Kirkjugarðar

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 19:27:00 (1537)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi taka fram að mér finnst reyndar að eftir það andrúmsloft sem hæstv. viðskrh. var búinn að skapa hér í þingsal seinni partinn í dag, hefði verið vel við hæfi að gefa því málefni, sem hér var verið að mæla fyrir í framhaldi af því, aðeins betra hljóð og svigrúm í þingsölum á hinu háa Alþingi. En sú var ekki ástæðan fyrir því að ég bað um orðið um þingsköp áðan. Ég gerði það til þess að ítreka að eftir að hv. 17. þm. Reykv. og hæstv. iðnrh. voru búnir að leiða umræðuna um frv. um veiðar í íslenskri lögsögu á þá braut sem þeir kusu að gera, er það óhjákvæmilegt að, og þá kannski öðrum fremur, ráðherrar fyrri ríkisstjórnar hafi tækifæri til þess að kynna sér þann málflutning og geti tekið þátt í honum á seinna stigi umræðunnar. Það var nefnilega svo að hæstv. iðnrh. vék ekki bara að hv. 4. þm. Norðurl. e. og fyrrv. ráðherra. Hann vék með órökstuddum dylgjum að öðrum ráðherrum fyrri ríkisstjórnar þegar kom að því að þar höfðu ekki komist ákveðin mál í gegn, m.a. annað málið sem hér var til umræðu í dag og það var hin raunverulega ástæða fyrir stöðu skipasmíðaiðnaðarins í dag þannig að það er algerlega --- nú hristir hæstv. iðnrh. höfuðið og það er ósköp skiljanlegt því eins og hans hugarástand var þegar mest gekk á áðan, þá get ég ekki trúað að hann hafi fylgst að öllu leyti með hvað hann sagði, hvað þá því sem aðrir sögðu.