Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 18:36:00 (1528)

     Jóhann Ársælsson :
     Virðulegi forseti. Mér datt hreinlega ekki í hug að þessi tillaga yrði tilefni þeirrar umræðu sem hefur farið hér fram en ég þakka sérstaklega hv. 17. þm. Reykv. fyrir að hafa sett þessa umræðu á flot því hún er virkilega þörf. Það er mikil þörf á að ræða þessi mál á Alþingi. Ég hafði ekki hugmyndaflug til að láta mér detta það í hug að menn teldu að málefni skipasmíðaiðnaðarins á Íslandi mundu leysast með því að fá það frv. samþykkt sem hér er til umræðu, því miður. Ég á ekki von á því að þau skip sem koma til viðgerða á

Íslandi, hvort sem þau eru frá Sovétríkjunum, Færeyjum eða Grænlandi og hvort sem þau verða einu skipinu fleiri eða færri, verði til þess að skipasmíðastöðvar allt í kringum landið fái nóg að gera. Það er svo langur vegur frá því.
    Ég vil nota tækifærið til þess að lýsa yfir ánægju minni með þá yfirlýsingu sjútvrh., sem kom fram fyrr í dag, að hann hefði beitt sér gagnvart stjórn Fiskveiðasjóðs til þess að fá hana til þess að lækka lánafyrirgreiðslu sína við erlendar skipasmíðar því Fiskveiðasjóður er sannarlega einn af stærstu aðilunum sem hefðu getað haft áhrif á það á undanförnum árum hvort íslenskar skipasmíðar hefðu getað lifað eða ekki. Það hefur verið mjög neikvæð afstaða til íslenskra skipasmíða hjá ákveðnum hópum í þjóðfélaginu. Þá er ég fyrst og fremst að tala um forráðamenn sjávarútvegsins í landinu sem hafa talið að þeir ættu að hafa allan rétt til þess að láta smíða skip fyrir sig hjá erlendum skipasmíðastöðvum án þess að nokkurs staðar kæmi fram nokkur mismunur á því og að smíða innan lands. Þessir aðilar hafa talið sig eiga einkarétt á því að fá að veiða fisk úr sjó við Ísland, en ekki talið sig hafa neinar skyldur við aðrar atvinnugreinar í landinu. Ég tel að það hefði átt að koma til móts við skipasmíðaiðnaðinn fyrir löngu, ekki með niðurgreiðslum, eins og hæstv. iðnrh. er að tönnlast á í ræðustól, heldur með jöfnunargjöldum sem menn hafa notað í öðrum iðngreinum í landinu og kosta ríkissjóð minna en ekki neitt. Ég tel forkastanlegt að í mörg ár hafa t.d. Norðmenn leikið sér að því að halda uppi atvinnu í heilu byggðarlögunum með smíðum á skipum fyrir Íslendinga á sama tíma og skipasmíðaiðnaðurinn er að hrynja í landinu. Ég tel að við hefðum átt að bregðast við þessu fyrir langa löngu með einhvers konar jöfnunargjöldum á smíðarnar.
    Þegar hæstv. iðnrh. ítrekað upplýsir það að hann telji að niðurgreiðslurnar séu á undanhaldi og muni jafnvel hverfa á árinu 1993, þá segir maður nú bara: Eftir hverju eru menn að bíða með það að reyna að bjarga því sem bjargað verður af íslenskum skipasmíðum? Sannleikurinn er sá að það munu líklegast ekki vera nema þrjár skipasmíðastöðvar í dag, og varla meira en tvær, sem ekki hafa misst verulega mikið af sínu vinnuafli í burtu og eru búnar að tapa frá sér bæði þekkingunni og starfsþjálfuninni sem fyrir var í þessum stöðvum. Í skipasmíðastöðinni á Akureyri, sem hér hefur verið um rætt, hefur starfsfólki þegar verið fækkað. Öðrum skipasmíðastöðvum er búið að loka. Skipasmíðastöðin á Akranesi er búin að missa stóran hluta af þeim starfskrafti sem vann við skipasmíðar. Þótt menn styngju við fótum núna er langt í land að koma skipasmíðastöðvunum í það horf sem þær voru í þegar best var.
    Hæstv. iðnrh. hefur, eins og ég sagði áðan, ítrekað talað um að við gætum ekki keppt við ríkissjóði annarra landa. Það hefur enginn lagt til. Það hefur enginn verið með tillögur um að við ættum að fara í samkeppni við ríkissjóði annarra landa. En ég tel að útgerðin á Íslandi þurfi að taka þátt í því að byggja upp annað atvinnulíf hér. Ég tel að þeir sem fá leyfi til að veiða á Íslandsmiðum eigi að kaupa þjónustu á Íslandi. Ég tel að þetta stærsta iðnaðartækifæri sem við eigum í landinu, þ.e. þjónustan við útgerðina í landinu, hafi farið forgörðum á undanförnum árum. Það má auðvitað segja að það er aldrei of seint að snúa við og við skulum endilega gera það núna.
    Það er kannski rétt að ég nefni samtal í sjónvarpi, sem ég hlustaði á og finnst lýsa einna best afstöðu útgerðarmanna á Íslandi til skipasmíða í gegnum tíðina. Það var viðtal sem var haft við Kristján Ragnarsson, formann Félags ísl. útvegsmanna, þegar togarinn Bessi kom til landsins. Þá sagði hann beinum orðum að íslenskar skipasmíðastöðvar hefðu ekki getað smíðað þetta skip. Ég tel þetta mjög ranga fullyrðingu sem hafi raunverulega verið afsönnuð fyrir langa löngu, en hún lýsir vel afstöðu manna til þessarar atvinnugreinar í landinu. Því miður hafa íslensk stjórnvöld látið sig hafa það að gera ekki hlutina sem menn hafa kannski haft áhuga á að gera, vegna þess að útgerðarmenn í landinu hafa ekki

viljað samþykkja þá og það hefur verið tekið tillit til þeirra afstöðu allan tímann. En ég tel að þeir hafi haft rangar skoðanir á þessum málum. Ég held að það séu skammtímasjónarmið sem séu að hefna sín í dag að hafa ekki haldið íslenskum skipasmíðaiðnaði við og reyndar eflt hann frá því sem hann var þegar hann stóð best.