Íslenski menningarfulltrúinn og íslensk menningardagskrá í Lundúnum

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 13:50:00 (1469)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Aðdragandi þess máls að gerður var ráðningarsamningur til tveggja ára í tilraunarskyni við menningarfulltrúa sem nú starfar við sendiráðið í Lundúnum er sá að stjórn Bandalags ísl. listamanna gerði um það sérstaka samþykkt og tók upp viðræður við utanrrn. um að ráðuneytið kæmi á fót slíkri starfsemi. Samráð við menntmrn. um málið var því út af fyrir sig ekki formlegt. Ákvörðunin var tekin í utanrrn. í framhaldi af þessum óskum. Hér er um að ræða tímabundinn samning til tveggja ára til reynslu.
    Hin glæsilega menningardagskrá, sem fór fram 1. des. í Lundúnum, var að sjálfsögðu undirbúin af menningarfulltrúanum og þurfti ekki sérstakt samráð við ráðuneytið um það. Hún var á hans ábyrgð en þar sem að utanrrh. fyrir tilviljun gat sótt þessa hátíð er rétt að það komi fram að hún var landi og þjóð til sóma.