi t.d. að veiða fisk fyrir Sauðkrækinga annað eða þriðja árið í röð á verði sem er ákveðið í þeirri byggð. Þannig held ég að þetta mundi þróast út í mjög alvarlegt vandamál strax í upphafi og allt sem lyti að útgerð í landinu yrði nánast stjórnlaust
    Ég ætla svo aftur að fara fáeinum orðum um þá hugmynd sem var sett fram í vor. Hún byggist á því að tekið verði upp sóknarmarkskerfi að langmestu leyti á allan flotann og að til viðbótar við það kerfi væri sett á svokallað aflagjald. Aflagjaldið yrði miðað við þann afla sem bærist að landi og yrði mismunandi hátt eftir því hvaða tegundir væri um að ræða, eftir því hvort við værum að ræða um stóran fisk eða smáan, þetta er hægt að útfæra á ýmsa vegu en aðalhugmyndin á bak við aflagjaldið er sú að það þarf að vera hægt að hafa áhrif á veiðarnar, ekki bara með því að menn fái að vera á sjó einhvern ákveðinn tíma, heldur líka með því að það er ekki sama hvað menn veiða. Það er ekki sama hvað menn koma með að landi og þess vegna þurfa menn að geta haft áhrif á veiðarnar með einhverjum hætti. Það er ekki þar með sagt að það yrði notað til að stjórna öllum veiðum á miðunum, heldur var hugmyndin sú að uppistaðan í þessu væri sóknarstýring. Ég held að það sé rétt að menn muni eftir því að endurskoðun á fiskveiðistefnunni fer í hönd og að menn eigi kannski ekki að byrja á því í þeirri umræðu að takast á um hvort eitthvert kerfi eða hugmynd sem menn hafa sett fram sé bara góð eða slæm. Menn ættu fyrst að setja sig í þær stellingar að fara yfir allar þær hugmyndir sem hafa verið settar fram og skoða þær til þess að reyna að leiða sig að einhverjum sannleika í lokin, því ég held að hv. alþm. geri sér grein fyrir því að í gegnum þingið fer ekki einhver ein hugmynd eins manns eða tveggja. Það verður einhvers konar samkomulag að verða um það sem kemur héðan út og ég hef sagt það áður að mér finnst það þess vegna slæmt að menn skuli ekki hafa reynt að leiða saman alla þá flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi til að starfa saman að þessum málum til að vita hvort ekki tekst um þau samkomulag.
    Ég held að við eigum orðið kröfu á því að fá hugmyndir til að ræða frá öllum aðilunum. Við þurfum að fá útfærðar hugmyndir frá þeim mönnum sem vilja setja á þetta veiðileyfagjald. Við þurfum að vita með hvaða hætti þeir ætla að koma því á og með hvaða hætti þessi sala eigi að fara fram því þar sýnist mér liggja verulega mikil áhætta. Mér finnst að menn skuldi okkur að segja okkur hvernig þeir ætli sér að hafa kerfið áfram, þeir sem hafa viljað berjast fyrir því að það kerfi sem nú er verði óbreytt, því það liggur þó alveg ljóst fyrir og er í lögunum um stjórn fiskveiða og örugglega stór meiri hluti fyrir því í þinginu og með þjóðinni að aflaheimildirnar verði ekki eign einstaklinga eða fyrirtækja. Þá er komið að því að þeir menn sem vilja hafa kerfið óbreytt eða því sem næst óbreytt, fari að segja okkur með hvaða hætti þeir ætla að koma í veg fyrir að þessar aflaheimildir verði varanleg eign fárra aðila. Þá hugmynd hef ég hvergi séð eða heyrt. En hún þarf auðvitað að koma fram. Ég er tilbúinn að ræða þær hugmyndir sem við höfum sett fram. Ég tel að undirstaðan undir þessa hluti eigi að vera sú að menn komi sér niður á hvaða grundvallarforsendur eigi að setja og ég held að það kerfi sem við stefnum að þurfi að vera eins einfalt og mögulegt er, en að það verði þó hægt að hafa áhrif á sem flesta þætti við nýtinguna á miðunum. Það verður að vera hægt að nota kerfið til að bæta afla og meðferð á aflanum, koma í veg fyrir slys í lífríkinu, koma í veg fyrir smáfiskadráp og annað slíkt. Og síðan þetta sem ég nefndi áðan að sameiginlegur eignarréttur okkar allra á lífríkinu í sjónum, fiskstofnunum og allri nýtingunni verði tryggður. Það þarf líka að vera hægt að koma til móts við byggðarlögin í landinu með því að þar ríki réttlæti. Það kerfi

sem við búum við núna stuðlar að réttlæti og umræðan um það kerfi hefur gengið út á það allan tímann að reyna að finna eitthvert réttlæti milli manna sem stunduðu útgerð einhver tiltekin þrjú ár á þessari öld. Réttlæti byggðarlaganna, fólksins sem vinnur við fiskinn og annarra hefur ekki komið inn í þessa umræðu. Umræðan snýst eingöngu um það hvað viðkomandi útgerðarmenn eigi að fá.
    Ég tel að þetta kerfi verði að vera þannig að ekki sé möguleiki á því að milliliðir fái tækifæri til að maka krókinn í sambandi við sölu á veiðileyfum eða meðhöndlun með þau. Það þarf líka að fela í sér að fiski verði ekki hent í sjóinn og hagrætt verði í greininni. Þessi sjóður sem við erum að tala um, Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins, er settur á stofn vegna þess að menn treystu ekki því kerfi sem var í gildi til þess að tryggja hagræðinguna. Þeir menn sem trúa mest á kerfið töldu hann óþarfan. Sameining veiðiheimilda væri aldeilis nóg. En hvernig hefur það gengið? Það hefur ekki gengið vel. Það er kannski fyrst á þessu ári og því síðasta sem eitthvað hefur miðað í áttina í sambandi við sameiningu veiðiheimilda. En það er ekki um að ræða að það hafi verið neinar stórar breytingar á þessu.
    Ég tel líka að það þurfi að skapa möguleika fyrir nýjungar til að þróast í sjávarútveginum. Það er mjög erfitt eins og þetta kerfi er núna. Ég held líka að tækist mönnum að finna leið út úr þessu væri kominn tími til að menn settust að því borði, en einmitt núna og þar kem ég að því sem hv. síðasti ræðumaður var að tala um, þá þurfum við að taka á mörgum vandamálum. Ég held að það sé ekki seinna vænna og ég ætla að vona að hæstv. sjútvrh. fái sínar hugmyndir ræddar sem fyrst í ríkisstjórninni og þeim verði fylgt til enda því ég tel að í þeim sé ýmislegt sem betur megi horfa. En þar til viðbótar vil ég nefna fáein atriði. Ég tel t.d. að það eigi að reyna að mynda einhvers konar millibilsástand á meðan endurskoðun fiskveiðistefnunnar stendur yfir. Það verði að koma í veg fyrir að þau vandamál sem eru að skapast út um allt verði stærri en þau eru núna. Ég held að það komi til greina að skoða möguleika á að hægja á eða stöðva flutning veiðiheimilda milli byggðarlaga og jafnvel milli skipagerða, t.d. með kvótaskerðingu eða eitthverju þvílíku, tímabundið á meðan menn eru að skoða þessi mál. Ég held það þurfi að lýsa því yfir til að hreinsa loftið að ekki sé ætlunin að taka tvöföldunina af línunni á meðan þessi tími líður. Ég held að það eigi líka að lýsa því yfir að ekki standi til að taka krókaleyfin af bátum undir sex tonnum. Ég held að full ástæða sé til að skoða það. Ég held að það þurfi að koma aðgerðir sem allra fyrst sem gera mönnum mögulegt að koma með allan fisk að landi sem þeir veiða, þó svo þeir eigi kannski ekki kvóta fyrir honum. Ég held það sé full ástæða til að skoða þau mál. Ég held að það eigi líka að stoppa það af og það þarf að gerast strax að menn séu að panta eða semja um kaup á frystiskipum. Ég held að menn verði bara að koma sér að því verki vegna þess að mér er kunnugt um það að það er ekki eitt eða tvö, það eru tugir fyrirtækja í landinu að leita eftir kaupum á frystiskipum. Ef menn skoða ekki núna hvort þeir ætli sér að horfa upp á þetta gerast eða hvort menn vilja hægja á því á meðan verið er að skoða þessi mál, þá standi menn uppi með það, eftir ekki langan tíma, að búið verði að festa kaup á fjölmörgum skipum sem þýðir að mjög margir muni missa atvinnuna.
    Ég held líka það liggi á að setja reglur um auknar gæðakröfur í sjávarútvegi og að setja reglur um fiskmarkaðina til að liðka fyrir framtíðinni. Það er ekki langt þangað til nýju reglurnar í EB-löndunum ganga í gildi og við þurfum allan þann tíma til þess að koma okkar málum í a.m.k. álíka gott horf og er hjá þessum ríkjum.
    Ég tel að hugmyndin um það að fénýta Hagræðingarsjóðinn með þeim hætti sem hér er lagt til, sé vitleysa og sérstaklega núna meðan þessi mál standa svona sé rangt að vera að ræða þetta. Ég tel eðlilegast að menn drægju hugmyndina til baka og drægju hana

inn í þá umræðu sem þarf að fara fram um öll þessi mál. Menn reyni heldur að koma sér niður á einhvers konar þrýstingsástand sem kemur í veg fyrir fleiri slys í þessari atvinnugrein á meðan endurskoðun fiskveiðistefnunnar fer fram.
    Þegar við ræðum endurskoðun fiskveiðistefnunnar finnst mér furðulegt að hlusta á fyrrv. hæstv. sjútvrh. halda hér ræðu og hann er svo viss í sinni sök að þetta kerfi sé gott að hann sagði, ef ég man orðrétt ,,að þetta væri eina leiðin til að stjórna veiðum við Ísland``. Ég verð nú að segja það alveg eins og er að ég undrast þetta. Hins vegar býst ég við og ég efast ekkert um það að maðurinn mælir þetta í fullri einlægni en það lýsir ekki miklu hugmyndaflugi eða að það séu möguleikar til að breyta eða skoða nýjar hugmyndir að ekkert skuli geta breyst í kerfinu að mati hæstv. fyrrv. sjútvrh.
    Ég ætla ekki að halda langa ræðu. Ég tel ekki vera neina sérstaka þörf á því. Bæði er nú það að hér eru ekki mjög margir þingmenn mættir og aðrir sem hafa þó verið hér á stjái sjást ekki lengur. Hæstv. sjútvrh. er t.d. ekki hér í salnum. Ég ætla ekki að krefjast þess að hann komi hingað, einfaldlega vegna þess að ég tel að þessi umræða eigi að fara fram síðar. Ég fer fram á það að menn fresti umræðum um þetta mál af þeim ástæðum sem ég taldi upp áðan. Ég tel enga ástæðu til að eyða tíma þingsins eftir að við í stjórnarandstöðunni erum búin að fá það hér yfir okkur að við séum að tefja málin. Mér finnst engin ástæða til þess að við séum að eyða tíma þingsins í það að ræða mál sem ekkert liggur á. Og ég lýsti því áðan að það er ekki fyrr en í september á næsta ári sem færi að reyna á þessa hluti. Það er ekki meiningin að þetta hafi áhrif á þann fisk sem syndir í sjónum fram að þeim tíma og þess vegna getum við að skaðlausu fyrir allt þetta mál fært umræðuna fram yfir áramótin og hæstv. forseti getur þess vegna nýtt tíma þingsins til annarra hluta. Ég undrast það satt að segja að okkur skuli vera sett fyrir verkefni í þinginu núna, eftir þá ádrepu sem við fengum að heyra hér, sem getur vel beðið.