Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

39. fundur
Mánudaginn 02. desember 1991, kl. 15:22:00 (1456)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vil þakka viðskrh. svör hans um leið og ég ítreka það að í þeirri spurningu sem ég varpaði fram, þar sem ég lýsti eftir þeim pólitísku rökum sem nefnd eru þarna, var af minni hálfu ekki neitt neikvætt. Hins vegar vil ég enn leita eftir svörum við þessu sem ekki hafa fengist fyrr en í þessari ræðu viðskrh. þar sem hann nefndi það að sú pólitík sem þarna stæði á bak við væri að beita reglum um gengisskráningu til þess að festa enn í sessi þá viðskiptalegu hagsmuni sem menn hafa verið að leita eftir í samningunum um Evrópskt efnahagssvæði.
    Að vísu lýsti viðskrh. þessu ekki beint sem sinni skoðun en ég held að við þurfum að skoða þetta mjög vel og gæta fullrar varúðar gagnvart því að tengja okkur ekki meira einu viðskiptasvæði heldur en okkur ber nauðsyn til vegna brýnna viðskiptalegra hagsmuna og þeirra viðskiptasamninga sem við gerum við þá aðila.