Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 15:48:00 (1497)

     Gísli S. Einarsson :
     Ágæti forseti. Virðulegi þingheimur. Hér er verið að ræða mál sem varðar hvað mestu um hag íslensku þjóðarinnar og ég tel að það sé ekki fært annað en taka til máls undir þessum lið þó að ég sé hér mest í námi. Það sem vakti athygli mína var 4. gr. frv. varðandi matsmenn. Ég velti því fyrir mér hvort matsmaðurinn á að vera hlutaskiptamaður eða hvort hann á að vera ráðinn af útgerðinni sér. Það er reyndar gert ráð fyrir því að sá aðili sé hlutaskiptamaður. Ég vildi sjá einhvern af þeim sem núna stunda sjó vera í því hlutverki að eiga að segja til um hvernig þetta skuli fara fram. Að sjálfsögðu yrði allt sett fyrir borð eins og gert er í dag sem væri óhagkvæmt. Manni er sagt að það gerist að hnakkastykkin og sporðstykkin komi upp í næstu trollum vegna þess að vélarnar taka ákveðna stærð af fiski þannig að hluta af aflanum er kastað. Það er komið í veg fyrir það í frv. að þetta gerist og ég tel að frv. sé af hinu góða.
    Frystiskipin eru með stærsta kvótann, þau hafa haft besta afkomu, hafa getað tekið sér mestu umráðin. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé rétt að gera þeim sem hafa umráðarétt yfir kvóta það skylt á aðlögunartímanum að þeir komi í land með a.m.k. 40% af þeim afla sem þeir hafa yfir að ráða ísaðan og óunninn. Þetta mundi setja ákveðnar takmarkanir því að ég tel að það sé alveg auðsætt að þetta frv. eigi að vinna gegn þeirri þróun sem nú er að fullvinnsla afla fari fram á hafi úti. Þar með eru brotin vökulög og annað. Það sem gerist um borð er sennilega ekki öllum kunnugt. Menn standa sig örþreytta vegna þess að þeir hafa mestan hagnað af því að koma heim með sem mest af aflanum unninn.
    Ég vil taka undir orð um það að gera verður fiskvinnslunni í landinu kleift að komast af. Það er grundvallaratriði. Það er ekki hægt að reikna með öðru en að menn færi sig stöðugt yfir í frystiskipin ef þeir geta ekki komist af með þann vinnslumáta sem þeir hafa yfir að ráða. Og hvað gerist þá hjá þessari þjóð sem lifir af fiski? Hvað verður þá um fólkið sem er heima í fiskveiðibæjunum? Hvað á það að gera? Ég spyr og ég óska þess að sem flestir velti því fyrir sér, hvað er núna að gerast? Það er verið að smíða, ef ég veit rétt, þrjú frystiskip fyrir 3 milljarða, eða nálægt þremur milljörðum, erlendis. Hvað þýðir þetta? Það eru ekki bara 108 þús. tonn sem á að veiða. Þau eiga að veiða meira vegna þess að þessi skip gefa afkomuna til þess að geta sölsað undir sig meiri kvóta og þetta er afskaplega einfalt.
    En ég vil þakka fyrir þetta frv. Það er mjög þarft en mér finnst það ekki ganga nógu langt.