Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 15:20:00 (1493)

     Jóhann Ársælsson :
     Virðulegur forseti. Ég get út af fyrir sig tekið undir margt af því sem kemur fram í þessu frv. og ég tel það góðra gjalda vert sé að setja reglur um nýtingu afla og annað slíkt um borð í þessum skipum og reyndar í öllum fiskiskipum sem veiða við Ísland. Aftur á móti finnst mér dálítið bera á því að menn séu með þessu frv. að reyna að hamla með einhverju móti gegn þeirri þróun sem er í gangi núna, þ.e. að atvinnan flytjist út á sjó. Ég verð að segja eins og er að mér finnst ekki tekið nógu myndarlega á ef það er meiningin að draga úr þeirri þróun. En ég tel að þetta frv. bendi eindregið til þess að það sé samt tilgangurinn.
    Það er sagt í almennum athugasemdum við frv. að af hálfu hins opinbera hafi ekki verið lagðar beinar hömlur við fjölgun fiskiskipa fram að þessu og það er auðvitað alveg

rétt. Einnig segir að það sé ekki meiningin. Fullvinnsluleyfi verði hins vegar gefið út til allra þeirra skipa sem fullnægja almennum skilyrðum. Með frv. sé því ekki verið að leggja til opinbera takmörkun á útgáfu slíkra vinnsluleyfa. Engu að síður sé líklegt að auknar kröfur muni hægja á þeirri þróun að fiskvinnslan flytjist út á sjó og ég tel að það sé kannski ekki síður ástæðan fyrir því að þetta frv. kemur fram. Það er mín skoðun að það þurfi að hægja meira á þessari þróun núna en gerist með þessu frv. Ég tel fulla ástæðu til að koma á einhvers konar ,,frystingarástandi`` gagnvart breytingum í flotanum meðan verið er að endurskoða fiskveiðistefnuna og þess vegna þurfi aðrar aðgerðir en þær sem hér koma fram þó að ég út af fyrir sig geti samþykkt þær sem slíkar í þeim tilgangi að auka nýtingu á þeim fiski sem veiðist við landið.
    Þær röksemdir, sem útgerðarmenn og aðrir sem vilja að þessum skipum fjölgi, hafa fyrir sínu máli eru fyrst og fremst rekstrarlegs eðlis. Það hefur komið fram að verulegur hagnaður hefur verið af því að reka þessi skip og margar útgerðir hafa þess vegna horft hýru auga til þess að breyta sínum rekstri, færa aflakvóta sinn yfir í skip sem gefa meira af sér. Það er því hörmulegt til að þess að vita að menn skuli ekkert vita um það í þjóðfélaginu hvort það sé þjóðhagslega hagkvæmt að færa kvótann yfir á þessi skip. Það skuli engir útreikningar vera til um það og ég tel að við svo búið megi ekki lengur standa, að menn séu að þræta um það, án þess að hafa um það neinar almennilegar upplýsingar, hvort þjóðhagslega hagkvæmt sé að vinna fiskinn úti á sjó með þessum hætti. Auðvitað vitum við að helsta ástæðan fyrir því að hátt verð fæst fyrir þann afla, sem unninn er um borð í þessum frystiskipum, er að hann er allur unninn ferskur. Og það er undarlegt að heyra forsjármenn útgerðarinnar í landinu þræta um það jafnvel opinberlega að fiskurinn sé unninn of gamall í landi þegar sönnunin liggur á borðinu. Hún liggur auðvitað á borðinu í því verði sem fæst fyrir þann fisk sem unninn er um borð í þeim frystiskipum sem til eru við landið.
    Ég tel aftur á móti ekki heppilegt að menn fari blindandi inn á þá braut, sem fjölmargir útgerðaraðilar eru lagðir af stað á, að kanna möguleika á að breyta sínum skipum yfir í frystiskip. Í þessu frv., sem að mínu viti er mjög þarft, koma einmitt fram upplýsingar um að fjölmargir aðilar séu að kanna þá möguleika.
    Einnig er bent á það sem menn hafa auðvitað rætt um undanfarin ár en það er nýtingin um borð í þessum skipum. Þau nýta aflann með flökunarvélum og mörg hver geta ekki nýtt úrganginn, slógið og hausana, heldur fer þetta allt saman í sjóinn og nýtist ekki.
    Ég var á ferð með sjútvn. á Akureyri um daginn og hafði ekki fyrr séð þessar nýjustu hausunarvélar sem notaðar eru í frystihúsunum í gangi. Þessar vélar hausa þannig að klumbubeinið fylgir með hausnum og ég veit að nýtingin um borð í þessum frystiskipum hlýtur að vera mjög slæm vegna þess að þau nota svona hausunarvélar. Aftur á móti nýtast hausar og klumbubein að töluverðu leyti hjá frystihúsunum vegna þess að þau eru farin að herða og nýta sér fés og annað sem til fellur þegar búið er að vinna fiskinn. Á þessu er tekið í þessu frv. og er það vel.
    Ég held að út af fyrir séu ekki svo margar athugasemdir sem ég vilji gera við sjálft frv. en ég vil hvetja til að menn velti því alvarlega fyrir sér að gera meira en þetta til að koma í veg fyrir veruleg vandamál í þjóðfélaginu vegna flutnings aflaheimildanna yfir á skip sem vinna aflann úti á sjó.
    Eina athugasemd vildi ég gera í sambandi við frv. Á einum stað er talað um að þessar kröfur muni verða til að jafnvel þurfi að rýmka reglur um stækkun fiskiskipa til að fiskiskipin geti komið til móts við þær kröfur sem gerðar eru í frv. um pláss fyrir nýja vinnslu. Ég held að menn þurfi að hugsa sig vel um áður en þeir leggja fram hugmyndir um að úrelding þurfi ekki að koma til vegna stækkunar fiskiskipa því að býsna erfitt

verður að meta umsóknir um breytingar á skipum ef menn sleppa því lausu aftur að ekki þurfi úreldingu vegna stækkunar skipa.
    Ég held að það sé einnig álitamál hve langur tími er gert ráð fyrir að líði þangað til öll skip eiga að uppfylla þessar kröfur. Talað er um 1. sept. 1996. Ég tel að full ástæða sé til að fylgja þessu hraðar eftir og menn ættu að skoða þann möguleika að stytta þennan tíma. Ég held að meðan þjóðhagsleg hagkvæmni þess að gera svo afdrifaríkar breytingar á nýtingu afla sem fiskast hér við land hefur ekki verið metin sé ekki um annað að ræða en doka við. Ég veit að það eru margir tugir af útgerðarmönnum sem eru að velta fyrir sér að breyta sínum skipum og það verða mörg hundruð manns sem missa atvinnuna ef það gerist og það er mjög líklegt að ákvarðanirnar í þessu efni verði teknar á næstu mjög fáum mánuðum. Þess vegna hvet ég til þess, eins og ég sagði áðan, að menn gái að sér.