Umboðsmaður barna

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 14:16:00 (1485)

     Flm. (Guðrún Helgadóttir) :
     Hæstv. forseti. Það mál sem liggur fyrir á þskj. 128 er nú flutt í fjórða sinn. Það var fyrst flutt á 109. löggjafarþingi og voru flm. þá Guðrún Helgadóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Kristín S. Kvaran og Hjörleifur Guttormsson. Það var síðan flutt á 110. löggjafarþingi og voru þá flm. sá ræðumaður sem hér stendur, Árni Gunnarsson og Hjörleifur Guttormsson.
    Þegar málið var flutt í þriðja sinni voru meðflm. mínir Árni Gunnarsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir, Hjörleifur Guttormsson og Jón Kristjánsson. Nú þegar málið er flutt í fjórða sinni eru flm. ásamt mér Hjörleifur Guttormsson, Jón Kristjánsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Það er því ljóst að allmargir hv. þm. hafa komið nálægt þessu máli, sýnt því áhuga og viljað koma því í gegnum þingið.
    Það frv. sem nú liggur fyrir er efnislega nákvæmlega eins og það var flutt í þriðja sinn. Fyrir þá hv. þm. sem ekki hafa áður heyrt fjölmargar ræður sem fluttar hafa verið fyrir þessu frv. vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa frv. Það hljóðar svo:
  ,,1. gr. Tilgangur laga þessara er að tryggja réttindi barna í samfélaginu og að tillit sé tekið til hagsmuna þeirra við löggjöf og aðrar stjórnvaldsákvarðanir.
    2. gr. Setja skal á stofn embætti umboðsmanns barna. Alþingi kýs umboðsmann til fjögurra ára í senn. Umboðsmaðurinn skal hafa sérþekkingu á sviði uppeldismála og málefna er varða velferð barna.
    3. gr. Alþingi skipar sjö manna ráð til fjögurra ára í senn, sem vera skal umboðsmanni til ráðgjafar, eftir tilnefningu eftirtalinna aðila: Barnaverndarráðs Íslands, Fóstrufélags Íslands, Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa, Kennarasambands Íslands, Sálfræðingafélags Íslands, Félags þroskaþjálfa og Félags uppeldisfræðinga. Kostnaður af störfum ráðsins greiðist úr ríkissjóði.
    4. gr.`` --- Þar er einmitt tilgangur laganna. --- ,,Umboðsmaður barna skal vinna að þeim málum er sérstaklega snerta hagsmuni barna og hafa frumkvæði að úrbótum þar sem hann telur að á rétt þeirra sé gengið. Jafnframt skal hann fylgjast með því að samþykktir og ákvarðanir stjórnvalda, er snerta hagsmuni barna, séu framkvæmdar á tilsettum tíma.
     Meginverkefni umboðsmanns skulu vera:
    1. að fylgjast með löggjöf og ákvörðunum sem stjórnvöld taka og snerta hagsmuni barna og vekja á því athygli sé þeirra ekki gætt,
    2. að fylgjast með framkvæmd laga og reglna er varða hagsmuni og réttindi barna,
    3. að hafa frumkvæði að úrbótum varðandi réttindi og aðstæður barna svo að þeim séu tryggð sem best og hollust uppvaxtarskilyrði,
    4. að vekja athygli á þeim árekstrum sem kunna að eiga sér stað milli hagsmuna barna og hinna fullorðnu í samfélaginu og vinna að lausn þeirra í samráði við þá aðila sem með þau mál fara,
    5. að vera opinberum aðilum og einstaklingum til ráðgjafar um allt það sem verða

má til hagsbóta fyrir börn og hafa náið samstarf við alla þá aðila sem með málefni barna fara,
    6. að vísa þeim aðilum sem til hans leita til réttra aðila sé erindið ekki í verkahring hans sjálfs,
    7. að gangast fyrir rannsóknum á aðstæðum barna í samfélaginu og veita upplýsingar um stöðu þeirra, jafnt til einstaklinga sem opinberra aðila.
    Umboðsmaður skal starfa að eigin frumkvæði, sem og eftir ábendingum frá öðrum. Hann skal sjálfur meta ástæðu til ábendingar í samráði við umboðsráðið.``
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki tefja tímann með því að lesa lengra þar sem hinar fjórar greinarnar eru kannski ekki eins lýsandi um efni frv. en meira tæknilegs eðlis.
    Meginástæðan fyrir því að ég legg þetta frv. fram enn einu sinni er sú að fyrir hinu háa Alþingi liggur nú frv. til barnalaga á þskj. 73. Í almennum athugasemdum um það, sem lesa má á bls. 17 í greinargerð með frv., er tekið fram að sifjalaganefnd sú sem samdi það frv. athugaði hvort skipa ætti sérstakan umboðsmann barna. Segir þar, með leyfi forseta:
    ,,Setti nefndin fram hugmyndir sínar um slíkan umboðsmann í fskj. með frv. Nefndin var þeirrar skoðunar að hentast væri að sérlög yrðu sett um umboðsmanninn og þyrfti að gæta þar vel tengsla við barnaverndarlög og barnalög og þau úrræði til verndar börnum er fælust í þeim lögum. Eftir að frv. til barnalaga var samþykkt hefur verið komið á fót embætti umboðsmanns Alþingis sem var mikil réttarbót. Á síðustu þingum hafa verið flutt frumvörp til laga um umboðsmann barna og er þar gert ráð fyrir sérlögum um það efni og eigi að þau tengist efnislega við barnalög. Sifjalaganefnd er enn þá þeirrar skoðunar, að best fari á að skipa þessu máli með sérlögum. Hefur nefndin því ekki fjallað um frv. um þetta efni, enda þess ekki sérstaklega óskað. Eins og fram kemur í grg. með frv. til barnalaga 1981 telur sifjalaganefnd þetta mál mikilvægt.``
    Þessi orð eru ástæðan fyrir því að ég áræddi að bera þetta frv. fram í fjórða sinni. Þetta mál á sér næsta undarlega sögu hér í þinginu vegna þess að í hvert skipti sem það verið flutt hefur það hlotið hinar ágætustu móttökur. Það hefur farið til nefndar og farið til umsagnar fjölmargra aðila og ævinlega hafa þær umsagnir verið afar jákvæðar og þeir sem beðnir hafa verið um umsögn hafa skilað beiðni til hins háa Alþingis um að þessi lög mættu ná fram að ganga.
    Hér er ekki verið að tala um stórkostleg útgjöld. Í febrúar 1991 kom umsögn frá fjmrn. um hvað slíkt embætti mundi kosta --- fjölmargar umsagnir fylgja á eftir greinargerð með frv. á þskj. 128 og geta menn lesið þær sjálfir. Fjmrn. áætlar þar að rekstrarkostnaður embættisins verði um 3,5 millj. kr. á ári og þar vegi þyngst launakostnaður umboðsmanns og ritara. Auk þess er gert ráð fyrir 500 þús. kr. kostnaðarauka á ári vegna nefndarlauna fyrir setu í ráðinu sem skipað verður verði frv. að lögum. Annað eins hefur nú verið ráðist í í okkar landi og slík fjárútlát.
    Þeir einstaklingar sem kallaðir eru börn, þ.e. á aldrinum 0--15 ára, eru um fjórðungur þjóðarinnar. Við skyldum ætla að sá stóri hópur Íslendinga þyrfti að hafa málsvara sem gætti hagsmuna hans. Síðan frv. var fyrst flutt hefur verið sett á laggirnar embætti umboðsmanns Alþingis og vissulega var eðlilegt að menn kynnu að spyrja: Er það ekki nóg? Getur ekki umboðsmaður Alþingis verið umboðsmaður allra Íslendinga?
    Frv. var ekki sent til umsagnar umboðsmanns Alþingis, en ég hafði tal af umboðsmanni til þess að bera þetta undir hann. Hann taldi að vitaskuld gæti það komið fyrir að hann sæi um málefni sem snerta börn en hann taldi að til þess að fylgst yrði með stjórnvaldsaðgerðum sjálfkrafa um allt það er varðar hag barna í landinu væri alveg nauðsynlegt að sérstakur umboðsmaður annaðist þann málaflokk þó að einstöku mál sem upp kynnu að koma þar sem gengið væri á rétt barna kæmu til hans embættis.

    Í stuttu máli. Sálfræðingafélag Íslands, Þroskahjálp, Barnaheill, Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa, Barnavinafélagið Sumargjöf, Foreldrasamtökin sem síðar urðu að félagsskap sem kallaður er Samfok, og Félag íslenskra sérkennara, Félag þroskaþjálfa, Fóstrufélag Íslands, Öryrkjabandalag Íslands og ótal aðrir aðilar mæltu eindregið með að þetta frv. næði fram að ganga.
    Með frv. fylgir upphaflega greinargerðin sem fylgdi málinu úr hlaði og lesa má í þingtíðindum ótal ræður þar sem um málið hefur verið fjallað. Ég tel ekki rétt að hefja eina framsögu enn fyrir málinu með því að fara yfir öll þau atriði sem ábótavant er í okkar samfélagi. Það er næstum sama hvert litið er. Í skipulagsmálum er ekki tekið tillit til barna. Hverfi eru oftlega byggð án þess að tekið sé tillit til yngstu borgaranna sem um það eiga að ferðast. Menningargeirinn er álíka, allt of lítið barnaefni er að finna í fjölmiðlum hvort sem er einkafyrirtækja eða ríkis. Börn eru almennt ekki spurð hvað henti þeim eins og við þekkjum öll og því meiri skyldur sem lagðar eru á kennara landsins þar sem foreldrar eru almennt fjarri heimilum sínum við vinnu á venjulegum vinnudegi, þeim mun minna er komið til móts við þarfir barnanna og lítið gert í því að samræma vinnutíma barna og foreldra. Við sem höfum barið augum bandorminn svokallaða, en það er frv. hæstv. ríkisstjórnar til laga um ráðstafanir í efnahagsmálum, sjáum ekki að úr eigi að bæta nema síður sé. Því sem ávannst með setningu laga um leikskóla og grunnskóla á síðasta þingi skal nú öllu frestað.
    Ég held, hæstv. forseti, að hér sé allnokkuð alvörumál á ferðinni. Ég sat á laugardaginn var þing um barnamenningu og barnabækur í Hafnarborg í Hafnarfirði þar sem hver fagmaðurinn á fætur öðrum gerði grein fyrir rannsóknum á lestrarkunnáttu íslenskra barna. Kennarar fullyrða að málþroska barna og lestrarhæfni --- það er ekki alveg sama og lestrarkunnátta --- fari hrakandi svo merkjanlegt sé með hverju ári. Það leiðir af sjálfu að þjóðfélagsaðstæður okkar hafa breyst og minna um það að börn umgangist fullorðið fólk, og ég get ekki stillt mig um að benda á grein sem birtist í Morgunblaðinu 24. nóv. eftir Ragnheiði Briem, doktor í kennslufræði og kennara í íslensku og málvísindum við Menntaskólann í Reykjavík. Þar segir Ragnheiður um þetta efni, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Móðurmálskunnáttu Íslendinga, einkum ungu kynslóðarinnar, er áfátt. Þetta lýsir sér þannig að ungt fólk á æ erfiðara með að tjá hugsanir sínar, bæði munnlega og skriflega. Orðaforði hefur rýrnað mjög svo að nú skilja nemendur ekki mál sem lá ljóst fyrir jafnöldrum þeirra fyrir tveimur áratugum. Þetta veldur m.a. því að kennarar þurfa að eyða dýrmætum tíma í að þýða ósköp venjulegar námsbækur á hálfgert barnamál ef efni þeirra á að komast til skila. Enskuslettum hefur fjölgað, kunnátta í beygingarfræði er í molum, ritleikni, þar með talin réttritun, er á svo lágu stigi að mikill hluti framhaldsskólanema getur alls ekki talist sendibréfsfær.``
    Hér er tekið djúpt í árinni svo að ekki sé meira sagt. En einmitt í þessari grein rekur Ragnheiður Briem síðan ýmislegt sem mætti gera til að bæta úr þessu en telur að of lítið sé komið til móts við börnin, t.d. varðandi lestur Íslendingasagna og lestur fjölskrúðugri texta en auðvitað ber allt að sama brunni. Námsgagnastofnun er ein af þeim stofnunum sem svelt er fjárhagslega og ræður þess vegna ekkert við þann vanda sem henni hefur verið lagður á herðar.
    Ég býst við að þeir sem hér sitja og hlýða á mál mitt geri það vegna þess að þeir hafi áhuga á málinu. Þess vegna skal ég ekki taka lengri tíma í að mæla fyrir frv. Það er allítarlega frá því gengið og umsagnir birtar með því. Það á síðan eftir að fara til nefndar og ég vænti þess að menn sem sitja í hv. allshn. sjái til þess að að um frv. verði fjallað. Ég held hins vegar að við séum að komast í allnokkurn vanda með yngstu kynslóðina okkar ef ekki verður eitthvað gert til úrbóta. Því hygg ég að við gætum beðið stærri

skaða en við gerum okkur ljóst eða auðvelt verði að bæta.
    Hæstv. forseti. Ég treysti því að ég þurfi ekki að tala fyrir þessu máli oftar. Ég hef gert það allítarlega þrisvar sinnum. Sérstökum áhugamönnum er bent á þingtíðindi og er þar fleiri ræður að finna en mínar. Margir hafa tekið mjög vel undir þetta mál. Ég treysti nú hinu háa Alþingi að sjá svo til að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi. Ég hafði þegar, virðulegur forseti, minnst á hv. allshn. Ég bið auðvitað þess að frv. fari til meðhöndlunar í hv. allshn. að lokinni umræðu.